Maður hefur verið ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa sunnudagskvöldið 19. mars 2023 beitt fangavörð á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík ofbeldi.
Í ákæru héraðssaksóknara í málinu segir að atvikið hafi átt sér stað er verið fara að færa manninn inn í fangaklefa. Hann hafi þá streist á móti með því að spyrna fæti í dyrakarm klefans og skalla höfði sínu í andlit fangavarðarins, með þeim afleiðingum að fangavörðurinn hlaut 1 sm skurð á vinstri augabrún og 1 sm skurð fyrir neðan vinstra auga.
Er þess krafist að hinn ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Fangavörðurinn gerir einkaréttarkröfu í málinu um skaða- og miskabætur upp á 600 þúsund krónur.
Málið verður þingfest við Héraðsdóm Reykjavíkur þann 18. nóvember næstkomandi.