„Í þessum þætti er orðaval sem er ekki við hæfi barna,“ segir Auðunn Blöndal í upphafi fyrsta þáttar af Bannað að hlæja, sem frumsýndur var á Stöð 2 í gærkvöldi.
Í hverjum þætti fær Auðunn nokkra gesti í matarboð og þar er eina reglan, líkt og nafn þáttanna gefur til kynna að það er stranglega bannað að hlæja og gestir fá stig fyrir að láta aðra hlægja.
Gestir fyrsta þáttar sem sýndur föstudagskvöldið 15. nóvember eru Ríkharð Óskar Guðnason (Rikki G) útvarpsmaður á FM 957, Sverrir Þór Sverrisson (Sveppi) leikari, Jóhannes Ásbjörnsson einn eigenda Gleðipinna, og leikkonurnar Júlíana Sara Gunnarsdóttir og Hildur Vala Baldursdóttir.
Þættirnir, sem eru sex talsins og 30 mínútur hver að lengd, eru sýndir á besta tíma kvölds, kl. 20.35 á föstudagskvöldum þegar ætla má að fjölskyldur sameinist í að horfa á eitthvað í sjónvarpinu. Enginn fyrirvari er við lýsingu þáttanna á vef Stöðvar 2 þar sem finna má dagskrá stöðvarinnar um að þættirnir séu ekki við hæfi barna.
Þátturinn hófst á stuttu spjalli Auðuns við hvern og einn gestanna og spurði hvort þau væru stressuð yfir einhverju og við hvern þau væru hræddust af gestunum.
Kvöldverðurinn hófst svo með forrétti og sat Auðunn baksviðs þar sem hann gat fylgst með gestunum og myndavélunum og skráð stig gestanna.
„Þjónninn“ var sendur inn og bað hann gesti að tala um kosti sína og galla. Sveppi byrjaði eftir áskorun frá Júlíönu. Næst var röðin komin að Jóhannesi en áður en hann gat talað sagði Sveppi: „Það er náttúrulega fyrsta sem maður hugsar er að gallinn er náttúrulega að hann er barnaníðingur.“ Leikkonurnar flissuðu og Jói tók undir: „Já það hefur aldrei sannast neitt á mig, þannig að mér finnst nú óþarfi að vera…..“ „Já af hverju heldurðu að hann eigi hoppukastala og hamborgarastað og keilubraut?“ bætti Sveppi við. „Ég meina hvað er pedó?“ spyr Jóhannes og leikkonurnar flissa aftur, en Ríkharð hlær ekki. „Eins og ég hef alltaf sagt maður veit ekki hvort maður er barnaníðingur eða ekki af því kannski er maður ekki búinn að hitta rétta barnið, maður veit það ekki,“ botnar Sveppi.
Umræða var í gærkvöldi um þáttinn í Facebook-hópnum Góða systir sem telur tæplega 48 þúsund meðlimi.
„Var að horfa á Bannað að hlæja á stöð 2 og það er verið að hlæja að barnanýð sem er með mesta ógeði sem til er,“ skrifar kona sem byrjar umræðuþráðinn.
„Sammála, hann fór frekar langt yfir strikið …,“ skrifar sú næsta.
„Sveppi gersamlega strikaði sig út úr ÖLLU. Hann er ömurlegur fyrir lìfstíð,“ skrifar sú þriðja.
„Ég varð einmitt mjööööög hugsi. Þetta eru ekki þættir sem maður hefur lyst á að horfa aftur á. Svo skilst mér að Gilz sé í einhverjum þættinum og hann gaf út bók sem bókstaflega gaf karlmönnum skothelt ráð hvernig ætti að láta totta sig án þess að hún fengi ráðið við nokkuð,“ bætir önnur kona við.
Ljóst er að þátturinn og þessi orð Sveppa féllu engan veginn í kramið.
Þáttaröðin er kynnt svona af Stöð 2: Bannað að hlæja er ný þáttaröð þar sem Auðunn Blöndal býður 25 fyndnustu Íslendingunum í fimm ólík matarboð. Þar er eina reglan sú að það er bannað að hlæja og kemst einn áfram í hverjum þætti í síðasta matarboðið. Eðli málsins samkvæmt geta brandararnir orðið ansi svartir og er því alls ekki um fjölskylduþátt að ræða.
Og eins og sagði í upphafi tekur Auðunn fram í upphafi þáttarins að hann sé ekki við hæfi barna.
„Verulega ósmekklegt.“
„Hvað er alltaf verið að púkka upp á þessa óþroskuðu, pathetic, miðaldra kallpunga…..það er kominn tími á að segja NEI TAKK við þessa lúða. Og á þetta að vera einhver skemmtun fyrir landsmenn? Nei takk!…hélt við værum lengra komin.“
„Bara sjúklega lélegir og þvingaðir þættir sé eftir tímanum sem fór í að horfa.“
„Sammála að mèr fannst þetta ekki fyndið, meira að seigja maðurinn minn sem er með oft mjög svartan húnor fannst þetta allt of langt gengið að kalla einhvern barnaníðing í sjónvarpi… allt annað fannst mèr fyndið sem var bara almennt grín og pabba brandarar en úff.. þetta var of mikið hjá sveppa…“
„Til háborinar skammar að bjóða áskrifendum upp á þetta.“
„Nennti ekki að horfa til enda. Leiðinlegur og ósmekklegur þáttur.“
„Ógeð, ömurlega klúrt og ruddalegt. Ætla ekki að horfa á næstu þætti.“