fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Fréttir

Birtir dæmi úr kommentakerfinu og spyr hvað þurfi til að fólk fatti spillinguna

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 12. nóvember 2024 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, spyr hvað þurfi eiginlega til þess að fólk fatti spillinguna sem er alltaf í gangi hér á landi. Björn gerir mál Jóns Gunnarssonar, þingmanns og ráðgjafa Bjarna Benediktssonar í matvælaráðuneytinu, að umtalsefni á Facebook-síðu sinni.

Heimildin fjallaði í gær um leyniupptöku erlendrar tálbeitu sem kom sér í samband við son Jóns, Gunnar Bergmann Jónsson, en hann starfar sem fasteignasali í dag og er fyrrverandi formaður Félags hrefnuveiðimanna.

Sjá einnig: Jón sakar Heimildina um árás á fjölskyldu sína:Sonur hans leitar til lögmanns og hyggst leggja fram kæru

Þóttist vera efnaður fjárfestir

Hin erlenda tálbeita þóttist vera efnaður fjárfestir sem hefði áhuga á fasteignaverkefnum og átti þannig tvo fundi með Gunnari sem teknir voru upp að honum óafvitandi. Þar talar hann fjálglega um fyrirætlanir föður síns um að gefa út leyfi fyrir hvalveiðum, helst fyrir kosningar, og vinasamband hans við Kristján Loftsson, forstjóra Hvals hf.

Í áðurnefndri frétt lýsir sonur Jóns þeim fyrirætlunum föður síns að heimila hvalveiðar og segir að það verði hans síðasta verk í pólitík og „arfleið hans.“ Segir hann meðal annars að mikið hafi gengið á þegar Jón missti öruggt þingsæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í hendurnar á Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra.

Sjá einnig: Heimildin birtir fréttina sem byggist á leyniupptökunum:„Við getum aldrei talað um að hann sé að gera það fyrir vin sinn“

Jón hafi verið fokvondur en endað með því að sættast á 5. sæti framboðslistans en það hafi verið með skilyrðum. „Þú verður þá að gera eitthvað fyrir mig,“ segir sonur Jóns að faðir sinn hafi sagt.

Niðurstaðan hafi verið umrædd staða í matvælaráðuneytinu og markmið Jóns að koma hvalveiðum á koppinn að nýju sem „vinargreiða“, eins og segir í fréttinni.

Láta sér fátt um finnast

Björn Leví segir að sumir virðist láta sér fátt um finnast þegar verið er að fjalla um eitthvað sem myndast flokkast sem spilling.

„Ég heyri alltaf eitthvað svona þegar verið er að fjalla um eitthvað sem myndi flokkast sem spilling: „Æi, þetta voru bara 50 milljónir“. „Hvaða máli skipti það að skýrslurnar komu ekki út fyrir kosningar?“. „Þetta er bara áróður“.

Segir Björn að í þessu tilviki sé áhugavert að skoða hitt sjónarhornið.

„Hvað ef allt þetta sem kom fram var lygi? Því svona varnarviðbrögð skauta algerlega fram hjá því hvað það þýðir ef það sem er sagt á þessum upptökum er ósatt. Þá er sonur þingmanns, sem vinnur við að veita hvalveiðileyfi, að ljúga spillingu upp á föður sinn og forsætisráðherra að einhverjum risa fjárfesti út í heimi!”

Björn spyr hvora söguna fólk vill.

„Hvaða sannleika er verið að búa til? Sannleika þar sem sonur þingmanns er að reyna að spilla fyrir opinberum störfum föður síns eða sannleika þar sem greint er frá kaupum kaups til þess að redda leyfi fyrir hobbíveiðar fyrir einn ríkasta mann landsins?“

Björn Leví heldur áfram:

„Er ekki hvort tveggja mjög alvarlegt? Svo alvarlegt að það réttlæti birtingu til almennings? Ég meina, ef þetta væri bara einhver Gunnar út í bæ, ótengdur Jóni út í bæ – þá væri þetta slúður sem væri ekki hægt að birta nema með frekari staðfestingu. Þetta er ekki þannig. Augljóslega. Það er ástæða fyrir því að fjölskylda þingmanna og ráðherra er talin vera „politically exposed“ með tilliti til alls konar mála. Móðir mín getur ekki opnað bankareikning án þess að fara í gegnum rannsókn samkvæmt peningaþvættislögum. En einhverra hluta vegna getur faðir fjármálaráðherra keypt hlut í banka af syni sínum án þess að nokkrar viðvörunarbjöllur fari af stað,” segir Björn sem bætir við að núna sé útskýrt hvernig forsætisráðherra geri þingmanni greiða fyrir að þingmaðurinn yfirgefi ekki flokkinn.

„Og fólk brjálast yfir upptökunni en ekki greiðanum sem forsætisráðherra veitir?!? Hvað þarf til eiginlega til þess að fólk fatti spillinguna sem er í gangi hérna alltaf,“ spyr Björn Leví að lokum en með færslunni fylgir dæmi úr athugasemdakerfinu þar sem fólk amast út í Heimildina fyrir að fjalla um málið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt