Miklar endurbætur hafa staðið yfir í Kringlunni síðustu mánuði eftir alvarlegan bruna í júní síðastliðnum. Hátt í 30 verslanir skemmdust, þó mismikið og hafa endurbætur staðið yfir síðan. Nú horfir heldur betur til betri vegar.
Verslanir hafa opnað aftur hver á fætur annarri og í dag er stór áfangi þegar sex verslanir opna og þær allra síðustu í næstu viku. Þær verslanir sem eru að opna í dag í glæsilegu nýuppgerðu verslunarrými eru Polarn O. Pyret, Icewear, Galleri 17, Kultur, Kultur Menn og GS skór.
,,Síðustu mánuðir hafa verið langir og erfiðir fyrir alla sem tengjast Kringlunni, viðskiptavini og rekstraraðila. Miðað við umfang skemmda er kraftaverk hvað mikið hefur áunnist við endurbætur og Kringlan í dag er jafnvel betri en ný,” segir Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar í tilkynningu.
,,Í erfiðleikum myndast oft tækifæri og við höfum náð í samstarfi við rekstraraðila að endurskipuleggja verslanaeiningar, fært til verslanir sem hafa lengi beðið eftir stærra rými auk fleiri hagræðinga. Ný og spennandi verslun opnar á næstu dögum en það er Húrra Reykjavík. Við erum við afar glöð með að fá þau í húsið og ekki í vafa um að viðskiptavinir verði það líka. Við í Kringlunni erum himinlifandi með þennan áfanga í dag. Kringlan er komin í jólaskrúða og sannarlega vel í stakk búin fyrir jólagleðina á aðventunni sem nálgast óðfluga,“ segir Baldvina.