fbpx
Fimmtudagur 02.janúar 2025
Fréttir

Gunnar Smári varar við fjárlagafrumvarpinu – Segir þetta þekkta leið til að gefa bröskurum skattfé almennings

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 12. nóvember 2024 12:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Smári Egilsson, frambjóðandi Sósíalistaflokksins, vekur athygli á því að fjárlagafrumvarpið virðist nú ætla að fara svo gott sem athugasemdalaust í gegnum þingið, og það þó í því sé að finna víðtækar heimildir til sölu ríkiseigna. Þetta komi að sjálfu sér ekkert á óvart enda hafi „niðurrifsflokkar“ í ríkisstjórn lengi unnið að hagsmunum auðvaldsins sem felist einmitt í því að færa almannafé til braskara.

Gunnar skrifar á Facebook:

„Nú liggur fyrir Alþingi fjárlagafrumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar og það verður líklega afgreitt án mikilla athugasemda. Þingmenn eru uppteknir í kosningabaráttu, eru að berjast fyrir starfi sínu. Þegar frumvarpið verður að lögum munu ráðherrar fá heimild til að selja svo til allar fasteignir, lóðir og jarðir ríkisins og þar með hús undan skólum, heilbrigðisstofnunum og stofnunum og leigja það síðan af auðugu fólki. Þetta er þekkt leið til að taka skattfé sem almenningur borgar til að halda uppi almannaþjónustu og færa það bröskurum.“

Gunnar nefnir nýlegt dæmi. Skatturinn sé nú að leigja húsnæði af „innvígðum og innmúruðum verktaka“ þar með muni Skatturinn borga upp verðmæti hússins á 9 árum. Þetta sé að sjálfsögðu ekki praktískt fyrir ríkið en aftur á móti frábært fyrir verktakann.

„Þetta er afleitur kostur fyrir ríkið en frábær peningamaskína fyrir braskarann. Sjálfstæðismenn rústuðu fjárhag Reykjanesbæjar með þessari aðferð, að selja og leigja aftur nánast allar eigur bæjarins. Íhaldsflokkurinn og hægri kratar í Verkamannaflokknum í Bretlandi hafa nánast eyðilegt hið góða heilbrigðiskerfi, NHS, með sömu aðferð. Stór hluti aukinna framlaga til heilbrigðismála renna í gegnum kerfið og enda sem okurleiga í sjóðum leigusala.“

Ekki sér Gunnar fyrir sér að þetta muni breytast ef Miðflokkurinn kemst í ríkisstjórn enda sé formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kominn af auðfólki líkt og forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson. Það sé þeim því eðlislægt að auka hag auðvaldsins, enda tilheyra þeir stéttinni.

„Í sjálfu sér er ekkert skrítið að Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson standi fyrir þessu, verandi synir auðfólks. Þeir vilja ekki aðeins auka hag auðvaldsins, sem þeir tilheyra, heldur lækka erfðafjárskatt svo þeir þurfi ekki að borga skatta þegar eignir foreldranna færast til þeirra. Það er hins vegar undarlegt hvað margir flokkar og þingmenn slást í lið með þessum tveimur.“

Gunnar bendir á að þessir flokkar tali mikið um að losna við ríkiseignir og koma þeim á almennan markað, það sé gert í nafni frjálshyggju en því sleppt að nefna að í raun og veru sé það til að auka hag fimmtán ríkustu fjölskyldna landsins.

„Niðurrifsflokkarnir í ríkisstjórn og á Alþingi halda áfram að mola það niður sem almenningur byggði upp á síðustu öld. Markmiðið er að veikja almannavaldið og fóðra auðvaldið, ná fé, eignum, auðlindum og völdum af almenningi og færa það svokölluðum markaði, sem er auðvitað fátt annað en fimmtán ríkustu fjölskyldur landsins.“

Telur Gunnar augljóst að nýfrjálshyggjan hafi nú þegar afhjúpað sig í hruninu 2008. Loforð fylgismanna stefnunnar gangi aldrei eftir en samt fá þeir tækifæri til að halda áfram að arðræna þjóðina með tilheyrandi skaða. Hann hvetur landsmenn til að horfa í átt til sósíalisma, það sé farvegur frelsisbaráttu almennings gegn auðvaldinu og hafi verið síðustu 150 árin. Í það minnsta þurfi þjóðin slíkan flokk á Alþingi til að gæta hagsmuna venjulegs fólks gegn auðvaldinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Völva DV – Íþróttasigrar, hlé á eldgosum og vinsælar valkyrjur

Völva DV – Íþróttasigrar, hlé á eldgosum og vinsælar valkyrjur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dreifa gjafabréfum til barna fyrir hlífðargleraugum

Dreifa gjafabréfum til barna fyrir hlífðargleraugum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Byggingaráform Samkaupa valda ólgu á Siglufirði – „Óafturkræft skipulagsslys“

Byggingaráform Samkaupa valda ólgu á Siglufirði – „Óafturkræft skipulagsslys“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íbúar í Garði uggandi vegna framkvæmdar í Gaukstaðalandi – Óttast annað „Árskógaslys“

Íbúar í Garði uggandi vegna framkvæmdar í Gaukstaðalandi – Óttast annað „Árskógaslys“