fbpx
Sunnudagur 17.nóvember 2024
Fréttir

Sólveig Anna sakar Drífu um hræsni – „Ég mun aldrei gleyma því“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 17. nóvember 2024 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar veltir fyrir stuðningi feminista og hvort sá stuðningur sé misjafn eða jafnvel enginn þegar sá sem beittur er ofbeldi er pólitískur andstæðingur. 

Rifjar Sólveig Anna af þessu tilefni upp orð Drífu Snædal, sem þá gegndi starfi forseta Alþýðusambandsins, árið 2022: „Ég skipti mér ekki af því hvað starfsfólk Alþýðusambandsins skrifar á internetinu“.

Segist Sólveig Anna aldrei munu gleyma því þegar Drífa mælti þessi orð á fundi miðstjórnar ASÍ, eftir að Sólveig Anna hafði verið endurkjörin formaður Eflingar 2022. 

„Til umræðu var, ásamt öðru sem átt hafði sér stað í tengslum við og vegna tilefnislausra árása á mig og félaga minn, Viðar Þorsteinsson, sem urðu til þess að ég sagði af mér formennsku í Eflingu, ummæli starfsmanns ASÍ á Facebook. Í nóvember 2021, stuttu eftir að ég sagði af mér, skrifaði ég um það hvernig samstarfsmaður minn á skrifstofu Eflingar hafði hótað því að koma á heimili mitt og beita mig ofbeldi. Hvernig hótuninni hafði fylgt útlistun á því hvers vegna hann taldi sig geta komist upp með það, eða að afleiðingin yrði aldrei verri en skilorðsbundið fangelsi. Ég sagði frá því að ég hafði tilkynnt um hótunina til lögreglunnar.“

Brást ókvæða við uppsögn

Sólveig Anna rekur að þær konur sem tóku við stjórn Eflingar eftir uppsögn hennar hafi sagt starfsmanninum upp störfum.

„Hann brást ókvæða við og birti færslu á Facebook þar sem hann sagðist hafa goldið þess að vera karlmaður og Íslendingur, þess vegna hefði honum verið sagt upp. Ýmsir áhrifamenn og konur í verkalýðshreyfingunni skrifuðu hjá honum stuðningskveðjur eða smelltu í hjarta. M.a. einn háttsettur starfsmaður ASÍ, sem sagði að fregnir af uppsögninni væru ömurlegar og að á löngum ferli hefði hann aldrei heyrt neitt neikvætt sagt um þennan einstakling. Þetta átti sér stað nokkrum dögum eftir að ég hafði sagt opinberlega frá ofbeldishótununum.

Ég viðurkenni að mér brá töluvert við að sjá svo afgerandi samúð og stuðning við karl sem hafði sagt frá því hvernig hann ætlaði að koma heim til mín og beita mig ofbeldi,“segir Sólveig Anna.

Segist hún í kjölfarið hafa sent tölvupóst á starfsmann ASÍ sem skrifaði ummælin og afrit til Drífu og Höllu Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra ASÍ. Ekkert þeirra hafi svarað tölvupóstinum.

Viðurkennir að hafa komist í uppnám á fundinum

Sólveig Anna segist viðurkenna að hún hafi komist í dálítið uppnám á miðstjórnarfundinum þar sem atvikið var til umræðu.

„Mér fannst erfitt að sjá hið algjöra áhugaleysi frá þeim einstaklingum sem að undir öðrum kringumstæðum hefðu fordæmt hótunina og stuðninginn sem hótarinn fékk. Ég man að ég sagði „Ain’t I a Woman?“ eins og Sojourner Truth, kannski til að reyna að telja í sjálfa mig kjark, stuttu áður en ég fór af fundinum, af því að ég treysti mér ekki til að sitja þar lengur, í uppnámi og án nokkurrar  samkenndar. Á næsta miðstjórnarfundi sem ég mætti á hermdi einn karlinn eftir því þegar ég vék af fundinum, með tilþrifum. Eftirherman vakti lukku, ekki síst hjá þáverandi forseta ASÍ,“ segir Sólveig Anna og spyr:

„Af hverju vildi Drífa ekki skipta sér af því þegar að undirmaður hennar lét sér opinberlega meira annt um manninn sem hótaði en konuna sem var hótað? Getur verið að stuðningurinn sem viss hópur femínista er tilbúinn til að veita sé ekki í boði fyrir pólitíska andstæðinga, sem ég vissulega var. Getur verið að eitthvað sem látið er eins og sé algjör grundvallarafstaða í pólitískri heimssýn þessa hóps sé það ekki? Getur verið að þegar það hentar betur, þegar reiðin út í pólitíska andstæðingin er orðin mikil, sé ekkert erfitt að skipta sér ekki af og þegja frekar? Getur verið að það hvort afskipti eiga sér stað, hvort sem þau snúast um að þegja eða tala, ráðist stundum af því hvaða útkomu í pólitík þær sem að tilheyra þessum hópi vilja fá eða um að vernda eigin stöðu og/eða stöðu þess hóps sem þær tilheyra? Getur verið að ískalt pólitískt mat ráði stundum för?

Ég veit hvernig ég svara þessum spurningum. Já, það getur sannarlega verið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Oddvitinn í veikindaleyfi og sakar minnihlutann um ofbeldi – „Gerendurnir eru þekktir og þetta mun verða þeim til ævarandi skammar og minnkunar“

Oddvitinn í veikindaleyfi og sakar minnihlutann um ofbeldi – „Gerendurnir eru þekktir og þetta mun verða þeim til ævarandi skammar og minnkunar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Samfylkingin gagnrýnir auglýsingu á vef Hafnarfjarðar harkalega – Hleypi illu blóði í viðræður

Samfylkingin gagnrýnir auglýsingu á vef Hafnarfjarðar harkalega – Hleypi illu blóði í viðræður
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Talskona Stígamóta tjáir sig um blogfærslur fyrri tíma – „Sá ég tilefni til að kæra nauðgunarhótun í einni slíkri“

Talskona Stígamóta tjáir sig um blogfærslur fyrri tíma – „Sá ég tilefni til að kæra nauðgunarhótun í einni slíkri“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gjaldþrota fyrirtæki Quang Le skipað að endurgreiða lyklagjald vegna leigusamnings sem aldrei var efndur

Gjaldþrota fyrirtæki Quang Le skipað að endurgreiða lyklagjald vegna leigusamnings sem aldrei var efndur