fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fréttir

Refa- og minkaveiðimenn krefja flokkana um svör – Hyggjast beita sér í kosningunum

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 10. nóvember 2024 12:30

Minkurinn getur valdið miklu tjóni. Mynd/Wikipedia

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Refa- og minkaveiðimenn eru ósáttir við sín kjör og orðræðu sumra um greinina. Vilja þeir vita hvert flokkarnir stefna fyrir alþingiskosningarnar svo þeir geti beitt sér sem einn maður í kosningunum fyrir betri kjörum.

„Sveitarfélög hafa mörg hver dregið úr kostnaði við veiðar, eða hætt þeim alveg,  það er verulega slæmt, sérstaklega þegar kemur að því að halda stofnstærð á mink í lágmarki. Við þessa gjörð eykst veiðiálag í nærliggjandi sveitarfélögum með auknum kostnaði fyrir þau,“ segir formaðurinn Garðar Páll Jónsson, formaður Bjarmalands, félags atvinnuveiðimanna í ref og mink.

„Það hlýtur að vera markmið okkar veiðimanna og ykkar, sem viljið fjölbreytt dýralíf, að losa náttúru Íslands við þá óværu sem minkur er. Minkur er ágeng tegund og að hafa hann í fuglalífi getur valdið stórum skaða sem verður seint eða aldrei bættur. Þá þurfum við bara að horfa til hvernig fór fyrir Keldusvíni. Ef horft er á lista yfir fuglategundir í hættu eru margar þar sem eru á matarborðum minks.“

Taxtar lítið breyst frá 2007

Garðar sendi fyrirspurn til allra flokka sem bjóða fram til alþingiskosninga í ár. Í bréfinu var bent á að þeir sem stundi þessar veiðar hafi unnið langt undir lágmarkskjörum um langt skeið. Vitaskuld sé við sveitarfélög að sakast en boltinn sé þó hjá ríkisvaldinu, taxtarnir sem unnið sé eftir hafi lítið breyst frá árinu 2007.

Í bréfinu var spurt hvort viðkomandi flokkur ætlaði að vinna að því að verðskrá Umhverfisstofnunar verði uppfærð samkvæmt verðlagi dagsins í dag, að stuðla að því að sveitarfélögin vinni samkvæmt sameiginlegri stefnu að halda ref og mink niðri, að stuðla að því að í landinu verði áfram virk veiðistjórn, að vinna að því að halda stofnstærð minks í lágmarki á öllu landinu og hvort ætlast sé til þess að atvinnuveiðimenn vinni undir lágmarkslaunum.

Lítið um svör hingað til

Staðið hefur á svörum frá flokkunum en Samfylkingin hefur svarað. Í þeirra svari segir:

„Samfylkingin hefur ekki ályktað sérstaklega um málefnið en hins vegar má lesa afstöðu flokksins til málsins í stefnu okkar um heilbrigðan vinnumarkað, náttúruvernd og lífríkið. Samfylkingin leggur áherslu á varðveislu og viðhald náttúrunnar (þ.m.t. fuglalífs) með skýrum lagaramma og eftirliti auk rannsóknar og vöktunar. Vernda þarf villt dýr þannig að líffræðilegum fjölbreytileika sé ekki ógnað en virk veiðistjórn á ref og mink spilar þar lykilhlutverk að okkar mati. Við svörum því spurningum ykkar öllum játandi, að frátalinni þeirri síðustu. Að sjálfsögðu ætlast Samfylkingin ekki til þess að atvinnuveiðimenn, frekar en annað fólk á vinnumarkaði vinni undir lágmarkslaunum . Samfylkingin beitir sér fyrir bættum kjörum, vinnuvernd og jafnrétti á vinnumarkaði, hluti af því er að berjast gegn undirboðum á vinnumarkaði, mismunun og misnotkun á vinnandi fólki.“

Meiru varið í gæludýr Úkraínumanna

Vonast Garðar til þess að fleiri flokkar svari til þess að að félagsmenn geti tekið afstöðu.

„Margir líta ofsjónum yfir þeirri upphæð sem veitt hefur verið í veiðar á ref  á síðasta  ári  og vilja meina að þeirri fjárhæð hefði betur verið varið annars staðar, ef við horfum á aðeins stærri mynd þá vitna ég hér í tvær greinar sem birtust á dögunum og meti nú hver fyrir sig hvort kemur getur út fyrir lífríkið hér á landi,“ segir Garðar.

Annars vegar vísar hann til þess að á vef Umhverfisstofnunar komi fram að stofnunin hafi gert samninga við sveitarfélög til þriggja ára um refaveiðar. 30 milljón króna sé veitt samkvæmt fjárlögum í endurgreiðslur til átta landsstórra en fámennra sveitarfélaga, allt frá 10 upp í 33 prósent. Að þremur árum liðnum sé áætlað að fyrir liggi betri upplýsingar um stofnstærð refsins um allt land og frekari upplýsingar um tjón.

Garðar Páll Jónsson formaður Bjarmalands

Hins vegar vísar hann til þess að á vef Matvælastofnunar komi fram að ráðstafanir til þess að úkraínskir flóttamenn gætu tekið gæludýr sín með sér til Íslands hafi kostað hátt í 59 milljónir króna, það er kostnaður upp á um 3 milljónir á hvert gæludýr þar sem koma þurfti á fót sérstakri einangrunarstöð fyrir dýrin átján, tólf hunda og sex ketti.

„Við megum ekki láta tilfinningasemi og rökleysu stjórna gerðum okkar og hugsunum í þessum málum. Að mínu mati eru veiðimenn einhverjir mestu unnendur náttúrunnar sem hægt er að finna og vilji þeirra er sá að svona  verði náttúran og lífríkið  áfram,“ segir Garðar og bendir á að allir veiðimenn á landinu séu með kosningarétt. „Munið að setja ykkar atkvæði við þann flokk sem hefur stutt okkar vinnu og er tilbúinn að gera það áfram.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Segja að herforingjar neiti að framfylgja fyrirmælum Pútíns

Segja að herforingjar neiti að framfylgja fyrirmælum Pútíns
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þetta eru fjórir ráðherrar Viðreisnar

Þetta eru fjórir ráðherrar Viðreisnar