Umræða um gömul bloggskrif frambjóðandans Þórðar Snæs Júlíussonar hefur teygt anga sína inn í deilumál í verkalýðshreyfingunni frá árunum 2021-2022. Drífa Snædal hefur, sem talskona Stígamóta, fjallaði í tilefni þeirrar umræðu um kynbundið ofbeldi og benti á að niðrandi skrif um konu nærðu faraldur þess:
„Að tala eða skrifa niðrandi um konur nærir faraldurinn. Að taka því ekki alvarlega þegar konur verða fyrir ofbeldi nærir faraldurinn. Gefur þau skilaboð að það sé í lagi að konur og kvár séu undirskipaðar körlum og karlar geta hagað sér nákvæmlega eins og þeim sýnist án afleiðinga. Þegar karlar með völd tala niðurlægjandi um konur þá afmennskar það konur og gefur þau skilaboð að það sé í lagi að vanvirða þær. Í samfélagi þar sem kynbundið ofbeldi er faraldur ógnar slíkt tal beinlínis öryggi kvenna.“
Í tilefni þessara skrifa steig Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fram og sakaði Drífu um hræsni, á þeim forsendum að Drífa hefði ekki, sem forseti ASÍ árið 2022, komið sér til varnar þegar Sólveig Anna varð fyrir ofbeldishótunum starfsmanns. „Ég skipti mér ekki af því hvað starfsfólk Alþýðusambandsins skrifar á internetinu,“ á Drífa að hafa sagt þá á fundi miðstjórnar ASÍ, er henni var bent á að undirmaður hennar hefði veitt hinum meinta ofbeldismanni stuðning.
Sólveig Anna greinir frá því að manninum hafi verið sagt upp störfum eftir að hún sjálf hafði sagt af sér sem formaður Eflingar síðla árs 2021. Maðurinn hafði brugðist ókvæða við uppsögninni og fengið stuðning úr efstu lögum ASÍ:
„Hann brást ókvæða við og birti færslu á Facebook þar sem hann sagðist hafa goldið þess að vera karlmaður og Íslendingur, þess vegna hefði honum verið sagt upp. Ýmsir áhrifamenn og konur í verkalýðshreyfingunni skrifuðu hjá honum stuðningskveðjur eða smelltu í hjarta. M.a. einn háttsettur starfsmaður ASÍ, sem sagði að fregnir af uppsögninni væru ömurlegar og að á löngum ferli hefði hann aldrei heyrt neitt neikvætt sagt um þennan einstakling. Þetta átti sér stað nokkrum dögum eftir að ég hafði sagt opinberlega frá ofbeldishótununum.
Ég viðurkenni að mér brá töluvert við að sjá svo afgerandi samúð og stuðning við karl sem hafði sagt frá því hvernig hann ætlaði að koma heim til mín og beita mig ofbeldi.“
Drífa hafi hins vegar ekki viljað bregðast við því þegar undirmaður hennar í ASÍ tók upp hanskann fyrir manninn sem hafði hótað henni, þ.e. Sólveigu.
Margir hafa stigið fram á Facebook og gagnrýnt harkalega þessi skrif Sólveigar Önnu. Er þar um að ræða fólk sem tengist þeim átökum sem áttu sér stað innan Eflingar og ASÍ á árunum 2021 og 2022. Arnar Guðmundsson er eiginmaður Guðrúnar Katrínar Bryndísardóttur sem sagt var upp í fjöldauppsögnum á skrifstofu Eflingar árið 2022. (DV greindi frá). Arnar skrifar á Facebook-síðu sína:
„Stigveldi hræsninnar.
Á ýmsu var von fyrir þessar kosningar en að frambjóðandi flokks, sem kennir sig við sósíalisma, rifji upp að fyrrabragði eina mestu niðurlægingu íslenskrar verkalýðshreyfingar: Þegar viðkomandi í hlutverki atvinnurekanda stóð fyrir langdregnu og skipulögðu netofbeldi gegn nafnlausum hópi eigin starfsfólks og lauk því svo með fordæmalausri hópuppsögn sem viðhlægjendur sögðu hreinsun. Er skýringanna á reiði viðkomandi gagnvart fyrrverandi forseta ASÍ e.t.v. að sem forseti stóð Drífa Snædal eðlilega með þessum hópi launafólks og gegn hópuppsögn? Ég ætla ekki einu sinni að fara yfir félagsdóm gegn stéttarfélaginu fyrir ólögmæta brottvísun trúnaðarmanns eða skaðabótadóma fyrir óásættanlega meðferð á starfsfólki. Mögulega eru fleiri frambjóðendur í 3. sæti sem ættu að hugsa sinn gang.“
Fjölmargir aðrir tjá sig í sama dúr, meðal annars Inga Þóra Haraldsdóttir, fyrrverandi skjala- og gæðastjóri Eflingar, sem segir:
Sólveig Anna Jónsdóttir, frambjóðandi Sósíalistaflokksins og formaður Eflingar, hefur gagnrýnt Drífu Snædal fyrir að vera ekki góðan femínista með því að standa með sér þegar hún upplifði ofbeldi í sinn garð. Þetta er magnað því að ég veit ekki betur en að Sólveig Anna gerði bókstaflega ekkert þegar ég og aðrar konur komu með kvartanir til hennar um upplifun af kynbundinu einelti af hendi framkvæmdastjóra hennar.
Hræsnin er til víða og þá sérstaklega í þessari orðræðu Sólveigar. Við ættum að passa okkur að kasta ekki steinum í glerhúsi. Hér er grein um málið til upprifjunar ef fólk hefur gleymt því hvað fólst í þessum kvörtunum gagnvart þáverandi framkvæmdastjóra.
Ég skal halda því til haga að ég fordæmi allt ofbeldi, hótanir um ofbeldi, einelti eða andlegt ofbeldi, sama hverjum það snýr að. Ég mun ávalt standa með þolendum ofbeldis, líkamlegs eða andlegs.