Héraðsdómur Vesturlands hefur vísað frá dómi máli fyrirtækis á hendur Oddfellowhúsinu á Akranesi, sem er sameiginlegt félag þriggja Oddfellowstúka í bænum um meirihlutaeign á húsinu, og Oddfellowreglunni á Íslandi. Krafðist fyrirtækið greiðslu vegna framkvæmda sem það hefði annast á húsinu. Er það hins vegar niðurstaða dómsins að ekkert sýni fram á að samið hafi verið fyrirtækið um að annast þessar framkævmdir og raunar sé lítið sem ekkert sem sanni á að það haldi úti verktakastarfsemi.
Um er að ræða fyrirtækið Miklus ehf. en samkvæmt fyrirtækjaskrá snýst starfemi þess um skipulagningu á ráðstefnum og vörusýningum.
Í dómnum segir að Miklus hafi stefnt Oddfellowhúsinu en Oddfellowreglunni til vara og krafist 16,9 milljóna króna auk dráttarvaxta.
Málið snýst um framkvæmdir við breytingar og viðhald á Oddfellowhúsinu við Kirkjubraut 54–56 á Akranesi. Miklus fullyrti að fyrirtækið hefði séð um þessar framkvæmdir en það könnuðust Oddfellowmenn ekki við.
Vísaði Miklus til þess að Steðji fjárfestingar ehf., sem sé í eigu sömu aðila, hefði keypt fjórðungshlut í húsinu. Gagnaðilar vildu meina að fyrirtækið Fylkir sem hefði átt þann hlut áður en Steðji eignaðist hann hefði átt frumkvæði að umræðum um framkvæmdirnar.
Í dómnum eru síðan reifuð ýmis samskipti milli eigenda hússins varðandi teikningar og skipulagningu framkvæmdanna.
Oddfellowmenn vísuðu til þess að öll samskipti eiganda fjórðungshlutarins hefðu verið í nafni Steðja en ekki Miklusar. Þeir bættu einnig meðal annars við að þrátt fyrir fyrirætlanir um slíkt hafi aldrei farið fram útboð vegna framkvæmda við húsið, engra tilboða verið aflað eða slík þá samþykkt og enginn samningur gerður, hvorki við Miklus né annan aðila.
Í dómnum segir að Miklus hafi greitt þriggja milljóna króna reikning vegna framkvæmdanna og hafi fyrirtækið talið það jafngilda samþykki Oddfellowmanna fyrir aðild fyrirtækisins að framkvæmdunum en því höfnuðu þeir.
Það var fyrst þegar eitthvað var liðið á framkvæmdirnar þegar minnst var á Miklus í samskiptum eigenda hússins.
Í dómnum er málsatvik rakin all ítarlega en þar kemur meðal annars fram að fyrirtækið Steðjar hafi ýmist notað það nafn eða nafn Miklusar í samskiptum við Oddfellowmenn sem hafi neitað að greiða reikning frá Miklus fyrir framkvæmdirnar á þeim grundvelli að enginn samningur hefði verið gerður við það félag.
Fljótlega kom upp mikill ágreiningur og héldu Oddfellowmenn því fram að aldrei hefði verið samþykkt á vettvangi húsfélags hússins að fara í þeir framkvæmdir sem reikningar Miklusar snerust um.
Miklus vildi hins vegar meina að Oddfellowmenn hefðu ekki andmælt framkvæmdunum fyrr en löngu eftir að ráðist hefði verið í þær og með þessu háttalagi sínu hefðu þeir valdið fyrirtækinu fjárhagstjóni.
Í niðurstöðu Héraðsdóms Vesturlands segir að afar óljóst sé hvernig staðið hafi verið að málum varðandi umræddar framkvæmdir. Miklus hafi ekkert gert til að sýna fram á hvernig fyrirtækið hafi eignast þá kröfu sem það hafi með þessum málarekstri krafist greiðslu á. Það liggi fyrir að ekki hafi verið gerður verksamningur um framkvæmdirnar og líta verði svo á ekki hafi heldur verið gerð fullnægjandi samþykkt á formlegum húsfélagsfundi um framkvæmdir eða umfang þeirra.
Hvergi sé sjáanleg aðkoma fyrirtækisins í málinu hvort sem er að ákvörðunartöku um framkvæmdir eða aðild að slíkum ákvörðunum eða framkvæmdunum sjálfum. Afar litlar vísbendingar séu um að Miklus reki yfir höfuð verktakastarfsemi eða taki að sér framkvæmdir. Nafn fyrirtækisins komi ekki fyrir í málsgögnum fyrr en nokkuð hafi verið liðið á það tímabil sem deilt sé um í málinu. Fyrir þann tíma hafi það bersýnilega verið fyrirtækið Steðjar fjárfestingar sem hafi rekið málið og hafið framkvæmdir.
Í ljósi þess að ekkert sýni fram á að Steðjar hafi framselt kröfuna til Miklusar, enginn samningur liggi fyrir og að Oddfellowmenn kannist ekkert við að hafa samið við síðarnefnda fyrirtækið um framkvæmdirnar sé ekki annað hægt annað en að vísa málinu frá þar sem ekki hafi verið sýnt fram á aðild Miklusar að málinu.
Eins og áður kom fram stefndi Miklus bæði félagi þriggja Oddfellowstúka á Akranesi, sem á meirihluta í húsinu sem deilan snýst um, og Oddfellowreglunni á Íslandi. Héraðsdómur Vesturlands segir það hins vegar liggja fyrir að forsvarsmenn Miklusar og Oddfellowreglunnar hafi aldrei hist til að semja um framkvæmdirnar. Á milli þessara aðila sé því bersýnilega ekkert samningsssamband sem geti þar af leiðandi ekki skuldbundið Oddfellowregluna eða félag Oddfellowstúkanna þriggja á Akranesi.
Málinu var því vísað frá og Miklus dæmt til að greiða hvorum gagnaðila um sig 900.000 krónur í málskostmað auk dráttarvaxta.
Dóminn í heild sinni er hægt að lesa hér.