fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fréttir

Dómurinn í Nýbýlavegsmálinu: Spurði hvort drengurinn vildi fara í „góða heiminn“

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 12. nóvember 2024 10:40

Móðirin sagði rödd hafa sagt sér að fremja ódæðið.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bróðir drengsins sem var myrtur af móður sinni á Nýbýlavegi sagði að hann hefði vaknað við það að móðir hans hélt fyrir vit hans. Hún spurði hvort hann vildi ekki deyja áður en hann yrði 13 ára gamall því þá færi hann í „góða heiminn.“

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í dóminum  yfir móðurinni, sem féll í Héraðsdómi Reykjaness 6. nóvember.

Móðirin var dæmd til 18 ára fangelsisvistar fyrir morð og morðtilraun á sonum sínum þann 31. janúar á þessu ári á heimili þeirra að Nýbýlavegi í Kópavogi. Hún játaði verknaðinn. Fjölskyldan er frá Írak.

Fundu drenginn í sófa

Í dóminum kemur fram að lögreglu hafi borist tilkynning um andlát drengsins eftir að móðirin hafi hringt á Neyðarlínuna. Sagði hún að drengurinn væri dáinn og að hún þyrfti sjúkrabíl og lögreglu. Sonurinn var sá yngri af tveimur en hinn eldri var í skólanum og vissi ekki hvað hefði gerst.

Þegar lögregla kom lá drengurinn á bakinu á sófa með spenntar greipar undir teppi. Færðu lögreglumennirnir drenginn á gólfið og reyndu endurlífgun en þegar sjúkraflutningamenn mættu á staðinn sáu þeir að augljóst var að drengurinn væri látinn.

Móðirin var á heimilinu og greindi lögreglu frá því að hún hefði kæft drenginn klukkan eitt um nóttina með kodda. Var hún handtekin og færð á lögreglustöð.

Tæknimenn mættu á svæðið og var meðal annars hald lagt á hvítan kodda  með rauðleitum vökva en hann var þó ekki sendur í DNA greiningu því að lögreglumenn á vettvangi sögðu vökvann hafa lekið úr vitum drengsins þegar þeir færðu hann á gólfið.

Fóru lögreglumenn svo með fulltrúa barnaverndar í skólann þar sem eldri bróðurnum var tilkynnt um andlátið. Greindi hann þá frá því að hann hefði vaknað um nóttina þegar móðir hans hélt um vit hans. Spurði hún hann hvort hann vildi ekki deyja áður en hann yrði 13 ára til þess að hann færi í „góða heiminn.“ Þegar hann sagði nei sofnaði hann aftur en þegar hann vaknaði sagði móðir hans honum að yngri bróðir hans væri veikur og færi ekki í skólann.

Ekki undir áhrifum

Við rannsókn málsins sá lögregla að móðirin hafði í þrígang rætt við barnsföður sinni daginn áður en hún framdi ódæðið. Einnig systur sína. Þá fann lögregla smáskilaboð hjá henni á ensku þar sem stóð: „I want to surrender myself. I confess.“ og „the nearest police.“

Læknisrannsókn sýndi fram á að móðirin var hvorki undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.

Krufning sýndi fram á að dánarorsök yngri sonarins var köfnun eftir að krafti hafi verið beitt gegn hálsinum og eftir hluta brjóstsins. Sagði móðirin að hún hefði sett hendur yfir andlit drengsins með teppi eða þunnum kodda á milli en hún var þá í bláum gúmmíhönskum.

Fari í fallegan heim

Móðirin bjó ein með drengjunum. Hún hafði glímt við andlega erfiðleika, verið þreytt, þunglynd og stressuð. Hún var með þráhyggju fyrir veikindum sínum. Fjárhagsáhyggjur settu einnig strik í reikninginn. Reyndi hún að fá leigusala til að setja íbúðina á nafn fyrrverandi eiginmanns því hún væri andlega þreytt og vildi fara. Því hafnaði leigusalinn.

„Hún hefði verið kvíðin og stressuð yfir því hvað yrði um börnin en „við hugsum ef barn deyr“ að það fari í fallegan heim. Ákærða kvaðst ekki vita hvers vegna þetta hefði komið upp í huga hennar en hún kvaðst finna fyrir miklu þunglyndi og vera þreytt. Hún hefði átt að yfirgefa íbúðina um mánaðamótin, verið undir miklu álagi með litlar tekjur og ekki sofið,“ segir í dóminum.

Í heimalandinu sé hugsunin að börnin fari í fallegan heim þegar þau deyja. Hugsun sín hafi verið að börnin myndu deyja og hún líka. Hafði hún hugsað um þetta í nokkra daga fyrir árásina.

Hún hafi reynt að gera eitthvað við eldri soninn en síðan ekki getað meir. Hann hafi vaknað strax og henni hafi fundist það erfitt að kæfa hann af því að hann var eldri. Hún hafi hætt við árásina eftir að hann hafi neitað því að vilja fara í góða heiminn. Á þeim tíma var hún búinn að drepa bróður hans. En hún gaf þeim yngri ekki tækifæri til þess að segja nei.

Skipti um föt á drengnum

Sagði móðirin að yngri drengurinn hefði verið hlæjandi þegar hann fór til himnaríkis. Skipti hún um föt á honum látnum þar sem hún hélt að hann væri búinn að pissa á sig áður en hann dó. Sagðist hún ekki vita hvort hann var þá lifandi eða dáinn en hann var þá kaldur.

Sjá einnig:

Hvað vitum við um harmleikinn á Nýbýlavegi? – Faðirinn kvaddi látinn son sinn

Í annarri skýrslutöku sagði móðirin að rödd hefði talað við hana og sagt henni að vinna ódæðið. Hún hafi reynt að vinna til að röddin talaði ekki við hana en svo ákveðið að fara með yngri drenginn til himnaríkis þar sem honum myndi líða betur og yrði að fugli. Hún væri sjálf með krabbamein og vildi ekki deyja eins og móðir hennar gerði. Sagði hún að hún hefði ekki verið búin að útfæra hvernig hún myndi taka eigið líf.

Sá bróður sinn í sófanum

Í skýrslutöku í Barnahúsi sagði eldri drengurinn að hann hefði vaknað um klukkan tvö við að haldið væri fyrir vit hans. Hann vissi ekki hver það var en barðist um og öskraði.

Þá sá hann að þetta væri móðir sín sem spurði hvort hann væri viss um að hann vildi ekki deyja, hvort faðir hans yrði ekki með vandamál og hvort hún gæti verið viss um að hann færi með bænir eftir að hann næði ákveðnum aldri. Þeir sem færu ekki með bænir færu til helvítis en börn færu til himnaríkis.

Bað hann um símann sinn til að hringja á lögregluna en hún sagðist hafa ætla að gera það sjálf. Fór hún út úr herberginu en kom aftur með gula uppþvottahanska, skjálfandi á höndunum.

Sagði drengurinn að móðir sín hefði spurt bræðurna nokkrum dögum áður hvort þeir vildu lifa eða deyja. Sá yngri hefði sagt að hann vildi ekki deyja.

Þegar hann vaknaði og fór í skólann um morguninn sá hann bróður sinn á sófanum með teppi yfir sér. Hann vissi ekki að hann væri látinn.

Með geðrofseinkenni en sakhæf

Móðirin var sett í geðmat í febrúar. Í matinu kom fram að hún hefði enga sögu um alvarlegan geðrænan vanda. Hún hefði sýnt fína samvinnu í viðtölum en hefði uppfyllt í þeim greiningarskilmerki fyrir þunglyndi og geðrofseinkennum.

Hún hafði ítrekað leitað til lækna vegna líkamlegra einkenna og hræðslu við að hún glímdi við alvarlegan sjúkdóm og verið hrædd um líf sitt. Hún var nýlega skilin og undir miklu álagi. Hún var hrædd um framtíð barna sinna ef hún félli frá auk þess að hafa áhyggjur af framfærslu þeirra og húsnæðismálum. Í minnsta kosti mánuð fyrir árásina hafi hún hugsað um að drepa þá því það væri betra fyrir þá en að þurfa að þjást í þessum heimi án stuðnings móður.

Að mati geðlæknis var móðirin alls ekki ófær um að bera ábyrgð á og stjórna gjörðum sínum. En á verknaðarstundu hefði hún verið haldin alvarlegum geðsjúkdómi, þunglyndi og geðrofseinkennum sem hefði áhrif á hegðun hennar, dómgreind og ákvarðanatöku. Hún væri þó sakhæf og ekkert sem benti til þess að refsing gæti ekki borið árangur. Yfirmatsmenn komust að svipaðri niðurstöðu. Hún væri sakhæf og hefði haft innsæi í gjörðir sínar.

Hljómaði eðlilega í símanum

Fyrrverandi eiginmaður konunnar bar vitni í málinu. Sagði hann ekki hafa tekið eftir neinu óeðlilegu í fari hennar dagana fyrir atburðinn. Hún hafi hljómað mjög eðlilega í símtali þeirra daginn áður.

Hann sagði að hún hafi verið með lítið sjálfstraust, ætti erfitt með að kynnast fólki og yrði oft reið yfir smámunum. Sambandið hefði verið stormasamt en hann fengið nóg eftir að þau fluttu til Íslands og vildi skilnað.

Kannaðist hann aldrei við að hún hefði beitt drengina líkamlegu ofbeldi en hún hefði öskrað á þá. Var hann með mikil tengsl við drengina og dauði hins yngri var honum mikið áfall.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óánægjualda vegna nafnsins á Pablo Discobar – Jón Bjarni segir merkilegt að vera slaufað í Kólumbíu

Óánægjualda vegna nafnsins á Pablo Discobar – Jón Bjarni segir merkilegt að vera slaufað í Kólumbíu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður