Áform borgarstjórnarmeirihlutans um þéttingu byggðar í Grafarvogi hafa mælst misvel fyrir og vakið mótmæli íbúa. Morgunblaðið leggst gegn þessum áformum í leiðara blaðgsins í dag. Þar segir:
„Gríðarleg óánægja hefur brotist fram í Grafarvogi vegna yfirgengilegra þéttingaráforma borgaryfirvalda í hverfinu. Á síðustu dögum hafa verið haldnir þar tveir fundir sem samtals nærri þúsund íbúar sóttu, sem lýsir vel óánægjunni í átján þúsund manna hverfi.
Óánægjan er til komin vegna þess að borgaryfirvöld hyggjast ganga mjög á græn svæði í hverfinu og fjölga íbúum um átján þúsund manns samkvæmt mati íbúasamtakanna, sem fengu ekki svör frá borginni um áætlaðan fjölda á fyrirhuguðum þéttingarreitum svo að íbúasamtökin áætluðu fjöldann sjálf út frá forsendum um fyrirhugaða fjölgun íbúða. Inni í þessari tölu er uppbygging í Keldnalandi, sem íbúar óttast að þrengi meðal annars að umferð til og frá hverfinu.“
Mogginn segir að áformin séu í samræmi við stefnu borgarinnar undanfarin ár undir forystu Dags B. Eggertssonar, sem haldi áfram þó að hann hafi yfirgefið borgarstjórastólinn. Stefnan hafi leitt til hækkunar húsnæðisverðs og aukinnar verðbólgu og hafi orðið þjóðinni dýrkeypt. Ekkert bendi til að borgastjórnarmeirihlutinn ætli að hverfa frá þessari stefnu sem hafi fækkað grænum svæðum og dregið úr lífsgæðum.
Segir að hverfa þurfi frá þessari þéttingarstefnu en ekkert bendi til að það sé í spilunum:
„Íbúar Grafarvogs og Reykjavíkur allrar eiga skilið að borgarfulltrúar, ekki síst þeir sem nú sækjast eftir að gerast einnig þingmenn Reykjavíkur, endurskoði afstöðu sína til ofurþéttingar í borginni. Nóg er komið af háu húsnæðisverði og eyðileggingu grænna svæða. Kreddurnar verða að víkja áður en tjónið verður óbætanlegt.“