Í færslu á Facebook-síðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands kemur fram að þetta hafi gerst milli klukkan 8 og 9 í morgun þar sem áframhald varð á framskriði hraunsins til vesturs. Hafði hraunið þegar farið undir raflínur og sennilega skemmt þær.
„Njarðvíkuræð fór síðast undir hraun í febrúar og voru Suðurnesin í kjölfarið án hitaveitu í nokkra daga. Í kjölfarið var lögnin varin með því að grafa hana niður, til að tryggja virkni hennar þrátt fyrir að hraun renni yfir hana,“ segir í færslunni.
Runólfur Þórhallsson, settur sviðsstjóri hjá Almannavörnum, segir í samtali við RÚV að æðin sem slík sé ekki í hættu því hraun fari yfir þar sem hún er grafin niður. „Við fylgjumst bara mjög náið með því en fyrstu upplýsingar segja að hún sé ekki í mjög mikilli hættu.“