Maður hefur verið ákærður fyrir tvö brot gegn valdstjórninni, annars vegar að hafa þann 20. október 2023 ítrekað hótað konu, sem starfar sem læknir á Heilsugæslunni Miðbæ, Vesturgötu 7, lífláti. Hótanirnar viðhafði hinn ákærði beint við konuna á staðnum og einnig í gegnum síma, en þá endurtók hann fyrri hótanir sínar í gegnum afgreiðslu heilsugæslunnar.
Maðurinn er hins vegar ákærður fyrir að hafa í nokkur skipti hótað tveimur lögreglumönnum lífláti og líkamsmeiðingum, þann 18. febrúar 2023, fyrst á stigagangi húss í Reykjavík, og í framhaldinu í lögreglubíl þegar honum var ekið að lögreglustöðinni á Hverfisgötu. Hann hótaði þeim síðan aftur á fangamóttöku þegar á lögreglustöðina var komið en í lögreglubílnum hótaði ákærði jafnframt að hrækja á lögreglumann.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Læknirinn sem varð fyrir hótunum mannsins krefst þriggja milljóna króna í miskabætur.
Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 18. nóvember næstkomandi.