fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fréttir

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 20. nóvember 2024 12:00

Grafarholt. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Wikimedia Commons - Roman Z

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur kveðið upp úrskurð sinn í deilumáli nágranna í Grafarholti vegna framkvæmda annars nágrannans. Reykjavíkurborg hafði frá árinu 2020 og fram á þetta ár reynt að stöðva framkvæmdirnar og lagði loks dagsektir á þann nágranna sem stóð í þeim. Sú ákvörðun var hins vegar dregin til baka og ákveðið var að borgin myndi ekki beita sér frekar í málinu og því virðist sem borgin hafi beinlínis gefist upp á deilunum en þó var ákvörðunin rökstudd með vísan til ákvæða stjórnsýslu- og mannvirkjalaga. Ósátti nágranninn kærði þessa ákvörðun borgarinnar til nefndarinnar en hafði ekki erindi sem erfiði.

Málavextir eru raktir með ítarlegum hætti í úrskurðinum.

Kærandi er eigandi neðri hæðar húss en forsaga málsins er sú að árið 2006 réðist eigandi hússins við hliðina í framkvæmdir á þakverönd bílskúrs hússins með uppsetningu upphækkaðs blómabeðs með glerveggjum og burðarstoðum. Árið 2020 voru hins vegar blómabeðin og glerveggirnir fjarlægðir og þess í stað sett upp grind sem ljós og blómapottar hafa verið hengd á. Kærandinn gerði byggingaryfirvöldum viðvart um síðari framkvæmdirnar og í kjölfarið fór fram vettvangsskoðun sem leiddi í ljós að verið væri að reisa skjólvegg við austurmörk lóðarinnar.

Á árunum 2020-2023 sendi byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar eigandanum sem stóð fyrir framkvæmdunum ítrekað bréf þar sem tilkynnt var að ekki væri til staðar byggingarleyfi, farið var fram á skýringar og að lagt yrði fram samkomulag við eigendur hússins við hliðina. Í úrskurðinum kemur fram að eigandinn hafi aldrei svarað bréfunum og loks hafi verið lagðar á dagsektir haustið 2023.

Dregið til baka

í ágúst síðastliðnum var hins vegar ákveðið á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa borgarinnar að fella niður áfallnar dagsektir og aðhafast ekki frekar vegna framkvæmdanna.

Ósátti nágranninn kærði þá ákvörðun til nefndarinnar. Hann sagði skjólvegginn sem nágranni hans hefði byggt valda skuggavarpi inn í íbúð sína og að skjólveggurinn væri byggingarleyfisskykdur samkvæmt byggingarreglugerð. Sagði ósátti nágranninn að borgin hefði meðal annars rökstutt viðsnúning sinn í málinu með vísan til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga en hann vildi meina að þessi ákvörðun borgarinnar gengi gegn ákvæðum laganna.

Vildi borgin meina að eigandinn sem stóð í framkvæmdunum ætti einn hagsmuna að gæta í málinu. Ákvörðum um beitingu þvingunarúrræða eins og dagsekta, samkvæmt lögum um mannvirki, sé háð mati stjórnvalds hverju sinni. Sagði borgin einnig að einstaklingum sé ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingsbundinna hagsmuna.

Borgin sagði enn fremur að ákvörðun um afturköllun dagsekta ætti sér stoð í stjórnsýslulögum þar sem fram komi að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun að eigin frumkvæði. Framkvæmdirnar hefðu heldur ekki raskað öryggis- eða almannahagsmunum.

Vísaði borgin einnig til þess að í byggingarreglugerð og lögum um mannvirki væri ekki að finna neina heimild til að skylda aðila til að sækja um byggingarleyfi líkt og hafi verið gert með bréfi byggingarfulltrúa haustið 2023.

Skjólveggur eða ekki

Í andsvörum sínum til nefndarinnar sagði eigandinn sem stóð fyrir framkvæmdunum að þær væru ekki byggingarleyfisskyldar og að þær hafi ekki falist í því að reisa skjólvegg. Árið 2020 hafi komið upp fúaskemmdir í burðarstoðum hins upphækkaða blómabeðs sem reist var 2006. Í stað glerveggjarins og blómabeðs hafi þá verið sett upp grind þar sem hengja mætti upp lýsingu og blómapotta. Enginn skjólveggur hafi verið reistur heldur hafi um endurnýjun á þegar samþykktri framkvæmd verið að ræða. Eigandinn hafnaði því að framkvæmdin leiði til skuggavarps en það sé þá í mesta lagi óverulegt. Þá hafi nágranninn sem kærði ekki lagt fram gögn sem staðfesti skuggavarp af burðarstoðunum. Framkvæmdin valdi hvorki hættu né sé hún skaðleg heilsu manna. Vildi eigandinn einnig meina að hinn ósátti nágranni hans væri ekki aðili að málinu.

Hinn ósátti nágranni sagði á móti að þakgarður í húsi nágrannans væri með skjólveggjum í tvær áttir og valdi skuggavarpi á hlið síns húss. Kærandinn ítrekaði að hann hafi ekki veitt skriflegt leyfi. Skjólveggirnir séu ekki eðlilegt viðhald á þeim framkvæmdum sem fyrir höfðu verið, um nýja framkvæmd sé að ræða. Skjólveggirnir hafi áður verið úr plexigleri, festir á burðarstólpa úr við meðfram gróðurkössum. Sú framkvæmd hafi ekki valdið skuggavarpi.

Ekki skylda að þvinga

Í niðurstöðu Úrskuðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er þeim sjónarmiðum Reykjavíkurborgar og eigandans sem stóð fyrir framkvæmdunum að kærandinn væri ekki málsaðili hafnað meðal annars á þeim grundvelli að framkvæmdirnar sæjust vel úr hans íbúð.

Nefndin tekur hins vegar undir lagaleg rök borgarinnar í málinu. Í niðurstöðunni segir að í athugasemdum við frumvarp það sem varð að núgildandi mannvirkjalögum sé tekið fram að sú breyting hafi verið gerð frá fyrri lögum að byggingarfulltrúa sé heimilt en ekki skylt að beita þvingunarúrræðum. Þar komi fram að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé því háð mati stjórnvalds hverju sinni og gefi sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búi að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Einstaklingum sé þar af leiðandi ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna.

Nefndin tekur undir það með borginni að hin umdeilda ákvörðun raski ekki öryggis- og almannahagsmunum og það sé ekki til tjóns fyrir málsaðila, eigandann sem stóð fyrir framkvæmdunum, að fella dagsektirnar niður.

Þar af leiðandi var sú ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkur að fella niður dagsektirnar og aðhafast ekkert frekar vegna hinna umdeildu framkvæmda staðfest.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óánægjualda vegna nafnsins á Pablo Discobar – Jón Bjarni segir merkilegt að vera slaufað í Kólumbíu

Óánægjualda vegna nafnsins á Pablo Discobar – Jón Bjarni segir merkilegt að vera slaufað í Kólumbíu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður