Þýski hafeðlisfræðingurinn Stefan Rahmstorf og fleiri fræðimenn hafa varað við hættu á því að Ísland geti orðið óbyggilegt vegna loftslagsbreytinga í náinni framtíð. Sigurður Loftur Thorlacius, umhverfisverndarsinnaður frambjóðandi VG, rakti þetta í grein á Vísir.is sem hefur vakið mikla athygli.
Samkvæmt kenningum Rahmstorf eru allt að helmingslíkur á því að farið verði yfir vendipunkt í veltihringrás Atlantshafsins á þessari öld. Þar undir er framtíð Golfstraumsins en hann veldur því að sjór í kringum Ísland er hlýrri en ella. Sigurður segir í grein sinni:
„Hluti Golfstraumsins liggur norður til Íslands og tengist stærri hringrás sem er kölluð veltihringrás Atlantshafsins eða AMOC (Atlantic Meridional Overturning Circulation). Sú veltihringrás er drifin áfram af seltu. Sjórinn er hlýrri og saltari við miðbaug vegna uppgufunar og hann flytur okkur varma þegar hann streymir norður til Íslands. Þegar straumurinn tekur að kólna þá sekkur hann því saltari sjór er eðlisþyngri. Niðurstreymi sjósins tekur með sér súrefni þegar það sekkur niður í djúpin og á þeim svæðum eru jafnan gjöful fiskimið.“
Sigurður segir að mikil hætta sé á því að þessi veltihringhrás hrynji með þeim afleiðingum að loftslag kólni svo mikið að landið verði óbyggilegt:
„Undanfarna áratugi hefur mælst kuldapollur í hafinu suðvestan af Íslandi, einmitt á því svæði þar sem straumur veltihringrásarinnar sekkur. Þetta þýðir að veltihringrásin sé að dvína og stafar það af auknu írennsli ferskvatns frá bráðnun Grænlandsjökuls og aukinni úrkomu. Aukið ferskvatn dregur úr virkni hringrásarinnar, sem dregur úr streymi saltvatns norður á bóginn, sem dregur enn frekar úr virkni hringrásarinnar. Eftir að farið er yfir vendipunkt í þessu ferli, verður það að vítahring sem dregur sífellt meir úr virkni hringrásarinnar þar til hún hrynur.“
Segir Sigurður að hrun veltihringrásarinnar myndi valda því að hitastig á Íslandi myndi falla um 7-9 gráður og landið yrði óbyggilegt. Hér væri ekki hægt að stunda landbúnað, fiskimiðin myndu hverfa og flestir Íslendingar myndu væntanlega flýja land.
DV bar þetta undir Harald Ólafsson, prófessor í veðurfræði. Hann bendir á að Golfstraumurinn hafi ekki verið að veikjast undanfarna áratugi. „Þrjátíu ára mælisaga sýnir stöðugleika í Golfstraumnum þrátt fyrir hnattræna hlýnun,“ segir Haraldur.
Hann bendir á að vissulega sé útblástur á CO2 áhyggjuefni. „Almennt mætti segja að það sé varhugavert að fikta mikið í gangverki kerfisins, það geti haft ófyrirséðar afleiðingar. Fiktið er áframhaldandi útblástur á CO2. Það kostar tár og blóð að draga úr útblæstri, en jákvæðu fréttirnar eru að kúrvan er byrjuð að fletjast út, þ.e. það stefnir í að útblástur sé að hætta að aukast.“
„Það held ég að sé ólíklegt,“ er svar Haraldar við þeirri spurningu hvort líklegt sé að Ísland verði óbyggilegt á þessari öld. „Það þarf meira en hitasveiflu upp á 2-3 gráður til að svo verði. Nú þegar hefur meðallofthiti á Íslandi hækkað um 1-2 gráður frá því sem var á kalda tímabilinu um og upp úr 1980. Við höfðum það af fyrir 40 árum og mundum gera það aftur þótt meðalhiti dytti niður um 2 stig.“
En er meðalhitinn að fara að hrynja?
„Það eru engar vísbendingar um slíkt. Það hlýnaði hratt árin fyrir og eftir aldamótin 2000, en síðustu tvo áratugi hefur ekki verið skýr leitni í meðalhitafari á Íslandi, en það er breytileiki frá einu ári til annars, eins og allir finna. Það má orða það svo að Ísland hafi nú þegar tekið út drjúgan hluta af þeirri hlýnun sem spáð er að verði á 21. öld.“
„Það hafa verið færð rök fyrir því að það muni hægja mikið á varmaflutningnum í sjónum norður á okkar slóðir í framtíðinni og eins að reiknilíkönin sem notuð eru við veðurfarsspár ráði ekki við að reikna þessa strauma rétt. Það er ekki með öllu útilokað að þetta muni gerast, en það eru heldur ekki áþreifanleg merki um að neitt í þessum dúr sé yfirvofandi.“
Aðspurður um hvort staðan á Golfstraumnum sé þá góð, segir Haraldur:
„Hlýi straumurinn norður á bóginn milli Íslands og Færeyja hefur verið tiltölulega stöðugur síðustu áratugi og reyndar straumurinn milli Íslands og Grænlands líka. Á hinn bóginn hefur nokkuð stórt hafsvæði suðvestur af Íslandi ekki fengið að taka þátt í þeirri hlýnun sem víðast hvar hefur orðið. Þar hefur yfirborð sjávar jafnvel kólnað lítillega, en það fer þó eftir því hvaða tímabil eru til viðmiðunar. Engin einföld skýring er á því, en þar er þó ekkert sem leyfir okkur að draga þá ályktun að heimsendir sé í nánd, hvorki á Íslandi né annars staðar.“