fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
Fréttir

Gjaldþrota fyrirtæki Quang Le skipað að endurgreiða lyklagjald vegna leigusamnings sem aldrei var efndur

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 14. nóvember 2024 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd húsamála hefur kveðið upp úrskurð sinn í máli sem varðar leigu á atvinnuhúsnæði nánar tiltekið leigu á rými fyrir veitingastað í húsnæði þar sem til stóð að opna mathöll en ekkert varð af því eftir að forsvarsmaður fyrirtækisins sem leigði út rýmið og ætlaði að standa fyrir opnun mathallarinnar var hnepptur í gæsluvarðhald vegna gruns um margvísleg afbrot. Í málinu krafðist aðilinn sem ætlaði að opna veitingastaðinn endurgreiðslu á svokölluðu lyklagjaldi sem hann var látinn greiða og nam 4 milljónum króna en í úrskurðinum kemur fram að fyrirtækið sem leigði aðilanum rýmið efndi aldrei leigusamninginn. Varð nefndin við þeirri kröfu. Úrskurðurinn hefur verið hreinsaður af öllum nöfnum en af samhengi hans sést bersýnilega að forsvarsmaðurinn sem endaði í gæsluvarðhaldi er hinn vel þekkti Quang Le.

Mál Quang Le hafa margoft verið til umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu en hann hefur sætt rannsókn vegna meðal annars gruns um mansal, peningaþvætti, brot á atvinnuréttindum og gruns um skipulagða brotastarfsemi. Fyrirtæki í eigu Quang Le ætlaði sér að opna mathöll í húsnæðinu að Vesturgötu 2 í Reykjavík þar sem Kaffi Reykjavík var lengi til húsa en ekkert varð af opnuninni eftir að viðskiptaveldi hans hrundi til grunna í kjölfar þess að hann var handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Lyklagjald

Fyrirtæki Quang Le hafði leigt húsið af eigendum þess og leigt síðan einstök rými út til aðila sem ætluðu sér að opna veitingastaði í mathöllinni. Fyrirtækið lét aðilann sem sótti þetta mál til Kærunefndar húsamála greiða lyklagjaldið daginn eftir undirritun leigusamnings í nóvember 2023.

Við vinnslu málsins hjá nefndinni í maí 2024 kom hins vegar í ljós að þetta fyrirtæki Quang Le hefði verið úrskurðað gjaldþrota. Skiptastjóri þrotabúsins upplýsti í kjölfarið að það myndi ekki láta málið til sín taka.

Málavextir eru raktir all ítarlega í úrskurðinum. Í mars 2024 riftu eigendur húsnæðisins að Vesturgötu 2 leigusamningi við þetta fyrirtæki Quang Le en hann var í kjölfarið handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna gruns um mansal, peningaþvætti, brot á atvinnuréttindum og gruns um skipulagða brotastarfsemi.

Umræddur aðili sem ætlaði að opna veitingastað í mathöllinni sem aldrei var opnuð gerði leigusamning við fyrirtæki Quang Le. Leigan átti að vera tvískipt annars vegar föst leiga og hins vegar vísitölutengd leiga. Við upphaf leigutímabilsins hafði aðilinn átt að greiða fyrirtæki Quang Le lyklagjald sem átti  að vera fimm milljónir króna við undirritun leigusamnings og síðan 15 milljónir króna í þremur greiðslum.

Í kæru sinni vísaði aðilinn til ákvæðis í leigusamningnum um að við löglega riftun hans skuli leigusalinn, þ.e. fyrirtæki Quang Le, endurgreiða hlutfall af greiddu lyklagjaldi miðað við það tímabil sem eftir væri af leigutímabilinu.

Las það í fréttum

Daginn eftir undirritun leigusamningsins greiddi aðilinn þessu fyrirtæki Quang Le 4 milljónir króna upp í lyklagjaldið. Aðilinn sagði í kæru sinni til nefndarinnar síðan hafa lesið það, í mars 2024, í fjölmiðlum að eigendur hússins væru búnir að rifta leigusamningi við fyrirtækið vegna vanefnda. Það hafi verið gert formlega 7. mars en tveimur dögum áður hafi Quang Le verið handtekinn.

Aðilinn rifti um miðjan apríl þessum leigusamningi sínum við fyrirtæki Quang Le vegna vanefnda, ekki síst vegna dráttar á afhendingu rýmisins í húsinu að Vesturgötu 2, þar sem hann ætlaði sér að opna veitingastaðinn. Hann rifti samningnum einnig á þeim grundvelli að í ljósi riftunar eigenda hússins væri ekkert samningssamband lengur  til staðar milli þeirra og fyrirtækis Quang Le. Loks rifti hinn ónefndi aðili samningnum á þeim grundvelli að fyrtæki Quang Le hafi ekki haft heimild til að leigja honum húsnæðið eftir ritftun eigendanna og því hafi verið um sviksamlegt athæfi að ræða. Aðilinn krafðist um leið endurgreiðslu á lyklagjaldinu auk dráttarvaxta.

Fram kemur í úrskurðinum að erfiðlega hafi gengið að koma tilkynningu um riftun leigusamningsins til Quang Le. Í niðurstöðu Kærunefndar húsamála segir að samkvæmt gögnum málsins hafi þetta fyrirtæki hans bersýnilega aldrei andmælt riftuninni og það hafi skiptastjóra þrotabúsins heldur ekki gert og því fellst nefndin á að aðilinn sem ætlaði að opna veitingastaðinn hafi verið í fullum rétti við að rifta leigusamningnum.

Á grundvelli þess að fyrirtæki Quang Le efndi aldrei leigusamninginn við aðilann með því að afhenda honum ekki rýmið sem hann leigði, riftunarákvæðis leigusamningsins, og ákvæðis samningsins um að hann myndi ekki hefjast fyrr en mathöllin yrði opnuð, sem aldrei varð raunin, féllst nefndin á að fyrirtækið, sem er eins og áður segir gjaldþrota, ætti að endurgreiða 4 milljóna króna lyklagjaldið, auk dráttarvaxta.

Í niðurstöðuhluta úrskurðarins er nafn þess aðila sem hefur tekið yfir réttindi og skyldur hins gjaldþrota fyrirtækis, sem þarf þá væntanlega að endurgreiða lyklagjaldið afmáð. Það er því ekki fyllilega ljóst hvort um er að ræða þrotabúið eða hvort annað fyrirtæki hafi tekið yfir rekstur þessa gjaldþrota fyrirtækis Quang Le.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Eiginkona Assads sögð ætla að sækja um skilnað

Eiginkona Assads sögð ætla að sækja um skilnað
Fréttir
Í gær

Siggi lýsir fyrstu jólunum án sonarins sem lést á árinu – „Maður er foreldri áfram. Maður verður að sýna andlitið“

Siggi lýsir fyrstu jólunum án sonarins sem lést á árinu – „Maður er foreldri áfram. Maður verður að sýna andlitið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir