Sverrir Norland, rithöfundur og sérfræðingur í samskiptum og sjálfbærni hjá Íslandsbanka, setur spurningakeppni við bókasölu stórverslana fyrir jólin og hvernig því er ætlað að auka aðgengi að bókum og auka lestur.
„Samkaup ætlar að gefa í og selja aðeins fleiri bókatitla í tæpan mánuð rétt fyrir jólin; þau segjast vilja „auka aðgengi“ að bókum og vísa meðal annars í hrollvekjandi Písakannanir („björgum lestri“). Mér dettur ekki í hug að gera lítið úr því framtaki; bara besta mál. Í sjálfu sér er jákvætt að bækur séu falboðnar sem víðast og séu sem oftast fyrir augunum á fólki. Gott að þessi verslunarkeðja stígi inn í umræðuna um hnignandi vitsmunastig þjóðarinnar. (broskarl),“
skrifar Sverrir í færslu á Facebook, en tilefni færslunnar er frétt Vísis fyrr í dag um að Samkaup ætli að koma inn á bókamarkaðinn með látum nú fyrir jólin og bjóða upp á meira úrval bóka í ár en fyrri ár en í öllum verslunum sínum. Í fréttinni kemur fram að Bónus fagni samkeppninni og hefur blaðamaður Vísis eftir ónafngreindum útgefendum að þeir fagni framtaki Samkaupa þó þeir vilji halda á lofti mikilvægi Eymundsosn í bóksölunni, um sé að ræða góða og mikilvæga viðbót.
Eins og þekkt er þá bjóða stórverslanir upp á bókasölu fyrir jólin og selja valda titla, á það við um allar verslanir eins og Samkaup, Hagkaup, Bónus og Krónuna. Utan jólavertíðarinnar eru fáar bækur til sölu í þessum verslunum, og engar í mörgum þeirra.
Enda segist Sverrir eiga bágt með að sjá hvernig það eykur aðgengi að bókum, í stóra samhenginu, að matvöruverslanir selji nokkra valda bókatitla brot úr árinu og svo ekkert þess á milli.
„Þannig sverfa kjörbúðirnar einfaldlega að rekstrarskilyrðum þeirra bóksala sem starfa allan ársins hring; ég nefndi það í annarri færslu nýlega að fyrir ekki svo ýkja mörgum árum hefðu verið starfræktar á annað hundrað bókabúða á Íslandi. Í dag eru þær innan við tuttugu.
Bóksalar eru svo sérfræðingar í bókmenntum (og í góðum bókabúðum eru auðvitað til sölu miklu fleiri titlar en í Samkaup og Bónus sem bóksalarnir geta mælt með) en ég veit það af reynslu að í matvöruverslununum starfa ekki endilega sérfræðingur í bókmenntum auk þess sem þar stýra gæði bókanna ekki ferðinni heldur frekar t.d. stærð þeirra – taka þær of mikið pláss frá seríóspökkum og kókosbollum?“
segir Sverrir. Hann segist fagna því að sem flestir taki þátt í „umræðunni um bækur, lestur, hugsun og framtíð okkar sem læsrar þjóðarinnar (og þar með marktækum manneskjum á alþjóðavísu). Mér finnst samt að við þurfum að hafa heildarsamhengið á hreinu þegar við setjum fram svona fullyrðingar um „aukið aðgengi“ í krafti hugsjóna og ástríðu fyrir lestri. Að selja nokkrar bækur hluta úr ári bætir almennt séð ekki aðgengi að bókum, því miður, nema rétt þessa fáeinu daga fyrir jólin – og gæti raunar minnkað aðgengi að þeim ef afleiðingarnar eru þær að fleiri bókabúðir lognast út af.“