Bréf sem nokkrir foreldrar, forráðamenn og aðstandendur við Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSu) skrifuðu til Kennarasambands Íslands og menntamálaráðuneytisins hefur valdið mikilli ólgu í hópnum. Einkum hjá kennurum sem eiga börn við skólann sem saka þá sem standa að bréfinu um að standa ekki með kennurum í baráttu sinni. Í bréfinu er lögmæti verkfallsaðgerðanna dregið í efa.
FSu er annar tveggja framhaldsskóla þar sem verkfallsaðgerðir eru boðaðar. Hinn er Menntaskólinn í Reykjavík, MR. Ólíkt MR er FSu með áfangakerfi og því stefna sumir nemendurna á að útskrifast um jólin. Það gæti raskast vegna verkfallsins.
Bréfið var skrifað í gær, 10. nóvember og er þar lýst þungum áhyggjum vegna verkfalls kennara við skólann og er skorað á samningsaðila að leysa stöðuna strax.
„Þar sem ekki hefur náðst niðurstaða við samningaborðið skorum við á Kennarasamband Íslands (KÍ) að láta nú þegar af ólögmætum verkfallsaðgerðum sínum við Fjölbrautaskóla Suðurlands,“ segir í bréfinu. Sagt er að framkvæmdin sé í beinni andstöðu við 1. málsgrein 18. greinar laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna (94/1986). En þar segir:
„Boðað verkfall tekur til allra starfsmanna í viðkomandi stéttarfélagi hjá þeim vinnuveitendum sem verkfall beinist gegn, annarra en þeirra sem óheimilt er að leggja niður störf samkvæmt lögum þessum.“
FSu teljist opinber framhaldsskóli sem starfi eftir lögum um framhaldsskóla (92/2008). Hann sé ríkisstofnun sem heyri undir ráðherra.
„Verkfallsaðgerðir framhaldsskólakennara á vegum KÍ ætti því með réttu að taka til allra framhaldsskólakennara innan KÍ sem starfa við alla opinbera framhaldsskóla á landinu í stað þess að beinast að Fjölbrautaskóla Suðurlands einum,“ segir í bréfinu. „Þá teljum við það orka tvímælis af hálfu framhaldsskólakennara innan KÍ að standa í verkfallsaðgerðum sem þessum á tímum þar sem þing hefur verið rofið ogð boðað hefur verið til kosninga til Alþingis.“ Það er að ólíklegt sé að kjarasamningar náist fyrr en að ný ríkisstjórn taki við.
Einnig segir í bréfinu að með þessum „ólögmætu verkfallsaðgerðum“ sem beinist að nemendum við FSu sé verið að mismuna þeim með grófum hætti. Það er að nemendur við skólann sitji ekki við sama borð og aðrir nemendur við framhaldsskóla, þegar kemur að útskrift um áramót. Hluti nemenda hafi í hyggju að fara erlendis í nám og að undirgangast samkeppnispróf um inntöku í ákveðnar leiðir í háskóla.
Að lokum er sagt að ef ráðherra láti ekki reyna á lögmæti verkfallsaðgerðanna þá áskilji nemendur og aðstandendur þeirra sér allan rétt til heimtu skaðabóta úr hendi íslenska ríkisins.
Í hópi foreldra og forráðamanna nemenda við FSu var bréfið kynnt sem og að þeim myndi gefast kostur til þess að skrifa undir það inn á síðunni island.is. Upphófust þá strax miklar deilur út af bréfinu, einkum vegna þess að fjölmargir kennarar í hópnum settu sig upp á móti því.
„Það er mjög sárt að lesa þetta bréf sem kennari. Það er vont að vera beggja megin við borðið, kennari og foreldri barna við skólann. Ég mun alls ekki skrifa undir stuðning við þetta bréf þar sem það er ekki verið að styðja neitt við baráttu kennara,“ segir ein kona snemma í umræðunni.
Taka margir kennarar undir þetta og segjast ekki ætla að skrifa undir bréfið.
„Þar sem ég er kennari við FSu og á nemanda á fyrsta ári finnst mér þetta sárt að lesa, ég bjóst við áskorun á ríkið að ganga til borðs og semja við okkur, ég bjóst við samstöðu. Ég get af augljósum ástæðum ekki skrifað undir þetta heldur,“ segir ein.
Einnig kennarar sem eru ósáttir við að þurfa að taka slaginn einir.
„Auðvitað vil ég að barnið mitt fái kennslu og að verkfallið leysist. Ég styð það að aðrir framhaldsskólar fari í verkfall og finnst mjög súrt að einn skóli sé látinn taka slaginn. En sem kennari þá get ég ekki skrifað undir bréf sem styður ekki kennara FSu í baráttu sinni,“ segir ein kona.
Sumir foreldrar eru ánægðir með bréfið og hyggjast skrifa undir það.
„Þetta er mjög vel gert og takk fyrir að upplýsa mig. Ég hef ekki mikið vit á þessu en þetta snertir barnið mitt og hennar feril sem hún er búin að setja sér og ef þetta er ólöglegt þá finnst mér þetta til háborinnar skammar og segi bara aumingja börnin hvers eiga þau að gjalda,“ segir ein kona.
„Svo lengi sem einhver getur ekki bent mér á þann lagabókstaf sem hrekkur það sem fram kemur í þessu bréfi þá mun ég skrifa undir þetta bréf. Ég styð kjarabaráttu kennara og get gert það á öðrum vettvangi en með undirritun þessa bréfs. En ef verkfallsaðgerðin er ólögleg eins og þetta bréf gefur til kynna þá get ég ekki stutt þá tilteknu aðgerð umfram rétt barns míns til skólagöngu,“ segir önnur.
Þá eru einnig sumir foreldrar sem skilja og styðja við baráttu kennara en telja þetta samt ekki réttu leiðina.
„Get vel ímyndað mér að það sé sérstaklega erfitt að sitja beggja megin borðs. Eftir á að hyggja er það eflaust rétt að þetta styðji ekki við baráttu kennara en ég held við verðum samt að horfast í augu við þá staðreynd að hér er ekki starfandi ríkisstjórn og afar ólíklegt að það náist fram neinir samningar fyrir áramót,“ segir ein kona.
Önnur segist styðja við kennara en lög séu lög.
„Ég les ekki úr þessu bréfi að ekki sé stuðningur við baráttu kennara. Ég styð kennara í baráttu sinni fyrir mannsæmandi launum. En ef þessar aðgerðir eru ólöglegar þá eru þær ólöglegar! Eigum við öll bara að brjóta lög til að fá okkar fram? Það meikar ekki sens. Og hvaða gagn gerir verkfall og samningaviðræður við engan? Engin ríkisstjórn, engir samningsaðilar, eða hvað?“ segir hún.