Maður krafði sveitarfélagið Skeiða- og Gnúpverjahrepp og VÍS um skaðabætur vegna slyss sem hann varð fyrir í sundlaug árið 2013. Hann var þá barn og féll niður um glugga sem brotnaði.
Hreppurinn og tryggingafélagið voru sýknuð af kröfum mannsins í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 31. október.
Maðurinn var aðeins 11 ára gamall þegar slysið varð, þann 30. nóvember árið 2013, þegar hann féll í gegnum þakglugga Skeiðalaugar í Brautarholti á Skeiðum. Þennan dag var hann í heimsókn hjá vinafólki að Brautarholti.
Fór hann að leika með öðrum dreng, 10 ára gömlum, og klifruðu þeir upp á þak sundlaugarinnar sem var lokuð þennan dag. Sundlaugin, sem byggð var árið 1975, er almenningssundlaug og skólasundlaug fyrir Brautarholtsskóla.
Klifruðu piltarnir hægra megin upp á skyggni fyrir ofan inngang hússins og svo upp á þakið þar sem voru þakgluggar, eða kúplar, úr plasti. Gengu þeir um þakið en þegar bifreið var skyndilega ekið fram hjá sundlauginni féll sá eldri í gegnum gluggann og fjóra metra niður á flísalagt steypugólf sundlaugarinnar.
Lögregla var kölluð til og ræddi við piltinn sem féll. Var hann hins vegar vankaður og gat ekki sagt skýrt frá því sem hafði átt sér stað. Í lögregluskýrslu segir að við skoðun á vettvangi hafi mátt sjá að kúptur þakgluggi úr plexígleri hefði verið brotinn fyrir ofan þann stað sem pilturinn lá á. Athygli vakti að glugginn hefði brotnað til hliðar. Sagði í skýrslunni að leiða hefði mátt að því líkur að pilturinn hefði stokkið á gluggann með áðurnefndum afleiðingum.
Í dóminum er sagt að óumdeilt sé að hann hafi hlotið líkamstjón í slysinu. Meðal annars hefur hann glímt við verulega taugaverki eftir slysið. Í sjúkraskrá komi fram að hann hafi verið hraustur fyrir slysið. Læknisfræðileg gögn eru hins vegar ekki rakin ítarlega í dóminum.
Tjónið var tilkynnt vorið 2020 til VÍS þar sem eigandi laugarinnar, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, var með ábyrgðartryggingu. Hafnaði tryggingafélagið hins vegar bótaábyrgð á þeim grundvelli að hreppurinn hefði ekki sýnt af sér neina saknæma háttsemi.
Taldi maðurinn, sem var þá orðinn fullorðinn, að ástand gluggans hefði ekki verið nógu gott og aðgengi fyrir börn auðvelt upp á húsið. Afar freistandi sé fyrir börn að klifra upp á húsið og þau geri það reglulega. Sagðist hann ekki hafa munað eftir að hafa hoppað á glugganum.
Fór hann því með málið fyrir Úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum. Haustið 2021 hafnaði nefndin kröfum hans. Að lokum endaði málið á borði héraðsdóms.
Á meðal þeirra gagna sem maðurinn lagði fram í málinu voru fundargerðir hreppsins, allt frá árinu 2006 þar sem talað var um viðhald í Skeiðalaug. Einnig ástandsskýrsla Verkís frá árinu 2019, þar sem ekki var þó fjallað um þak hússins eða gluggana þar.
Dómkvaddur matsmaður sagði að skipt hefði verið um gluggakúplana árið 2015 og ekki hægt að segja með vissu til um ástand þeirra á slysadeginum en líkur á að þeir hafi að minnsta kosti verið nothæfir.
Sagði hann líklegt að gluggarnir hefðu átt að þola að 40 kílóa einstaklingur stæði ofan á glugganum. En ólíklegt sé að hann hafi þolað ef 40 kílóa einstaklingur hoppaði á honum. Við það margfaldist álagið. Við það bætist að nærri 40 ára plast hafi verið orðið veðrað og stökkt.
Fyrir dóminn gat hvorki maðurinn, né sá sem var með honum á þakinu, vitnað nákvæmlega til um atburðarásina. Enda langt um liðið og þeir báðir mjög ungir á þeim tíma. Höfnuðu þeir því þó að hafa hoppað á kúplunum.
Eins og áður segir var hreppurinn og VÍS sýknað. Í dómnum segir að sönnunarbyrðin liggi á stefnanda að sanna að hreppurinn hafi vanrækt skyldur sínar. Þessi vanræksla, svo sem vanræksla á viðhaldi hafi verið ósönnuð. Ekki hafi heldur verið til staðar augljós hætta fyrir börn að klifra upp á húsið. Tryggingafélaginu hafi ekki verið skylda að greiða skaðabótaábyrgð nema saknæm háttsemi hreppsins hefði verið sönnuð.
Rétt þótti þó að láta málskostnað falla niður. Maðurinn hafði fengið gjafsóknarleyfi í málinu.