Gleraugnaverslunarkeðja bauð breskri konu í ferð til Íslands eftir meinlegan rugling hjá henni á samfélagsmiðlum. Konan hafði ruglast á norðurljósunum og bjarma frá tómataframleiðslu.
Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá þessu.
Það var Dee Harrison, 56 ára kona frá borginni Ipswich á austurströnd Bretlands, sem gerði þessi meinlegu mistök þann 23. október síðastliðinn. Þá var hún stödd í þorpinu Bramford, vestan við Ipswich og taldi sig hafa séð norðurljós, þó að svæðið sé nú ekki beint þekkt fyrir slíkt sjónarspil. Norðurljós höfðu þó reyndar sést í Bretlandi skömmu áður.
„Ég náði þessum myndum klukkan 5:15 í dag í Bramford, lítur út fyrir að vera norðurljós, hef ekki séð þau áður,“ sagði hún í færslunni ásamt nokkrum ljósmyndum af rauðum bjarma á himni.
Fljótlega var frú Harrison þó bent á að þetta væru alls ekki norðurljós. Þetta væri bjarminn frá gróðurhúsum þar sem ræktaðir voru tómatar. Í raun og veru svokölluð ljósmengun frá Suffolk Sweet Tomatoes tómataframleiðslunni.
Þótti mörgum þessi misskilningur fyndinn og var færslunni dreift víða á samfélagsmiðlum. Einnig var fjallað um hann í breskum fjölmiðlum.
„Ég hélt símanum uppi svo ég gæti séð þetta betur,“ sagði Harrison í viðtali við blaðið The Mirror um málið. En hún hafði heyrt talað um að norðurljósin sæjust betur í gegnum símamyndavélar en með berum augum.
„Fólk sagði mér að þetta gætu ekki verið norðurljósin. Þegar ég kom heim kíkti ég á kort og sá að það var tómataframleiðsla þarna,“ sagði hún. „Ég vissi ekki að hún myndi gefa frá sér ljós. Ég þurfti að játa mig sigraða eftir þetta.“
Á endanum ráku forsvarsmenn gleraugnaverslunarkeðjunnar Specsavers augun í málið og sáu sér leik á borði. Ákváðu þeir að hafa uppi á frú Harrison og bjóða henni í ferðalag til Íslands. Þá gæti hún séð norðurljósin með eigin augum.
Í viðtali við BBC segist hún ekki hafa trúað þessu þegar Specsavers buðu henni í ferðina.
„Ég trúði ekki að þetta væri satt og spurði hvort þetta væri boð um ferð í matvöruverslunina Iceland hérna ofar í götunni í Ipswich,“ sagði hún. „Það eru tvær vikur síðan ég setti myndirnar inn á samfélagsmiðla og síðan þá hefur þetta verið eins og hvirfilbylur.“
Dee Harrison flaug til Íslands og sá alvöru norðurljósin í skipulagðri ferð hjá ferðaþjónustufyrirtæki. Hún er nú komin aftur heim til Ipswich, afar sátt við allt saman.
„Það var æðislegt að sjá alvöru norðurljósin og ég hef heyrt frá svo mörgum að það sé á fötulista þeirra að sjá þau,“ sagði hún við BBC eftir heimkomuna. En fötulisti (bucket list) er listi af hlutum sem fólk vill ná að afreka áður en það deyr eða „sparkar fötunni“ (kick the bucket). „Ég er svo þakklát fyrir þetta tækifæri og eiginmaður minn skemmti sér konunglega líka.“