fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Fréttir

Gagnrýna Íslandsbanka fyrir vaxtabreytinguna í dag – „Þetta er ógeðslegt, óboðlegt og til skammar“

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 20. nóvember 2024 15:30

Vilhjálmur og Marinó lögðu orð í belg um vendingarnar í Íslandsbanka.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness, er æfur vegna vaxtabreytinga Íslandsbanka á sama tíma og Seðlabankinn lækki stýrivexti. Segir hann að græðgi bankakerfisins eigi sér engin takmörk. Marinó G. Njálsson samfélagsrýnir sýnir fram á að Íslansbanki hagnist þrátt fyrir að „lækka“ vexti.

Nánast á sömu mínútu

„Það er og var með ólíkindum að verða vitni að því að þegar stýrivextir voru lækkaðir um 0,5 prósentustig í morgun þá kom Íslandsbanki nánast á sömu mínútu og tilkynnti um vaxtalækkanir og vaxtahækkanir,“ segir Vilhjálmur í færslu á samfélagsmiðlum í hádeginu í dag.

Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um hálft prósentustig í morgun, það er úr 9 prósentum í 8,5. Fögnuðu því margir, þar á meðal Vilhjálmur sem sagði jafn framt ánægjulegt að sjá lækkun á breytilegum óverðtryggðum húsnæðisvöxtum um hálft prósent í kjölfarið.

„En hvað gerir ekki Íslandsbanki samhliða tilkynningu um lækkun á óverðtryggðum vöxtum, jú hann tilkynnir HÆKKUN á breytilegum verðtryggðum vöxtum um 0,30%!!!!“ segir Vilhjálmur. „Hvað er að?? Mitt mat er einfalt, græðgi bankakerfisins á sér engin takmörk. Þrátt fyrir að öll teikn séu á lofti um hríðlækkandi verðbólgu og lækkun stýrivaxta þá kemur ÍB og hækkar verðtryggða vexti um 0,30% á breytilegum verðtryggðum lánum.“

Smalað eins og sauðfé til slátrunar

Segir Vilhjálmur að okurvextir fjármálakerfisins hafi gert það að verkum að stórum hluta heimilanna hafi verið smalað „eins og sauðfé til slátrunar“ úr óverðtryggðu lánaumhverfi yfir í verðtryggð lán. Það er vegna þess að heimilin ráða ekki við óverðtryggða húsnæðisvexti upp á 10 prósentustig eða hærra. Fjármálakerfið, sem hafi enga sómakennd og enga siðferðiskennd, hækki verðtryggða vexti þrátt fyrir lækkun stýrivaxta og lækkandi verðbólgu.

Sjá einnig:

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtalækkunin þýðir fyrir 45 milljóna króna húsnæðislán

„Nú standa raunvextir á verðtryggðum lánum í 5% já takið eftir í 5% og þessu til viðbótar gera greiningardeildir bankanna ráð fyrir að verðbólgan lækki niður í 4,5% í þessum mánuði sem þýðir að raunvextir á verðtryggðum vöxtum munu nema um 5,5% ef þessi spá þeirra gengur eftir,“ segir Vilhjálmur og minnir á að þegar verðtryggingin var sett á árið 1979 var talað um að vextir á verðtryggðum neytendalánum yrðu aldrei hærri en 1 til 2 prósent.

„Alþingi Íslendinga verður að taka á þessu fjármálakerfi sem spilar sig ætíð stikkfrí og níðist á almenningi eins og enginn sé morgundagurinn,“ segir Vilhjálmur að lokum. „Þetta er ógeðslegt, óboðlegt og til skammar og ég skora á Íslandsbanka að draga í það minnsta þessar hækkanir á verðtryggðum lánum til baka!“

Bankarnir hagnast þó þeir „lækki“ vexti

Marinó G. Njálsson, ráðgjafi og samfélagsrýnir, leggur líka orð í belg varðandi vaxtabreytingar Íslandsbanka.

„Segjum sem svo að allir bankarnir fari sömu leið og styðjumst við hagtölur Seðlabankans um útlán innlánsstofnana til heimilanna, þá er niðurstaðan í grófum dráttum sú, að verðtryggðir vextir húsnæðislána hækka um 2,6 milljarða króna á ársgrunni meðan óverðtryggðir lækka um 3,1 milljarð króna,“ segir hann í færslu. „Þetta þýðir að bankarnir myndu að 5/6 hluta vinna upp vaxtalækkunina óverðtryggðra vaxta með hækkun verðtryggðra.“

Þá eigi eftir að taka tillit til þess að innlánsvextir á óverðtryggðum sparnaðarreikningum lækki um 0,5 til 0,6 prósent. Samhliða eru verðtryggðir innlánsvextir hækkaðir um 0,3 prósent.

„Gerum aftur ráð fyrir að allir bankarnir fari sömu leið, þá munu innlánsvextir óverðtryggðra innlána heimilanna lækka um 5,6 milljarða króna á ársgrunni, meðan innlánsvextir verðtryggðra innlána hækkuðu um 0,4 milljarða króna,“ segir Marinó en tekur fram að um gróft mat sé að ræða. Hann sé ekki með skiptingu útlána eftir því hvort þau séu með breytilegum vöxtum eða föstum.

Samtals séu „lækkanirnar“ því að auka vaxtamun heimilanna um 4,7 milljarða króna á ári. „Vaxtatekjur þeirra lækka um 5,2 milljarða króna (þ.e. vaxtagjöld bankanna), meðan vaxtatekjur þeirra lækka um 0,5 milljarða króna. Já, er það ekki merkilegt hvernig bankarnir hagnast alltaf. Líka þegar þeir eru að lækka vexti!“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Landflótta norðurkóreskir hermenn segja norðurkóresku hermennina í Úkraínu vera úr úrvalssveitum

Landflótta norðurkóreskir hermenn segja norðurkóresku hermennina í Úkraínu vera úr úrvalssveitum
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Eigandi rússnesks skips segir að því hafi verið sökkt vísvitandi – „Hryðjuverk“

Eigandi rússnesks skips segir að því hafi verið sökkt vísvitandi – „Hryðjuverk“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Voru gerð mistök við val á íþróttamanni ársins? – „Mér brá óneitanlega mikið í kvöld“

Voru gerð mistök við val á íþróttamanni ársins? – „Mér brá óneitanlega mikið í kvöld“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Líkfundurinn var aðeins byrjunin á ótrúlegri fléttu – „Ruglað fólk gerir ruglaða hluti“

Líkfundurinn var aðeins byrjunin á ótrúlegri fléttu – „Ruglað fólk gerir ruglaða hluti“