fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fréttir

Ný bók um hvarf Geirfinns kemur út í dag – Sagður hafa verið myrtur við heimili sitt

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 19. nóvember 2024 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bókin „Leitin að Geirfinni“ kemur út í dag, þann 19. nóvember, en það kvöld árið 1974 hvarf Geirfinnur Einarsson, 32 ára gamall fjölskyldufaðir í Keflavík.

Árið 1977 voru fimm manneskjur sakfelldar fyrir morðið á Geirfinni. Árið 2018 var málið tekið upp aftur og fimmmenningarnir sýknaðir. Málið er óleyst en höfundur nýju bókarinnar, Sigurd Bjørgvin, segist hafa gögn og upplýsingar sem leiði hið sanna í ljós. Hluti af upplýsingunum koma fram í bókinni en Sigurd segir að ríkissaksóknara verði afhent önnur gögn og upplýsingar sem ekki er að finna í bókinni.

Bókin er til sölu í Bóksölu stúdenta og í netsölu.

Aðrir sem helst komu að verkinu, auk höfundarins, Sigurds, eru útgefandinn Jón Ármann Steinsson og fyrirtæki hans, Icelandia bókaútgáfa ehf; og systir höfundarins, yfirlesarinn Soffía Sigurðardóttir sem einnig hefur aðstoðað við þær rannsóknir sem liggja að baki verkinu.

Mikið hefur verið fjallað í bókum og heimildarmyndum um svokallaða Reykjavíkurrannsókn Geirfinnsmálsins, sem byggðist að mestu leyti á þráendurteknum yfirheyrslum yfir sakborningunum fimm. Hefur sú rannsókn öll hvað eftir en verið afhjúpuð sem fúsk og gagnrýnd harðlega.

Í þessari nýju bók er hins vegar farið ofan í saumana á Keflavíkurrannsókninni, þ.e. þeirri lögreglurannsókn sem fór af stað í kjölfar hvarf Geirfinns. Er afar margt dregið fram sem ekki fær staðist í niðurstöðum þeirrar rannsóknar auk þess sem ný gögn og upplýsingar eru lögð fram.

Aragrúi forvitnilegra mynda er í bókinni og tímalínur atvika á spássíum hér og hvar í bókinni hjálpa til við að skilja atburðina og meðtaka upplýsingar í þessu flókna máli. Bókin er 384 blaðsíður.

Átök í bílskúr

Framarlega í bókinni er að finna lýsingu á atviki, studda vitnisburði sjónarvottar sem höfundur ræddi við, sem samkvæmt bókinni var að líkindum dánarstund Geirfinns. Drengur sem bjó í næsta nágrenni við heimili Geirfinns og fjölkyldu hans segist hafa orðið vitni að átökum Geirfinns og annars manns í gegnum glugga að bílskúrnum við húsið. Var drengurinn á sveimi í nágrenninu með vasaljós sem hann hafði fengið að gjöf og hafði verið að reyna að fá börn út til að leika með sér, m.a. son Geirfinns, en án árangurs. Þessi drengur  var staddur í bakgarðinum að heimilinu er hann varð vitni að miklum átökum. Segir svo frá þessu í bókinni:

„Þá heyrði hann mikinn hávaða og læti frá íbúð Geirfinns. Skömmu síðar bárust lætin út og hann heyrði mikil öskur og stympingar á mölinni fyrir framan íbúð Geirfinns og fjölskyldu. Hann sá ekki hverjir voru þar á ferð vegna grindverks sem var á milli garðsins og innkeyrslunnar þar sem lætin voru.

Drengurinn sá síðan að ljósin voru kveikt í bílskúr Geirfinns, sem var með tvo glugga sem sneru út að garðinum þar sem hann stóð. Garðurinn stendur meira en feti hærra en bílskúrinn og því sjá jafnvel þeir sem eru ekki háir í loftinu vel frá garðinum inn um glugga bílskúrsins. Þar inni sá drengurinn mann slást heiftarlega við Geirfinn, sem féll í gólfið. Drengurinn varð dauðskelkaður en horfði samt álengdar á það sem var að gerast inni í bílskúrnum. Hann sá manninn teygja sig í hamar af borði við gluggann og veita Geirfinni nokkur högg. Við það þögnuðu öskrin. Drengurinn hljóp þá heim til sín og var mjög óttasleginn vegna þess að hann taldi að einhver gæti hafa séð sig og jafnvel veitt sér eftirför.“

Er drengurinn sagði foreldrum sínum frá þessum átökum eftir að heim kom var ekki á hann hlustað og foreldrar hans sögðu honum að vera ekki að skipta sér af nágrönnunum. Síðan segir í bókinni:

„Þessi drengur, sem nú er fullorðinn, hefur staðfest að við höfund að maðurinn sem hann sá slást við Geirfinn í bílskúrnum sé sami maður og aðrar heimildir herma að hafi skutlað Geirfinni heim fyrr um kvöldið. Þetta varð honum ljóst nokkrum árum síðar er hann sá sama manninn aftur, en hann ber frekar sterkan svip og hefur meiri tengsl við Guðnýju en hann hafði við Geirfinn.“

Upplýsingarnar um morðið á Geirfinni í bókinni eru brotakenndar og morðástæða kemur ekki fram. En upplýsingarnar sem höfundur mun afhenda ríkissaksóknara eru ítarlegri. Þar kemur m.a. fram vitnisburður fleiri aðila en hér um ræðir.

Elskhugi eiginkonunnar var á staðnum

Í samtali við DV hefur Sigurd Bjørgvin, höfundur bókarinnar, sagt að þessi meinti banamaður Geirfinns sé enn á lífi. Hann er ekki nafngreindur í bókinni. Hins vegar, eins og fyrr segir, afhendir höfundurinn ríkissaksóknara í dag gögn sem koma ekki fram í bókinni, þar á meðal nafn meints banamanns, sem og vitnisins. Höfundur hefur hins vegar ekki upplýsingar um hvað varð um lík Geirfinns.

Eiginkona Geirfinns, Guðný Sigurðardóttir, var honum ótrú. Samkvæmt bókinni var elskhugi hennar, Vilhjálmur Svanberg Helgason (ávallt kallaður Svanberg), staddur hjá henni á heimili hjónanna þegar þessir atburðir áttu sér stað. Börn hjónanna voru hjá ættingjum í Njarðvík. Ekki telur bókahöfundur sig vita hvort Svanberg átti beinan þátt í láti Geirfinns. Svanberg hefur hins vegar, samkvæmt bókinni, borið með sér í gegnum allt lífið vitneskju um dauðdaga Geirfinns. Hefur Svanur lengst af búið erlendis síðan þessir atburðir áttu sér stað og forðast Ísland, sem og hverja þá sem reynt hafa að afla upplýsinga um málið.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Ragnar fór úr rannsókn á ráni í mótmælin við Alþingi – „Ég get ekki bakkað úr svona aðstæðum og ég ætla ekki að skilja þá eftir“

Ragnar fór úr rannsókn á ráni í mótmælin við Alþingi – „Ég get ekki bakkað úr svona aðstæðum og ég ætla ekki að skilja þá eftir“
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Þetta eru helstu leikendurnir í baráttunni um framtíð Sýrlands

Þetta eru helstu leikendurnir í baráttunni um framtíð Sýrlands
Fréttir
Í gær

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans
Fréttir
Í gær

Var með mikið magn af OxyContin innvortis

Var með mikið magn af OxyContin innvortis
Fréttir
Í gær

Efling boðar til aðgerða gegn 100 veitingastöðum

Efling boðar til aðgerða gegn 100 veitingastöðum
Fréttir
Í gær

Vodafone byrjar að rukka mánaðargjöld fyrir netföng

Vodafone byrjar að rukka mánaðargjöld fyrir netföng
Fréttir
Í gær

Drápshundarnir í Langholtshverfi hafa drepið ketti og ráðist á fólk – „Hundarnir endurspegla eigendurna“

Drápshundarnir í Langholtshverfi hafa drepið ketti og ráðist á fólk – „Hundarnir endurspegla eigendurna“