fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
Fréttir

TF-RAN ferst í Jökulfjörðum: Fjögurra manna er saknað – Eitt mannskæðasta slys í sögu Landhelgisgæslunnar

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 15. nóvember 2024 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Út er komin hjá Bókaútgáfunni Hólum bókin Til taks – Þyrlusaga Landhelgisgæslu Íslands fyrstu 40 árin. Í bókinni er, eins og nafn hennar gefur til kynna, rakin saga þyrlusveitar Landhelgisgæslu Íslands fyrstu fjóra áratugina. Sagt er frá baráttunni fyrir því að fá björgunarþyrlu til landsins, en þær hafa verið nokkrar í gegnum tíðina og æði misjafnar, viðamestu verkefnum þyrlnanna og sviplegum atburðum í rekstri þeirra. Tveir af höfundum bókarinnar, þeir Páll Halldórsson og Benóný Ásgrímsson, eru reyndustu þyrluflugmenn okkar og hafa þeir, ásamt fleirum auðvitað, komið mörgum til bjargar. Þriðji í hópi höfunda er Júlíus Ó. Einarsson, þjóðfræðingur og fyrrum lögreglumaður.

Fjölmargar myndir prýða bókina, sem ætti að höfða til allra landsmanna, enda koma þyrlur Landhelgisgæslunnar nánast við sögu á hverjum degi og þar leggja menn sig í líma við að bjarga lífi þeirra sem staddir eru í hættu.

Hér á eftir er frásögn af því þegar TF-RAN fórst í Jökulfjörðum:

TF-RAN ferst í Jökulfjörðum 

Eftirfarandi lýsing er úr dagbók varðskipsins Óðins, nr. 10, 8. nóvember 1983: „Kl. 2253 tók RÁN af varðskipinu og voru fyrirhugaðar hífingaræfingar. Eitthvað óvænt hefur skeð, því aðeins heyrðist stutt kall kl. 2256 og síðan hefur ekkert heyrst meira. Höfum kallað ítrekað ekkert svar. Erum [að] leita og höfum óskað eftir aðstoð SVFÍ á Ísafirði um aðstoð rækjuflotans ásamt bátum sem staddir eru í djúpinu @2348.“ 

Eins og hin stuttorða færsla í dagbók Óðins lýsir, þá liðu aðeins um þrjár mínútur frá flugtaki TF-RAN frá varðskipinu þar til ógreinilegt kall barst frá þyrlunni og eftir það varð sambandslaust við hana með öllu. Menn hefur auðvitað strax grunað hið versta enda var öllum tiltækum bátum á svæðinu stefnt til leitar. 

TF-RAN var um borð í varðskipinu þennan dag eftir svæðisbundið eftirlitsflug með landhelginni. Aftur var áformað, í samráði við Höskuld Skarphéðinsson skipherra, að fara til hífingaræfinga kl. 22:30 og aftur í landhelgis flug í kjölfar þess, fram yfir miðnætti. Óðinn lá við akkeri út undan Höfðaströnd við Jökulfirði sunnanverða. Hringt var út, eins og það nefndist, á tilsettum tíma og áhafnir þyrlunnar og varðskipsins fóru hver á sinn stað eins og starfsreglur lýstu. Þegar mótor þyrlunnar var keyrður upp, hafði akkeri verið létt og skipinu stefnt upp í vindinn en þegar hún var tekin á loft var það samkomulag milli flugstjóra þyrlunnar og skipherrans að því yrði snúið til stjórnborða til þess að flugstjórinn gæti betur metið fjarlægð þyrlunnar að þyrluskýli varðskipsins. Skipherrann lýsti atburðarásinni í kjölfarið með eftirfarandi hætti í skeyti til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar þann 9. nóvember: 

„Þegar ég heyrði að flugvélin tók af kl. 2253 sagði ég 1. stýrimanni sem var á vakt á stjórnpalli, að láta skipið falla til stb. á bógskrúfu. Í sömu mund kallaði ég í talstöðina til Björns að skipið væri á leið til stb. Mér heyrðist hann segja „Roger“, en ég hljóp frá bb. brúarhurð þvert yfir brúna yfir á stb. brúarvæng til að fylgjast með ferðum vélarinnar. Ég get ekki gert mér í hugarlund hvað þetta tók langan  tíma, en þegar ég kom út á stb. brúarvæng sá ég bregða fyrir ljósglampa, eins og af lendingarljósi og að mér virtist í mjög lítilli hæð. Þá heyrðist kall, en við greindum ekki orðaskil. Loftskeytamaður reyndi þá að svara og kalla en ekkert svar kom. Ég sagði 1. stýrimanni áttina sem ég sá glampann en hljóp niður í þyrluskýli og fyrirskipaði að gera áhöfn og bát kláran, því augljóst væri að eitthvað hefði gerst. Leit var þá hafin strax á varðskipinu og gúmmíbát. Loftskeytamanni var falið að ræsa út tfb og slysavarnarformanninn í Hnífsdal. Einnig var óskað eftir aðstoð báta á Ísafirði og við Djúp til leitar.“ 

Forsíða DV miðvikudaginn 9. nóvember 1983 með frétt um að fjögurra manna sé saknað eftir að TF-RAN fórst.

Fyrsti báturinn, sem boðinn var fram til leitar, mb. Orri IS-20, kom á vettvang leitarinnar innan við tveimur klukkustundum frá útkallinu og síðan komu bátar hver af öðrum til aðstoðar auk þess sem björgunarsveitarmenn leituðu fjörur eins langt og óhætt þótti vegna hættu á snjóflóðum. Þá var flugvél Flugmálastjórnar kvödd til leitar ásamt þyrlu og Hercules-flugvél frá varnarliði Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. Veður var kyrrlátt, hægur vindur, en slydda öðru hverju þótt bjart væri á milli. Hélst það gott næstu daga. 

TF-RAN hafði eftir flugtak tekið sveig út yfir fjörðinn og fullvíst þótti strax að hún hefði farið í sjóinn en ekki náð til lands. Um kl. 01:10 fundu áhafnir varðskipsins og mb Orra fyrsta brakið sem merki þess að þyrlan hefði farist í sjó. Það voru brot úr hreyfilblöðum, hjólhlíf og fleira sem staðfestu hinn skelfilega grun manna um afdrif TF-RAN. 

Þessi útfærsla ókunns teiknara sýnir ef til vill fyrst og fremst viðleitni björgunarmanna til þess að leysa verkefni sem þeir höfðu ekki áður staðið frammi fyrir. Skeyti, sem sent var frá varðskipinu Óðni til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar, lýsir þeirri hugmynd að fá leigðan snurpubát með nót til þess að ná flakinu upp, ef köfurum tækist ekki að koma vír í flak þyrlunnar til þess að hífa það upp. Ef snurpa hefði átt vélina upp með þeim hætti sem myndin virðist lýsa, hefði verið úti um árangursríka rannsókn á flakinu.

Skipherrann á vs Óðni bætir við í niðurlagi sama skeytis og fyrr var nefnt: 

„Um afdrif áhafnar flugvélarinnar get ég ekkert fullyrt, þar getur hver og einn ályktað eins og ég. En hvorki ég né aðrir hér urðu varir við nokkuð óeðlilegt, því allt virtist með eðlilegum hætti. Leitað hefur verið á öllum líklegum svæðum. Þyrla frá danska hernum kom og flaug yfir fjörur Lónafjarðar, Hrafnsfjarðar, Kjósar og Leirufjarðar, en þar hefur hvorki fundist tangur né tetur.“ 

Leit hélt áfram, bæði með aðstoð dýptarmælis varðskipsins og „neðansjávarsjónvarps“ um borð í mb Orra en skyggni í sjónum var mjög slæmt; aðeins 50–60 cm. Það var svo þann 10. nóvember að áhöfn vs Óðins fann flak þyrlunnar á hafsbotni á rúmlega 80 metra dýpi og reyndist hún vera á hvolfi. Eftir ýmsar vangaveltur um það hvernig best væri að haga björgun flaksins, hafði tekist að koma taugum í hjólabúnað þyrlunnar fjórum dögum eftir slysið. Ekki var þó hafist handa við að hífa það upp á yfirborð fyrr en búið var að ná upp líkum tveggja manna úr áhöfninni, sem enn voru inni í búk þyrlunnar. Það var þann 14. nóvember sem flakinu var lyft upp á  20 metra dýpi, þar sem festingar voru tryggðar betur áður en haldið yrði áfram. Upp úr hádegi næsta dag var það híft um borð í strandflutningaskipið Öskju sem Skipaútgerð ríkisins hafði sent á vettvang til aðstoðar. Þaðan var það flutt beint yfir á þyrlupall vs Óðins. 

Þann 22. desember sendu Sikorsky-verksmiðjurnar frá sér skeyti til allra rekstraraðila Sikorsky S-76-þyrlna um rannsóknina á flaki TF-RAN. Þar kom fram að rannsókn íslensku flugslysanefndarinnar stæði yfir með aðstoð Sikorsky-verksmiðjanna og fleiri aðila. Tekið er fram að ekki hafi komið í ljós neinir tæknilegir annmarkar á þyrlunni sjálfri né búnaði hennar og kerfum, að hreyflinum meðtöldum. Tekið er fram að tjón á skrokki vélarinnar megi rekja til þess að hún lenti í sjónum, auk þess sem staða rofa í stjórnborði, eftir að flakið var híft úr sjó, gefi ekki til kynna að flotholt hafi verið blásin upp. Þá kemur fram í skeytinu að þar sem ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að þyrlan sjálf né búnaður hennar hafi orsakað slysið, sé íhugað að rannsaka hvort stjórn vélarinnar hafi átt þátt í því. 

Við lok rannsóknar á slysinu þótti víst að rennihurð á hægri hlið þyrlunnar hefði rifnað úr neðri braut sinni og hún slegist upp í þyrilblöð vélarinnar þannig að þau löskuðust. Ekki fékkst niðurstaða um orsök þessa þó svo að grunur flugvirkja Landhelgisgæslunnar beindist á sínum tíma að því að galli hafi verið í stýringu hurðarinnar í brautinni þannig að átta af tólf stálkúlum, sem áttu að styrkja hana, vantaði. Í ljós kom að kveikt var á rofa fyrir leitarljós þyrlunnar. Gera má sér í hugarlund að flugmönnum hafi tekist að kveikja ljósin augnabliki áður en slysið varð, en þeir hafi um leið ekki náð til þess að virkja rofann sem blés upp flotholtin, enda hefur öflugur hristingur á vélinni torveldað flugmönnum hennar að bregðast við. Það getur í það minnsta komið heim og saman við lýsingu skipherrans á ljósglampa í lítilli hæð úr þeirri átt sem þyrlan var. Nánari lýsing á ljósinu og kallinu sem greindist í talstöðinni kom fram í fréttatilkynningu frá samgönguráðuneytinu 25. mars 1985 um sameiginlega niðurstöðu í rannsókn flug slysanefndar og flugmálastjórnar á slysinu: „Þyrlan var komin nokkurn spöl frá skipinu, þegar stutt og ógreinilegt radíókall heyrðist frá henni. Þeir, sem það heyrðu, telja það hafa verið tvítekið neyðarkallið „MAYDAY“ og í sama mund var kveikt á leitarljóskastara þyrlunnar, sem er neðan á nefi hennar. Ljóskeilan beindist beint niður, en sveiflaðist síðan upp, eins og þyrlan hefði skyndilega beint nefinu upp á við. Þyrlan hvarf síðan skyndilega.“ 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Móðir barns með fötlun sendir forystu KÍ opið bréf – „Þeir sjá bróður sinn þjást og vita ekki hvernig þeir eiga að hjálpa“

Móðir barns með fötlun sendir forystu KÍ opið bréf – „Þeir sjá bróður sinn þjást og vita ekki hvernig þeir eiga að hjálpa“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Skúli Bragi varar við: Börn geta komist í snertingu við skaðlegt efni á samfélagsmiðlum – „Þau þurfa ekki einu sinni að leita eftir því sjálf“

Skúli Bragi varar við: Börn geta komist í snertingu við skaðlegt efni á samfélagsmiðlum – „Þau þurfa ekki einu sinni að leita eftir því sjálf“
Fréttir
Í gær

Kristrún bregst við bloggskrifum Þórðar Snæs – „Mér leið eins og ég hefði verið kýld í magann“

Kristrún bregst við bloggskrifum Þórðar Snæs – „Mér leið eins og ég hefði verið kýld í magann“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Salka Sól fokvond út í Bjarna – „Honum er bara drull“

Salka Sól fokvond út í Bjarna – „Honum er bara drull“