„Það er greinilega ekki sama hver grípur til nauðvarnar í íslensku dómskerfi. Hvort þú ert karlmaður sem þarft að verjast árás frá öðrum karlmanni eða hvort þú ert kona sem þarft að verjast árás frá stærri og sterkari karlmanni, sem verður reiður vegna þess að þú vilt ekki stunda kynlíf með honum sem þar að auki hefur meitt þig áður,“
segir Brynhildur Björnsdóttir, sem skipar þriðja sæti á lista VG í Reykjavík norður og situr í stjórn Hagsmunasamtaka brotaþola, í grein sinni á Vísi.
Þar ber Brynhildur saman tvo dóma sem fjölmiðlar greindu frá í vikunni og dæmt var í með níu daga millibili, „tveimur harmsögum úr íslenskum samtíma, atvikum sem urðu að ákærumálum sem rötuðu fyrir dómsstóla. Í öðru þeirra var maður stunginn tvisvar með hnífi með þeim afleiðingum að hann lést. Í hinu málinu var maður stunginn tvisvar með hnífi og lifði af. Í báðum málunum var dæmt.“
Í gær, fimmtudaginn 31. október, sneri Landsréttur við dómi yfir Steinþóri Einarssyni sem Héraðsdómur Norðurlands eystra hafði sakfellt fyrir að hafa orðið Tómasi Waagfjörð að bana í Ólafsfirði í byrjun október árið 2022.
Sjá einnig: Ólafsfjarðarmálið: Verjandi Steinþórs ánægður með sýknudóminn – „Réttlætið sigraði“
„Maðurinn sem stakk manninn sem lést var sýknaður vegna þess að um nauðvörn var að ræða. Eins og segir í frétt um málið: „Verður ekki önnur ályktum dregin af gögnum málsins en að um ofsafengna og lífshættulega árás hafi verið að ræða og að hending ein hafi ráðið að ákærði hlaut ekki lífshættulega áverka af,“ segir Brynhildur í grein sinni.
Á þriðjudag greindi DV frá dómi sem féll í Héraðsdómi Reykjaness föstudaginn 22. október síðastliðinn, þar var kona dæmd í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að stinga kærasta sinn með hnífi og einnig til að greiða manninum hálfa milljón í miskabætur auk vaxta og dráttarvaxta og allan málskostnað. Ætla má að konan hafi hlotið lægri dóm „í ljósi þess dráttar sem varð á málinu og að um var að ræða fyrsta brot,“ eins og segir í niðurstöðu héraðsdómara.
Konan bar við neyðarvörn og sagðist hafa neyðst til að beita hnífnum til að bjarga lífi sínu eftir að maðurinn hafi ráðist á hana.
Sjá einnig: Kona sem stakk kærasta sinn bar við neyðarvörn en var sakfelld – Hlaut áverka víða um líkamann eftir manninn
„Konan sem stakk manninn sem lifði af var dæmd til skilorðsbundinnar fangelsisvistar og hárra sektar- og bótagreiðslna. Hún stakk líka í nauðvörn, mann sem áður hafði beitt hana hrottalegu ofbeldi. Hún óttaðist líka um líf sitt. Maðurinn með áverkana hringdi sjálfur í lögregluna eftir að hafa „skorið samfesting utan af ákærðu,rifið í hárið á henni, hent henni í gólfið og sparkað í hana. Hún hafi verið virkilega hrædd og talið lífi sínu ógnað“ eins og segir í dómnum. Áverkaskoðun staðfestir framburð konunnar, hún var öll blá og marin eftir barsmíðar mannsins,“ segir Brynhildur í grein sinni.
Í öðrum kafla almennra hegningarlaga um almenn refsiskilyrði er fjallað um neyðarvörn í 12. grein. Þar segir:
Það verk er refsilaust, sem menn vinna af neyðarvörn, að því leyti sem það hefur verið nauðsynlegt til þess að verjast eða afstýra ólögmætri árás, sem byrjuð er eða vofir yfir, enda hafi ekki verið beitt vörnum, sem séu augsýnilega hættulegri en árásin og tjón það, sem af henni mátti vænta, gaf ástæðu til.
Hafi maður farið út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar, og ástæðan til þess er sú, að hann hefur orðið svo skelfdur eða forviða, að hann gat ekki fullkomlega gætt sín, skal honum ekki refsað.
Brynhildur bendir á þá staðreynd að konur eru á heimsvísu fimm sinnum líklegri til að vera myrtar af maka en karlar. „Við vitum að mörg tilfelli heimilisofbeldis eru tilkynnt til lögreglu á degi hverjum og þar eru karlar gerendur í yfirgnæfandi meirihluta tilfella. Við vitum að 42% kvenna hér á landi hafa orðið fyrir kynbundnu ofbeldi. Við vitum að fjölda kvenna er hótað ofbeldi og lífláti daglega.
Nauðvörn er að óttast um líf sitt og verjast í samræmi við það. Í sumum tilfellum veldur það dauða, öðrum ekki. Ef aflsmunir, ítrekuð saga um ofbeldi og lítið barn sem sefur í sömu íbúð eru ekki talin nægileg ástæða til að grípa til nauðvarnar þá er skekkjan alvarleg. Við sem samfélag verðum að fara að gera upp við okkur hvort við viljum í rauninni hafa það þannig að líf kvenna sé svona miklu minna virði en líf karlmanna.“
Lesa má greinina í heild sinni hér.