Brúður fór að gráta þegar gestirnir hennar pöntuðu pizzu í brúðkaupinu hennar. Enginn hafði ekki sagt þeim frá því að allur maturinn væri vegan.
Breska blaðið Daily Mail greinir frá þessu en konan sagði sögu sína á samfélagsmiðlinum Reddit.
Brúðhjónin eru bandarísk, hún 28 ára gömul og hann 30 ára. Parið er búið að vera vegan, það er hafa ekki borðað neitt kjöt eða dýraafurðir, í þrjú ár. Vildu þau því hafa aðeins vegan mat í brúðkaupinu sínu.
Það sem þau gerðu hins vegar ekki var að láta gestina vita af þessu. En pistill hennar ber yfirskriftina: Ég er fíflið (I am the asshole). Ástæðan fyrir þessu var sú að hún óttaðist fordóma hjá gestunum gagnvart vegan mat.
Þetta kom henni hins vegar í koll því að frændi hennar var mjög ósáttur og ákvað að panta 20 pizzur í veisluna og sagði gestunum að hann hefði pantað „alvöru mat.“ Fékk þetta mjög á brúðina sem fór í kjölfarið að gráta.
„Er ég fífl fyrir að hafa haft aðeins vegan mat í brúðkaupinu mínu án þess að láta gestina vita og verða svo miður mín þegar fjölskyldan mín pantar 20 pizzur í veisluna?“ spurði konan á Reddit.
Brúðhjónin eyddu bæði miklum tíma og pening í matinn í veislunni.
„Við unnum að matseðlinum í marga mánuði með frábærum kokki til þess að búa til fimm rétta máltíð, sem vildi svo til að væri vegan. Sveppa Wellington, trufflu risotto, grillaðar grænmetisbökur og fleira. Við eyddum næstum 15 þúsund dollurum í matinn,“ sagði hún. En það jafngildir um það bil 2 milljónum króna.
Hún viðurkennir fúslega að það hafi verið með ráðum gert að láta gestina ekki vita.
„Viljandi létum við gestina ekki vita að maturinn væri allur vegan því að við vildum að þeir myndu njóta matarins án fordóma. Hver einasti réttur var hannaður til þess að vera ljúffengur og fullnægjandi, sama hvort fólk sé vegan eða ekki,“ sagði brúðurin.
Það var hins vegar frændi hennar sem var uppljóstrarinn og sagði öllum gestunum að maturinn væri allur vegan.
„Athöfnin var gullfalleg, en í veislunni tók ég eftir að Tom bróðir minn var ekki við borðið. Tuttugu mínútum síðar sá ég mér til skelfingar að hann og frændur mínir voru að bera 20 pizzur inn. Þeir byrjuðu að dreifa þeim til gestanna og sögðu: Alvöru matur fyrir alla sem vilja!“ sagði konan. „Ég var miður mín. Þjónustufólkið varð mjög vandræðalegt og margir gestirnir höfðu ekki einu sinni smakkað réttina okkar.“
Konan spurði bróður sinn að þessu og fékk þá að vita að frænka þeirra hefði sent honum textaskilaboð um að maturinn væri „bara grænmeti“ og að „gestirnir mættu ekki verða svangir.“
Margir gestirnir byrjuðu að gera grín að þessu og tóku myndir af sér með pizzunni. Móðir brúðgumans setti inn færslu á Facebook þar sem hún sagði að pizza hefði „bjargað brúðkaupinu“ af því að brúðurin hefði reynt að fá alla til að borða „kanínumat.“
„Kvöldið endaði með því að ég var grátandi inni á baðherbergi. Maðurinn minn bað bróður minn og frændur að fara burt,“ sagði konan.
Einnig að málið hafi valdið miklum kurr í fjölskyldunni. Þeir sem vildu ekki borða vegan matinn hafi sagt við brúðhjónin að þau hefðu sjálf eyðilagt brúðkaupið sitt með því að reyna að „þvinga sínum lífsskoðunum upp á aðra.“ Það hefði átt að vara við þessu í boðskortinu.