Í tilkynningu frá náttúruvárvakt Veðurstofu Íslands kemur fram að sprungan sé virkust um miðbik hennar og er hraunflæði áfram til vesturs og norðurs.
„Vestari hrauntungan, sú sem rennur milli Sýlingarfells og Stóra Skógfells, rann yfir Grindavíkurveg rúmlega kl. 04:30 og nálgast Njarðvíkuræð. Áætlað hraunrennsli á þessari hrauntungu er um 300 metrar á klukkustund. Nyrðri hrauntungan rennur ekki í átt að neinum innviðum.“
Benedikt Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, sagði við fréttastofu RÚV í nótt að flæðið í þessu gosi hefði hingað til verið mun minna en í síðustu tveimur eldgosum og gosvirknin verið örlítið fyrr að ná hámarki.
Hann sagði að ekki væri hægt að útiloka að virknin tæki við sér aftur en vísindamenn eigi ekki von á því.