Árleg samverustund syrgjenda fer fram þann 28. nóvember kl. 20:00 í Háteigskirkju næstkomandi en hún hefur verið haldin í hartnær þrjá áratugi.
„Jólin eru ekki öllum auðveld,“ segir Magnea Sverrisdóttir, verkefnastjóri hjá Biskupsstofu. „Það getur tekið á að horfa til jóla í skugga ástvinamissis. Við í Þjóðkirkjunni og sálgæsluteymi Landspítala stöndum fyrir samveru fólks á öllum aldri sem stendur í þessum sporum.
Í tilkynningu frá Þjóðkirkjunni segir að samverustundin sé haldin til þess að bjóða syrgjendum upp á nærandi stund, hlusta á fallega tónlist og uppörvandi texta.
Stundin er að sjálfsögðu opin öllum að sögn Magneu, og hefur verið vel sótt undanfarin ár. „Við erum afar þakklát fyrir að geta boðið upp á aðventustund fyrir þau sem standa í þessum sporum sem hluta af þjónustu Þjóðkirkjunnar við fólk í öllum aðstæðum lífsins.“ Að athöfninni lokinni þá gefst aðstandendum tækifæri til þess að ræða saman og þiggja léttar veitingar,“ bætir hún við.
Arna Dögg Einarsdóttir, yfirlæknir líknarlækninga, flytur ljóð, Ragnheiður Gröndal flytur tónlist, Gunnar Rúnar Matthíasson sjúkrahúsprestur flytur hugvekju og Kordía, kór Háteigskirkju syngur lög og sálma undir orgelleik Erlu Rutar Káradóttur.
Samverustundinni stýrir Ingólfur Hartvigsson sjúkrahúsprestur.
Magnea leggur áherslu á að stundin sé öllum opin, líkt og önnur þjónusta Þjóðkirkjunnar.