fbpx
Föstudagur 14.mars 2025
Fréttir

Ný búvörulög fá á baukinn í Héraðsdómi og Félag atvinnurekenda fagnar

Ritstjórn DV
Mánudaginn 18. nóvember 2024 12:55

Héraðsdómur Reykjavíkur. Mynd: Maggi gnúsari.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað í dag upp dóm þar sem ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 26. júlí er felld úr gildi, en þar var kröfu Innes um íhlutun hafnað.

Málið snertir mótmæli Innes gegn undanþágu kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum. Alþingi samþykkti breytingu á búvörulögunum sem færir afurðastöðvunum undanþágu frá banni við verðsamráði. Innes krafðist þess að Samkeppniseftirlitið myndi beina því til kjötafurðastöðvanna að haga starfsemi sinni til samræmis við ákvæði samkeppnislaga og viðhafa enga þá starfsemi sem bryti gegn banni laganna gegn samráði, misnotkun á markaðsráðandi stöðu eða ákvæðum laganna um samruna. Samkeppniseftirlitið taldi sig hins vegar vera bundið af lagabreytingunni sem Alþingi samþykkti, en í henni fælist að það væri ekki lengur á valdsviði þess að grípa til íhlutunar gagnvart háttsemi framleiðendafélaga sem undanþágan tæki til. Samkeppniseftirlitið hafnaði því kröfu Innness um íhlutun með stjórnvaldsákvörðun hinn 26. júlí síðastliðinn. Héraðsdómur hefur nú fellt þessa ákvörðun úr gildi.

Athygli vekur að samkvæmt dómnum stangast nýju búvörulögin á við 44. grein stjórnarskrárinnar:

„Ekkert lagafrumvarp má samþykkja fyrr en það hefur verið rætt við þrjár umræður á Alþingi.“- Frumvarpinu var breytt við aðra umræðu og fékk því upphaflegt frumvarp ekki þrjár umræður eins og stjórnarskráin krefst.

Fjallað er ítarlega um dóminn á vef Samtaka atvinnurekenda og þar er dómnum fagnað ákaft:

„Félag atvinnurekenda fagnar eindregið dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Innness ehf., félagsmanns FA, gegn Samkeppniseftirlitinu. Þar reyndi á lögmæti breytinga, sem gerðar voru á búvörulögum síðastliðið vor, þar sem kjötafurðastöðvum var veitt víðtæk undanþága frá samkeppnislögum. Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að lagabreyting Alþingis hafi ekki lagagildi, enda hafi hún brotið gegn 44. grein stjórnarskrárinnar, þar sem kveðið er á um að ekkert lagafrumvarp megi samþykkja nema það hafi verið rætt við þrjár umræður á Alþingi.“

Ennfremur segir:

„Niðurstaða héraðsdóms er að sú ályktun blasi við að að „í raun hlaut frumvarpið, sem útbýtt var á Alþingi 14 .nóvember 2023, einungis eina umræðu á Alþingi sem fram fór 21. nóvember sama ár. Annað eðlisólíkt frumvarp í samræmi við tillögur atvinnuveganefndar var svo rætt við tvær umræður, 20. og 21. mars 2024. Áskildum fjölda umræðna samkvæmt 44. gr. stjórnarskrárinnar var þannig ekki náð. Sú breyting sem gerð var á búvörulögum og samþykkt á Alþingi 21. mars og gefin út sem lög nr. 30/2024, var ekki sett á stjórnskipulegan hátt þar sem hún stríðir gegn stjórnarskrá og hefur af þeim sökum ekki lagagildi.“

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir niðurstöðu héraðsdóms ekki koma á óvart:

„Þessi dómsniðurstaða kemur ekki á óvart. Félag atvinnurekenda hefur sagt, allt frá því að atvinnuveganefnd breytti frumvarpi matvælaráðherra, að þetta væru ólög, vinnubrögðin óboðleg og matið á áhrifum lagabreytingarinnar í raun ekkert, en ljóst er að hún hefur afdrifarík áhrif á samkeppni og skaðar hagsmuni verslunar, neytenda og bænda. Viðvörunum samtaka fyrirtækja, launþega og neytenda var ekki sinnt heldur málið keyrt í gegnum þingið og þeir þingflokkar, sem stóðu að þessum forkastanlegu vinnubrögðum, sitja nú í súpunni.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

„Hvað ætlum við að gera öðruvísi núna svo við höldum ekki áfram að framleiða hættulega afbrotamenn á færibandi?“

„Hvað ætlum við að gera öðruvísi núna svo við höldum ekki áfram að framleiða hættulega afbrotamenn á færibandi?“
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Trausti sár út í Sönnu – „Mér fannst eins og þú tækir ekki mark á því sem ég væri að segja“

Trausti sár út í Sönnu – „Mér fannst eins og þú tækir ekki mark á því sem ég væri að segja“