fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fréttir

Þórður Snær mun ekki þiggja þingsæti nái hann kjöri

Ritstjórn DV
Laugardaginn 16. nóvember 2024 12:02

Þórður Snær Júlíusson, fyrrverandi ritstjóri Heimildarinnar og frambjóðandi Samfylkingarinnar fyrir komandi kosningar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórður Snær Júlíusson fjölmiððlamaður og frambjóðandi Samfylkingarinnar í komandi þingkosningum tilkynnti nú rétt í þessu að hann muni ekki þiggja þingsæti nái hann kjöri. Þetta gerir hann í kjölfar harðar gagnrýni sem hann hefur hlotið aftir að um 20 ára gömul blogg hans voru afhjúpuð en þau þóttu einkennast af mikilli kvenfyrirlitingu. Þórður Snær segist í yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni vera breyttur maður en ljóst sé að vera hans á lista Samfylkingarinnnar verði flokknum til trafala og því muni hann afsala sér þingsæti nái hann kjöri en of seint er að draga framboð til baka svo skömmu fyrir kosningar, sem fram fara eftir 14 daga. Yfirlýsings Þórðar Snæs fer hér á eftir í heild sinni:

„Yfirlýsing

Ég ber alla ábyrgð á þeim bloggskrifum sem hafa birst í fjölmiðlum síðustu daga. Ég skammast mín djúpt fyrir þau. Skrifin voru röng, meiðandi og skaðleg. Það er hægt að velja hvaða sterka neikvæða lýsingarorð sem við eigum í orðabókinni. Þau eiga við um þessi skrif. Ég bið alla sem hafa orðið fyrir áhrifum af þeim, og bara alla yfir höfuð, aftur og ítrekað, afsökunar á því að hafa skrifað með þessum hætti. Ég geri mér með öllu grein fyrir því að svona skrif og svona sjónarmið hafa valdið miklum skaða í fortíð, nútíð og framtíð og að þau skipti máli í að kvenfjandsamleg menning hefur þrifist. Ég skil að það sem ég skrifaði á þessum tíma er hluti af stærra vandamáli og að það sé mikilvægt fyrir mig að viðurkenna það. Fyrri afsökunarbeiðni mín og ábyrgðartaka átti ekki að vera sett fram með léttúð. Hún, líkt og þessi, er einlæg og án fyrirvara.

Ég er ekki fórnarlamb neinna aðstæðna. Ég ætla ekki að reyna að réttlæta skrifin. Ég hefði einfaldlega átt að vita betur og gera betur. Ég fer ekki fram á að umræðu um skrifin sé lokið með neinum hætti þótt ég hafi beðist afsökunar og iðrist.

Ég eyddi umræddri bloggsíðu af internetinu fyrir um 17 árum. Það var gert vegna þess að ég var þá þegar búinn að átta mig á að skrifin þar voru ekki sniðug og ögrandi heldur vond, meiðandi og skaðleg og ættu ekki að rata fyrir augu neins framar. Það er hins vegar ljóst að skjáskot af síðunni lifðu í vefsöfnum. Ég vissi það ekki og þess vegna kom það mér jafn mikið í opna skjöldu og raun bar vitni þegar ég var spurður út í þau í Spursmálum. Það breytir þó engu um ábyrgð mína á skrifunum. Hún er, líkt og áður sagði, algjör.

Auðvitað hef ég elst og þroskast. Viðhorf mín í þessum málum hafa gjörbreyst. Helsta ástæða þess er sú að ég heyrði konurnar sem leiddu baráttuna fyrir auknu kvenfrelsi og töluðu hæst gegn kvenfyrirlitningu og misrétti lýsa reynsluheimi sínum. Ég heyrði konurnar í kringum mig lýsa óttanum sem þær þurfa að lifa með en ég, í forréttindastöðu, þarf aldrei að takast á við. Ég lærði af öllum sterku konunum sem ég hef unnið með í gegnum árin. Barátta þeirra allra breytti ekki bara viðhorfum mínum, heldur endurskilgreindu viðmið samfélagsins. Ollu byltingu.

Það liggur líka fyrir að baráttan stendur enn. Og það er bakslag í henni. Viðhorf eru farin að heyrast á ný sem voru á undanhaldi. Ungir karlar sem eru á svipuðum stað og ég var á þessum tíma sem skrifin birtust. Það er mjög vond þróun sem þarf að spyrna gegn. Það þarf að berjast fyrir því sem hefur áunnist í kvenfrelsis- og jafnréttisbaráttunni. Ég hef tekið þátt í þeirri baráttu á síðustu áratugum og ég vil gera það áfram sem stuðningsmaður. Með því að hlusta og læra.

Það er þungt að vera af mörgum fyrst og síðast dæmdur af því sem ég gerði fyrir tæpum tveimur áratugum og taldi mig hafa gert upp eins og hægt var en ekki því sem ég hef gert síðan. Vinnan mín, og síðar meir skoðanir, hafa árum saman legið fyrir landsmönnum í gegnum fjölmiðlana sem ég hef starfað á og í seinni tíð stýrt og í þeim fjölmörgu félagsstörfum sem ég hef sinnt. Ég hef helgað mig því að vinna samfélaginu gagn og veita valdhöfum aðhald allan minn starfsferil og flest mín fullorðinsár. Þar með talið í jafnréttismálum og þeim byltingum sem orðið hafa í afstöðu til kvenna og femínisma.

Það ætti að vera öllum sem þekkja til ljóst að það er ekkert eftir af þessum manni sem skrifaði þessi orð fyrir öllum þessum árum síðan. Gildi mín, viðhorf og skoðanir eiga ekkert sameiginlegt við það sem hann skrifaði. Ég get ekki bætt skaðann sem skrifin ollu, og valda, en ég gat breyst og þroskast og orðið að betri og gagnlegri manni.

Ég bauð mig fram til Alþingis á grunni þess sem ég er, og hef orðið að á síðustu tæpu tveimur áratugum, ekki þess sem ég var. Ég vildi gera samfélaginu gagn á öðrum vettvangi. Hvíla mig á því að benda á það sem væri að og reyna að vinna að lausnum þess í stað. Nú er mér ljóst að áframhaldandi vera mín á lista er til trafala og er mörgum þung. Þess vegna tilkynni ég hér með að ég mun ekki taka þingsæti hljóti ég slíkt í kosningunum eftir tvær vikur heldur eftirláta næstu konu á listanum sæti mitt.

Ég óska Samfylkingunni alls hins besta í komandi baráttu. Þar er stórkostlegt fólk í framboði sem var frábært að kynnast á síðustu vikum og mánuðum. Þetta er sannarlega hópur sem á mikið erindi í að bæta samfélagið og hefur allt til þess að leiða farsællega. Kjósið félagshyggju og frjálslyndi. Kjósið bjartsýni, þor og kraft. Kjósið vel meinandi fólk sem setur almannahagsmuni framar sérhagsmunum til valda. Uppfærið Ísland.“

Með vinsemd og virðingu, Þórður Snær Júlíusson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óánægjualda vegna nafnsins á Pablo Discobar – Jón Bjarni segir merkilegt að vera slaufað í Kólumbíu

Óánægjualda vegna nafnsins á Pablo Discobar – Jón Bjarni segir merkilegt að vera slaufað í Kólumbíu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður