fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fréttir

Hvar er Svanberg? – Telur elskhuga eiginkonu Geirfinns hafa lykilupplýsingar í málinu – Hefur farið huldu höfði í Þýskalandi

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 21. nóvember 2024 15:18

Svanberg með foreldrum sínum. Tími ókunnur.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við teljum hann hafa verið viðstaddan þegar Geirfinni var ráðinn bani en við teljum hann ekki hafa verið valdan að dauða Geirfinns,“ segir Sigurður B. Sigurðsson, höfundur bókarinnar „Leitin að Geirfinni“.

Vilhjálmur Svanberg Helgason (var ávallt kallaður Svanberg) er 72 ára í dag. Hann átti í ástarsambandi við eiginkonu Geirfinns Einarssonar um það leyti sem Geirfinnur hvarf, 19. nóvember árið 1974. Samkvæmt upplýsingum í umræddri bók var Svanberg staddur á heimili Geirfinns, ásamt Guðnýju, eiginkonu Geirfinns, er Geirfinnur kom þangað ásamt sameiginlegum kunningja sínum og Guðnýjar. Þar munu hafa brotist út, samkvæmt upplýsingum Sigurðar, átök á milli kunningjans og Geirfinns sem lyktaði með því að Geirfinnur lét lífið.

Segir Sigurður því ljóst að Svanberg viti um örlög Geirfinns og það sé afar mikilvægt að lögregla hafi upp á honum og ræði við hann. Svanberg hefur farið huldu höfði í Þýskalandi undanfarna áratugi og ekki er vitað um núverandi aðsetur hans en yfirgnæfandi líkur eru á því að hann búi í Berlín. Í Þýskalandi hefur Svanberg gengið undir nafninu Vilhjálmur Helgason.

Lét sig hverfa frá barnsmóður og syni

Svanberg kom á sínum tíma undir sig fótunum í Berlín, stofnaði heimili með unnustu sinni frá Filippseyjum og eignaðist með henni son. Árið 2000 yfirgaf hann barnsmóður sína og son og þau hafa hvorki heyrt hann né séð síðan. Þetta er staðfest í skriflegum samskiptum Sigurðar við barnsmóðurina, sem DV hefur undir höndum. Þar segist hún hafa misst allt samband við Svanberg í ágúst árið 2000. Konan og sonur hennar flutti síðan til Filippseyja.

Árið 2019 sýndi Sjónvarp Símans heimildaþáttaröðina Skandal. Þar komst þýski blaðamaðurinn Boris Qutram í samband við Svanberg sem síðan flúði undan honum, tæmdi íbúð sína í Berlín í skyndingu og flutti á ókunnan stað.

Um þetta leyti hafði DV tal af gömlum vini Svanbergs, Gísla Helgasyni. „Ég hef ekki séð Svanberg í 30-40 ár. Þegar hann fór héðan fyrst af landi brott trúði hann mér fyrir því að hann hefði átt í bréfasamskiptum við stúlku frá Máritíus, hann hefði fengið sendar frá henni tvær myndir en hún liti ekki eins út á báðum myndunum. Síðan var hann á leiðinni til Þýskalands en skrapp í leiðinni til Máritíus og þau voru gift eftir fjóra daga. Þau fluttu síðan til Þýskalands. Hann kom hingað um tveimur árum síðar og kynnti mig fyrir konunni. Síðar frétti ég að þau hafi skilið en að öðru leyti hef ég ekki frétt meira frá honum. Fyrir mörgum árum frétti ég síðan að Svanberg hefði horfið,“ sagði Gísli, sem bar sínum gamla félaga vel söguna:

„Hann var ekki ofbeldisfullur en hann gat farið yfir strikið þegar hann drakk og tekið upp á ýmsu. Það er óhætt að segja að hann var mikill kvennamaður og stundum stríddi hann mér með það að mér gengi illa að stíga í vænginn við kvenfólk. Almennt var hann glaðlyndur og góður félagi. Við vorum afskaplega miklir vinir.“

„Ég hef oft hugsað til hans Svanbergs. Síðast þegar ég var í sambandi við hann skrifaði hann mér frá Þýskalandi daglega því hann var nú þannig gerður blessaður að hann hafði alltaf samband þegar hann þurfti á mér að halda. Hann var í vandræðum varðandi búsetuskráningu vegna þess að hann var ekki með hreint sakavottorð á Íslandi, hafði keyrt fullur. Við vorum að hjálpa honum varðandi pappírsmál og þess háttar.“

Meðfylgjandi eru gamlar myndir frá Svanberg. Þær eru teknar nokkuð löngu eftir hvarf Geirfinns og þessi mynd er líklega frá því í kringum 1990:

 

Svanberg sagðist vera í vandræðum með konu

Gísli sagði ennfremur:

„Þegar þú nefnir þetta þá fer að rótast upp í minninu hjá mér. Það er eins og kvikni á peru. Að hann hafi sagt mér frá því að hann hafi verið að eiga við einhverja konu suður með sjó, hún væri gift og maðurinn hennar hefði horfið. Hann var í einhverjum vandræðum með þessa konu vegna þess að hún sótti stíft á hann. Hann sagði hins vegar aldrei neitt við mig sem benti þess að hann sjálfur væri viðriðinn hvarf mannsins.“

Ákall til lögreglu um að hafa uppi á Svanberg

Gögnin sem Sigurður og útgefandi bókarinnar, Jón Ármann Steinsson, hafa undanfarna daga reynt árangurslaust að koma til lögreglu, eru í raun óbirtur 13. kafli bókarinnar. Þau innihalda m.a. nöfn og tengiliðaupplýsingar mikilvægra vitna í málinu. Í þeim óbirta kafla er einnig ákall til lögreglu um að finna Svanberg og ræða við hann:

„Það er auðvelt að hafa upp á honum ef þú býrð yfir rannsóknarheimildum. Í okkar rannsókn erum við komin að þeirri línu að við getum ekki farið lengra án þess að brjóta lög. En lögregla getur aflað sér rannsóknarheimilda sem leiða hana á spor hans. Það þarf ekki annað en að fletta upp í gögnum um dánarbú foreldra hans. Hann fær líka einhvers staðar greiðslur, lífeyri og þess háttar, og þá getur lögreglan beðið um slíkar upplýsingar,“ segir Sigurður.

Vill ekki afhenda gögnin til Lögreglustjórans á Suðurnesjum

Útgefandi bókarinnar, Jón Ármann Steinsson, hefur árangurslaust reynt að afhenda yfirvöldum gögnin, ríkissaksóknara og dómsmálaráðuneyti.  Jón H. B. Snorrason, saksóknari hjá ríkissaksóknara, sagði í gær að réttur móttökustaður gagnanna væri lögreglan á Suðurnesjum, þar sem upphafleg rannsókn málsins fór fram. Það væri síðan hennar að opna rannsóknina aftur.

Sigurður segist ekki geta fallist á þetta. „Þú setur ekki svona gögn í hendurnar á einhverju héraðslögregluembætti, það er fáránlegt. Ég hélt að einhver í dómsmálaráðuneyti eða hjá ríkissaksóknara myndi taka við þessu og viðkomandi embætti myndi fara með þetta í rétta boðleið, í stað þess að við séum að fara hús úr húsi, banka og segja: „Takið þið við þessu? Takið þið við þessu?“ – Telur Sigurður mikilvægt að tilmæli um að opna sannsókn málsins á grunni þessara gagna komi frá yfirvaldi lögreglunnar en ákvörðun um slíkt verði ekki í höndum lögreglunnar á Suðurnesjum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Egill Þór er látinn

Egill Þór er látinn
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“
Fréttir
Í gær

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“
Fréttir
Í gær

Kvikmyndagerðarmaður auglýsir eftir uppljóstrara – „Ef þú býrð yfir upplýsingum sem snerta okkur öll…“

Kvikmyndagerðarmaður auglýsir eftir uppljóstrara – „Ef þú býrð yfir upplýsingum sem snerta okkur öll…“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íslenskur skurðlæknir vinnur við að bjarga slösuðum eftir árásina í Magdeburg

Íslenskur skurðlæknir vinnur við að bjarga slösuðum eftir árásina í Magdeburg