Einn af frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í komandi alþingiskosningum er eftirlýstur af lögreglunni í Póllandi fyrir fjársvik. Þetta kemur fram í frétt RÚV. Samkvæmt tilkynningu frá flokknum hefur hann dregið framboð sitt til baka. Maðurinn hefur verið mjög virkur í samfélagi fólks af pólskum uppruna á Íslandi.
Í fréttinni kemur fram að pólsk yfirvöld hafi óskað eftir því að maðurinn verði framseldur til Póllands. Um sé að ræða Christopher G. Krystynuson sem skipi 14. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi Norður. Christopher, sem hafi verið búsettur á Íslandi í áratugi, hafi áður verið skráður í þjóðskrá undir nafninu Krzysztof Gajowski en undir því nafni sé hann eftirlýstur fyrir fjársvik af lögreglunni í bænum Gryfino í vesturhluta Póllands.
RÚV segist hafa fengið þetta staðfest hjá Lögreglunni í Póllandi. Yfirvöld í Pólland hafi óskað eftir því að Christopher yrði framseldur til Póllands en íslensk yfirvöld hafnað þeirri beiðni. Christopher segi í samtali við RÚV að málið snúist um fyrirtæki sem hann hann hafi rekið í Póllandi fyrir nærri þrjátíu árum. Fyrirtækið hafi farið í þrot og úr því hafi komið til málaferla. Hann hafi flutt úr landi áður en til refsingar kom og þess vegna sé málið enn óklárað í Póllandi. Hann vísi til þess að yfirvöld hér á landi hafi hafnað beiðni um framsal og segist því líta svo á að hann sé saklaus maður samkvæmt íslenskum lögum.
Sjálfstæðisflokknum mun ekki hafa verið kunnugt um þetta mál. Þar sem Christopher er þetta neðarlega á listanum er talið ólíklegt að reyni á kjörgengi hans eftir kosningar, segir að lokum í frétt RÚV. Fréttin var síðan uppfærð með tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum um að Christopher hefði dregið framboð sitt til baka að eigin frumkvæði. Óljóst er hvaða merkingu það hefur í ljósi þess að framboðslistar hafa þegar verið gefnir út af Landskjörstjórn.
Eins og DV greindi frá nýlega hefur Christopher verið virkur í samfélagi fólks af pólskum uppruna hér á landi en hann skipulagði meðal annars bænastund fyrir móður manns frá Póllandi sem stunginn var til bana á bílastæðinu við Fjarðarkauð á síðasta ári.
Kristófer segir að móðir látna Pólverjans eigi rétt á því að vera reið
Samkvæmt 40. grein kosningalaga virðist það ekki vera mögulegt fyrir Christopher að draga framboð sitt til baka svo skömmu fyrir kjördag, sem er 30. nóvember. Í þessu lagaákvæði segir:
„Frambjóðandi getur afturkallað samþykki sitt til framboðs á framboðslista stjórnmálasamtaka fram til þess að frestur til að skila framboðum rennur út.“
Þessi frestur rann út á hádegi 31. október síðastliðinn.