fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Lögreglan mátti áframsenda áverkamyndir af Guðnýju – „Þarna var enn og aftur brotið á mér“

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 8. nóvember 2024 20:30

Guðný S. Bjarnadóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að það hafi samræmst persónuverndarlögum að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu skyldi áframsenda áverkamyndir af þolanda í ofbeldismáli til verjanda hins meinta geranda. Þolandinn kvartaði yfir þessu verklagi lögreglunnar til Persónuverndar og stígur fram undir nafni í viðtali við Heimildina sem birt var fyrr í dag. Um er að ræða Guðnýju S. Bjarnadóttur, sem varð fyrir kynferðisofbeldi, en hún er ekki sátt við niðurstöðuna og segir að með því að myndirnar hafi verið áframsendar með þessum hætti hafi verið brotið á henni í annað sinn. Hún segir það ótækt að gerendur í kynferðisbrotamálum geti nálgast viðkvæmar myndir af þolendum sínum.

Myndirnar voru teknar af áverkum sem voru á líkama Guðnýjar þegar hún leitaði til neyðarmótttöku Landspítalans fyrir þolendur kynferðisofbeldis, í október 2021. Í kjölfarið lagði hún fram kæru á hendur manni fyrir nauðgun. Í viðtalinu við Heimildina segir Guðný að hún hafi talið að myndirnar færu til tæknideildar lögreglunnar og ekkert lengra en það. Á síðasta ári var málið fellt niður og þá fyrst komst Guðný að því að myndirnar hefðu verið sendar til verjanda mannsins sem hún kærði. Guðný lagði fram kvörtun til Persónuverndar í kjölfarið.

Úrskurður Persónuverndar um kvörtun Guðnýjar var birtur fyrr í dag á heimasíðu stofnunarinnar en farin var sú leið að birta ekki úrskurðinn í heild sinni heldur aðeins útdrátt þar sem í úrskurðinum væri að finna mjög viðkvæmar persónuupplýsingar.

Nýta sér lögin

Í útdrættinum kemur fram að kvartandinn ( Guðný, innsk. DV) hafi talið að Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefði verið óheimilt að umbreyta hinum rafrænu áverkaljósmyndum í skjalleg gögn og miðla þeim til réttargæslumanns hennar sjálfrar, verjanda sakbornings og sakborningsins sjálfs. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafi borið að nýta sér heimild laga um meðferð sakamála um að  lögreglan geti synjað verjanda um aðgang að einstökum skjölum og öðrum gögnum meðan á rannsókn máls stendur ef brýnir einkahagsmunir annarra en skjólstæðings hans standa í vegi fyrir því. Taldi Guðný einnig að lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefði borið að afmá persónugreinanlegar upplýsingar af áverkaljósmyndunum.

Jafnræði

Í andsvörum sínum vísaði lögreglan til þess að nauðsynlegt hefði verið að setja áverkaljósmyndirnar í rannsóknarskýrslu sem gerð var vegna málsins svo hægt væri að leggja skýrsluna fyrir ákæruvald og síðar dómstól en vinnsla sönnunargagna hjá lögreglu verði að bera með sér að hægt sé að sannreyna ákveðna þætti eins og að á myndum séu þeir einstaklingar sem séu aðilar máls. Því samrýmist ekki alltaf meðferð sönnunargagna í sakamáli að persónueinkenni séu afmáð að öllu leyti.

Þegar kom að aðgangi sakborningsins að myndunum vísaði lögreglan til jafnræðis málsaðila og réttinda sakborninga til að hljóta réttláta málsmeðferð fyrir dómi. Réttur sakbornings til aðgangs að gögnum máls hafi verið talinn þýðingarmikill þáttur í því að hljóta réttláta málsmeðferð fyrir dómi og litið svo á að réttur sakbornings þar að lútandi sé til jafns við ákæruvaldið. Lög um meðferð sakamála kveði á um að verjanda sé heimilt að fá afrit af öllum skjölum máls er varða skjólstæðing hans. Undanþáguna frá þessu ákvæði sem Guðný vísaði til sagði löreglan að ætti að túlka þröngt.

Lögreglan sagðist meðvituð um að gögn í málum af þessu tagi geti verið persónugreinanleg og viðkvæm en ekki hafi verið talið rétt að synja verjanda sakbornings um aðgang að einstökum skjölum og gögnum umrætt sinn.

Nægilegt

Það er niðurstaða Persónuverndar að þessi skýring lögreglunnar sýni fram á að sú vinnsla persónuupplýsinga sem fólst í að áframsenda áverkamyndirnar til verjanda hins meinta geranda hafi verið nauðsynleg og því samræmst ákvæðum persónuverndarlaga.

Persónuvernd segir enn fremur að þar sem nauðsynlegt hafi verið samkvæmt lögum um meðferð sakamála að senda myndirnar til verjandans hafi sú aðgerð samræmst persónuverndarlögum og það sama gildi um áframsendingu myndanna til réttargæslumanns Guðnýjar.

Vísar Persónuvernd einnig til þess að verjandi og réttargæslumaður hafi verið bundnir þagnarskyldu en bætir hins vegar við:

„Samkvæmt svörum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu afhenti embættið sakborningi ekki umrædd gögn en verjanda er þó heimilt að láta skjólstæðingi sínum í té eintak af málsgögnum eða kynna þau honum með öðrum hætti.“

Annað brot

Persónuvernd telur ósannað að lögreglan hafi afhent manninum sem Guðný kærði fyrir nauðgun áverkamyndirnar af henni.

Guðný lýsir því í viðtalinu við Heimildina hvernig henni leið þegar hún komst að því að áverkamyndirnar af henni hefðu verið sendar til verjanda mannsins:

„Þarna var enn og aftur brotið á mér.“

Hún segir einnig að það sé ótækt að gerend­ur í kyn­ferð­isaf­brota­mál­um geti með þess­um hætti feng­ið að­gang að við­kvæm­um mynd­um af þo­lend­um og er afar harðorð í garð lögreglunnar:

„Þetta er bara sta­f­rænt kyn­ferð­isof­beldi af hendi lög­regl­unn­ar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti
Fréttir
Í gær

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum
Fréttir
Í gær

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello
Fréttir
Í gær

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“
Fréttir
Í gær

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“