Fyrr í mánuðinum kvað Kærunefnd húsamála upp úrskurð í deilumáli milli konu og fyrrum leigusala hennar, sem raunar eru tveir, karl og kona. Deilan snerist um tryggingaféð vegna skemmda sem urðu í íbúð sem konan leigði af leigusölunum auk þess sem að leigusalarnir sögðu að þrifum hafi verið verulega ábótavant þegar konan skilaði íbúðinni af sér. Konan viðurkenndi að hún hefði valdið umræddum skemmdum og jafn framt tók hún að hluta til undir fullyrðingar um að þrifunum hafi verið ábótavant. Í úrskurðinum kemur fram að leigusalarnir hafi bent sérstaklega á að leigan hafi verið í lægri kantinum, en ekki kemur fram hversu lág hún var, enda hafi leigutíminn verið stuttur og lögð hafi verið áhersla á það við konuna að fara sérstaklega vel með allt í íbúðinni. Nefndin úrskurðaði hins vegar konunni í vil.
Konan samþykkti að leigusalarnir myndu halda hluta af tryggingunni eftir en ágreiningurinn snerist um hversu há sú upphæð ætti að vera.
Leigusamingur milli hennar og leigusalanna var í gildi frá 1. nóvember 2023 til 30. apríl 2024.
Konan greiddi 310.000 krónur í tryggingu þegar hún flutti inn. Í kæru sinni til nefndarinnar, þar sem hún krafðist endurgreiðslu hluta tryggingarinnar, sagðist hún hafa skilað íbúðinni þrifinni. Daginn eftir hafi leigusalarnir haft samband og sagt kommóðu, pönnu og myndaramma vera skemmd og að þrifum hafi verið ábótavant. Hafi hún samþykkt í kjölfarið að leigusalarnir mættu draga af tryggingunni vegna skemmdanna. Leigusalarnir hafi síðan aftur haft samband og lýst því yfir að mikinn tíma hafi tekið að þrífa íbúðina og þau teldu sanngjarnt að halda eftir 100.000 krónum af tryggingunni.
Konan segist hafa samþykkt það en óskað eftir sundurliðun.
Leigusalarnir skiptu kommóðunni, pönnunni og myndarammanum út og sögðu það kosta samtals 47.000 krónur. Bættu þau við 53.000 krónum vegna tíma sem fór í að finna þessa hluti og þrífa íbúðina. Konan samþykkti að borga fyrrnefndu upphæðina en ekki þá síðarnefndu.
Í andsvörum sínum sögðust leigusalarnir hafa leigt konunni íbúðina í sex mánuði vegna dvalar erlendis. Mestu hafi skipt að leigjandinn færi vel með alla hluti og gengi vel um og því hafi leigan verið mjög lág.
Þegar þau hafi snúið aftur í íbúðina hafi blasað við þeim að lek rafhlaða hafði verið lögð ofan á kommóðu þannig að spónninn ofan á henni hefði skemmst. Reynt hafi verið að gera við það en viðgerðin valdið meiri skemmdum. Þá hafi lítil steikarpanna verið skemmd og lítill myndarammi hafi verið brotinn. Nýir hlutir hafi verið keyptir í stað hinna skemmdu en þó ekki panna.
Þrifum hafi einnig verið ábótavant. Eldhúsið hafi verið verst, brauðmolar og annað í öllum skúffum og óhrein matarílát inni í skápum. Verst hafi verið meðferðin á bakaraofninum en konan hafi gert tilraun til að þrífa hann með matarsóda og ediki. Henni hafi ekki tekist að ná leifum af hreinsiefninu af ofninum og enn komi matarsódamolar út með viftunni í hvert skipti sem hann sé notaður. Þá hafi aðrir hlutar íbúðarinnar líklega verið þrifnir með ryksuguvélmenni og engin tilraun gerð til að fara út í horn eða færa húsgögn til. Hrúgur af sælgætisbréfum og öðru rusli hafi verið undir sófa. Þar sem ekki hafi tekist að finna hreingerningafyrirtæki til að sjá um þrif á íbúðinni hafi þau þrifið sjálf.
Konan og leigusalarnir fengu bæði tækifæri til að koma með viðbótarathugasemdir. Konan samþykkti að hækka upphæðina sem dregin var frá tryggingunni vegna skemmdanna úr 47.000 krónum í 59.950 krónur þar sem leigusalanir hafi lagt fram kvittun fyrir nýrri kommóðu. Konan stóð hins vegar fast við að hún samþykkti ekki að 53.000 króna kostnaður vegna þrifa yrði dregin frá trygginngunni. Hún sagði að samkvæmt kostnaðarmati ætti það að kosta um 9.000 krónur að þrífa ofninn. Leigusalarnir hafi sjálf ákveðið að þrífa ofninn og annað sem þau hafi ekki talið nægilega vel þrifið. Hún hafi eytt miklum tíma í að þrífa.
Leigusalarnir svöruðu á móti að flutningsþrif á íbúð af þessari stærð, hjá hreingerningarfyrirtæki sem konan benti á, kostuðu um 70.000 krónur og við það væri hægt að bæta þrifum á ofni fyrir um 9.000 krónur. Verð hafi verið sambærileg hjá samkeppnisaðilum og bið eftir þjónustunni löng. Leigusalarnir sögðu það ekki sanngjarnt að þurfa að eyða tíma og kröftum í að bæta tjón eftir leigjendur eða þrífa eftir þá, sérstaklega í ljósi mjög lágrar leigu.
Í niðurstöðu Kærunefndar húsamála kemur fram að af 310.000 króna tryggingunni hefði konan þegar fengið 155.000 krónur endurgreiddar. Nefndin segir að fallast megi á að þær myndir sem leigusalarnir tóku við lok leigutíma sýni að þrifum hafi að einhverju leyti verið ábótavant og hafi konan fallist á það að hluta. Ekki sé þó hægt að fallast á að konan sé bótaskyld umfram það sem hún hafi fallist á, þar sem ekki hafi verið gerð sameiginleg úttekt við lok leigutíma og henni gefinn kostur á úrbótum, í samræmi við ákvæði húsaleigulaga.
Því var þar af leiðandi hafnað að leigusalarnir mættu halda eftir 53.000 krónum vegna þrifanna.
Leigusölunum ber því að endurgreiða konunni það sem eftir stóð af tryggingunni, fyrir utan þá upphæð sem hún hafði samþykkt að dregin yrði frá vegna skemmda á áðurnefndum hlutum, alls 95.050 krónur auk vaxta og dráttarvaxta.