Maður hefur verið sakfelldur í Héraðsdómi Suðurlands fyrir kynferðisbrot gegn fyrrum stjúpdóttur sinni, þegar hún var á aldrinum 12-14 ára, en maðurinn sagði athafnir sínar ekki hafa verið af kynferðislegum toga heldur að aðeins hafi verið um glens að ræða. Dómurinn féllst ekki á það og hlaut maðurinn skilorðsbundinn fangelsisdóm.
Maðurinn var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barni með því að hafa í fjölda skipta brotið gegn stúlkunni með því að slá hana á rassinn og í eitt skipti nuddað beran rass hennar, læri og innanverð læri.
Það er ekki tilgreint í dómnum á hvaða tímabili maðurinn braut gegn stúlkunni en nokkuð virðist vera um liðið því tekið er sérstaklega fram í dómnum að stúlkan hafi náð átján ára aldri skömmu eftir að málið á hendur fyrrum stjúpföður hennar var höfðað fyrr á þessu ári.
Maðurinn neitaði sök og krafðist sýknu.
Móðir stúlkunnar tilkynnti upphaflega um brot mannsins til barnaverndar sem vísaði málinu til lögreglu. Tilkynningin barst í kjölfar tiltekins atviks en þá fór móðirin um leið að rifja upp hegðun mannsins sem henni hafi þótt sértstök. Sagði hún einnig í tilkynningunni að maðurinn hefði sett óviðeigandi athugasemd á Facebook-síðu dóttur hennar. Móðirin skýrði einnig frá því að maðurinn hafi í eitt skipti nuddað stúlkuna og hún hafi tekið eftir því að nuddolían hafi náð frá kálfum dóttur hennar og upp að rasskinn.
Við skýrslutöku hjá lögreglu greindi stúlkan frá því að hún hefði kynnst stjúpföður sínum fyrst þegar hún var fimm eða sex ára. Samband þeirra hafi verið venjulegt en breyst þegar hún varð eldri. Maðurinn hafi tekið upp á því að vera alltaf að rasskella hana og vinkonu hennar. Henni hafi fundist þetta óþægilegt. Loks hafi hún beðið móður sína um að segja manninum að hætta þessu. Hann hafi orðið við því í nokkra mánuði en svo haldið áfram. Rassskellingarnar hafi byrjað þegar hún var 12 ára. Í eitt skipti hafi maðurinn sagt að henni gæti líkað við þetta sem henni hafi fundist ógeðslegt.
Í eitt skipti hafi hún fundið til í bakinu eftir langan vinnudag og stjúpfaðir hennar þá boðist til að nudda hana. Hún hafi verið í bol og stuttbuxum en hann farið innan undir stuttbuxurnar og nuddað rass hennar og innanverð læri þrátt fyrir að hún hafi sagt að hún fyndi til í bakinu. Vinkona stúlkunnar varð vitni að þessu.
Móðir stúlkunnar gekk síðan inn í herbergið og sá nuddolíuna á innanverðum lærum og rasskinnum dóttur hennar.
Það er ekki fyllilega skýrt hvort þetta var atvikið sem varð til þess að móðirin sneri sér til barnaverndar en það virðist vart annað koma til greina. Sagði hún við yfirheyrslu að þá hafi hún rifjað upp sífelldar rassskellingar mannsins. Stúlkan og vinkona hennar hafi kvartað við sig undan rassskellingum mannsins. Hún hafi rætt þetta við manninn sem hafi sagt að stúlkurnar væru með drama og ekkert mætti.
Í skýrslutöku hjá lögreglu sagði maðurinn að vissulega hefði hann nuddað stjúpdóttur sína en ekki nuddað innanverð læri og rass hennar. Hann neitaði að hafa rassskellt stúlkuna og vinkonu hennar en hafi stundum danglað í rassa þeirra með handabakinu. Þetta hafi hann gert í gríni eftir að stúlkurnar hlupu framhjá honum og hafi um leið danglað í hann en eftir að móðir stúlkunnar hafi rætt við hann hafi hann hætt þessu.
Vinkona stúlkunnar staðfesti framburð hennar í skýrslutöku hjá lögreglu.
Í greinargerð félagsráðgjafa kom fram að stúlkan glími við mikla vanlíðan sem lýsi sér m.a. í svefntruflunum og miklu óöryggi. Stúlkan hafi sömuleiðis verið greind með kvíða.
Fyrir dómi sagðist maðurinn ekki sáttur við móður stúlkunnar vegna ásakana hennar um að hann hefði brotið gegn stúlkunni. Hann ítrekaði fyrri framburð sinn um að þegar hann nuddaði stúlkuna hafi hann hvorki nuddað rass né innanverð læri. Sömuleiðis hélt hann sig við fullyrðingar sínar um rassskellingarnar fyrir utan það að hann hefði byrjað á þessu aftur eftir að hafa hætt í kjölfar beiðni móður stúlkunnar en stúlkan hafi viljað að þau tækju þetta upp aftur.
Fyrir dómi ítrekaði stúlkan framburð sinn hjá lögreglu. Henni hafi alltaf fundist rasskellingarnar óþægilegar en ekki þorað að ræða þær við móður sína fyrr en maðurinn fór að rassskella vinkonu hennar líka. Stundum hafi fylgt óviðeigandi athugasemdir um að henni gæti líkað við þetta. Sagði stúlkan að henni hafi aldrei líkað þetta og aldrei tekið þessu sem gríni. Hún ítrekaði einnig fyrri framburð um nuddið og sagði að sér hefði liðið mjög óþægilega meðan á því stóð.
Í niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands segir að ljóst sé að í málinu standi orð gegn orði. Segir dómurinn framburð stúlkunnar mjög trúverðugan og framburður móður hennar og vinkonu renni einnig stoðum undir hennar framburð. Dómurinn fellst ekki á fullyrðingar mannsins um að aðeins hafi falist gletni í rassskellingum hans sem teljist líkt og framferði mannsins í nuddinu brot á hegningarlögum. Um sé að ræða kynferðislega áreitni og þar hafi bæst við að maðurinn hafi viðhaft kynferðislegt tal við stúlkuna í tengslum við 15 ára afmæli hennar.
Maðurinn var því sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn barni. Hlaut hann sjö mánaða skilorðsbundinn dóm. Byggði skilorðið einkum á því að maðurinn hefði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi og að töluvert hafi verið liðið frá brotunum þegar málið kom fyrir dóm. Það var metið á móti honum til refsiauka að stúlkan hafi verið stjúpdóttir hans. Hann þarf þar að auki að greiða stúlkunni 1,3 milljónir króna í miskabætur, auk vaxta og dráttarvaxta.
Dóminn í heild er hægt að nálgast hér.