Eldgos er hafið á Reykjanesi, að öllum líkindum á Sundhnjúkagígaröðinni. Þar hófst skyndilega mikil jarðskjálftavirkni fyrr í kvöld.
Send hafa verið út neyðarboð til þeirra sem eru á svæðinu, til að mynda gestum Bláa Lónsins, um að rýma svæðið tafarlaust. Rýming í Grindavík stendur yfir, en gist hefur verið í um 50 húsum þar undanfarnar nætur.
Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum ákveðið að fara á neyðarstig og búið er að virkja Samhæfingarstöð Almannavarna.
Þar sem stutt er síðan eldgosið hófst þá er ekki vitað frekar um hvar eldgosið er nákvæmlega. Þyrla Landhelgisgæslunnar fer í loftið eftir stutta stund.
Uppfært:
Búið er að staðsetja gosið skv. tilkynningu á vef Veðurstofunnar: Eldgos hófst á milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells kl. 23:14.
Í tilkynningu frá lögreglustjóra í gær, þriðjudaginn 19. nóvember, kom fram að ólíklegt væri að eldgos brytist út á Reykjanesskaga í nóvember samkvæmt nýjustu gögnum Veðurstofu Íslands.
Fyrr í vikunni var boðað til íbúafundar með oddvitum í Suðurkjördæmi ásamt formönnum flokkana. Átti fundurinn að fara fram í Gjánni í Grindavík laugardaginn 23. nóvember kl. 11 og stóð til að sýna hann í streymi.
Markmið fundarins var að eiga opið samtal við íbúa og fyrirtækjaeigendur til að kynna stefnu sína í málefnum Grindavíkur og Grindvíkinga. Einnig verður tækifæri fyrir þau til að hlusta á þarfir íbúa og fyrirtækjaeigenda.
Eftirfarandi höfðu þegar staðfest komu sína. • Guðbrandur Einarsson frá Viðreisn, • Ásta Lóa Þórsdóttir og Inga Sæland frá Flokki fólksins, • Víðir Reynisson frá Samfylkingunni, • Vilhjálmur Árnason frá Sjálfstæðisflokknum, • Hólmfríður Árnadottir og Orri Páll Jóhannsson frá Vinstri grænum, • Arnar Jónsson frá Lýðræðisflokknum, • Sigurður Ingi Jóhannsson eða Halla Hrund Logadóttir frá Framsóknarflokknum, • Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Mummi Týr og Gísli Rafn Ólafsson frá Pírötum, • Karl Gauti Hjaltason og Heiðrún Brá Ólafsdóttir frá Miðflokknum, • Unnur Rán Reynisdóttir frá Sósílistaflokknum.
Einnig hugðist Körfuknattleiksdeild Grindavíkur standa að fjáröflun um helgina í Grindavík með því að tæma ruslatunnur við heimili í bænum, og flytja þær til Reykjanesbæjar. Í ljósi nýjustu vendinga er óljóst hvort að fundinum og fjáröfluninni verður.