DV hefur í dag leitað viðbragða Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, við alræmdum bloggskrifum Þórðar Snæs Júlíussonar, frambjóðanda flokksins, sem dregin voru fram í dagsljósið í þættinum Spursmál á mbl.is í gærkvöld og DV hefur gert ítarleg skil í dag.
Þórður Snær skipar þriðja sætið á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður.
Skrifin einkennast m.a. af klámfengnum og niðrandi athugasemdum um konur, andúð á feminisma og fitusmánun. Mörg verstu skrifin eru frá árinu 2004 er Þórður var 24 ára gamall námsmaður í Skotlandi, en þó er að finna mjög niðrandi skrif, m.a. um Rannveigu Rist, forstjóra Rio Tinto Alcan, frá árinu 2007, er Þórður var 27 ára gamall blaðamaður á 24 stundum.
Frá sama ári er ennfremur að finna þessa færslu eftir Þórð Snæ:
„Ég er sérlegur aðdáandi Heiðveigar. Þið munið eftir Heiðveigu er það ekki? Hún var kærastan hans Vaidasar-Grétars. Sem henti Vaidasi í höfnina fyrir austan. Og stakk hann dauðann. Hún er líka dóttir Rósu Ingólfs. Og glæsilega klámmyndaleg. Ég sagði henni einu sinni að mig langaði að ríða henni. Hún gekk í burtu. Merkilegt hvernig sú lína virkar aldrei.“
DV hefur leitað viðbragða Kristrúnar Frostadóttur vegna skrifa Þórðar Snæs. Í fyrstu stóð til að Kristrún myndi veita DV viðtal um málið í hádeginu en þá kom í ljós að bloggskrif Þórðar Snæs voru miklu umfangsmeiri en í fyrstu leit út fyrir. Samkvæmt heimildum DV er Kristrún að kynna sér skrifin og hugsanlegra viðbragða hennar vegna þeirra því líklega ekki að vænta fyrr en á morgun.