Gæsluvarðhald yfir karlmanni sem er grunaður um að hafa banað móður sinni í Breiðholti þann 23. október síðastliðinn hefur verið framlengt til 28. nóvember á grundvelli almannahagsmuna.
Um er að ræða 39 ára gamlan karlmann sem hafði nýlokið afplánun og hafði Reykjavíkurborg verið vöruð við því að hann þyrfti sértækan stuðning þar sem hann væri enn hættulegur. Hann glímir við bæði þroskaskerðingu og fíknivanda og hefur áður gerst sekur um ofbeldi gegn foreldrum sínum. Maðurinn átti að fá öruggt húsnæði eftir afplánun en var þess í stað boðið að dveljast á gistiheimili, sem hann afþakkaði og flutti heldur inn til móður sinnar.
Árið 2006 var hann ákærður fyrir tilraun til manndráps eftir að hann stakk föður sinn með hnífi í bakið. Móðir hans hafi eins orðið fyrir ítrekuðu ofbeldi sem stóð yfir árum saman og var hann árið 2022 dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að hafa ráðist á móður sína með ofbeldi, höggum og spörkum í líkama, andlit og höfuð og fyrir að taka hana hálstaki. Tilefni árásarinnar var ósætti um hvernig ætti að standa að útför föður mannsins sem þá var nýlátinn.