fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fréttir

Ferðamaður kom að gistiheimilinu tómu og fylltist kvíða – Skýringin er það íslenskasta sem þú hefur heyrt í dag

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 7. nóvember 2024 14:30

Mynd: Eyþór Árnason. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur kveðið upp úrskurð í máli bandarísks ferðamanns sem fór fram á endurgreiðslu frá ónefndum ferðaþjónustuaðila. Var ástæða þess að þegar ferðamaðurinn, sem er kona, kom á gistiheimili á landsbyggðinni, þar sem hún átti bókaða gistingu, reyndist enginn vera á staðnum auk þess sem að hennar beið lykill að öðru herbergi en því sem hún taldi sig hafa bókað. Ferðamaðurinn segist hafa fyllst kvíða og óöryggi vegna aðstæðnanna. Hún yfirgaf gistiheimilið, bókaði gistingu annars staðar og krafðist endurgreiðslu fyrir þennan aukalega kostnað. Skýringin á því af hverju enginn var til staðar á gistiheimilinu þegar ferðamaðurinn kom reyndist hins vegar afar dæmigerð fyrir Ísland. Eigandinn hafði skroppið í sauðburð.

Nefndin felldi úrskurð sinn í málinu í gær. Konan fór fram á endurgreiðsluna frá aðila sem hún hafði keypt hringferð um Ísland af en sá aðili kaus að taka ekki til varna fyrir nefndinni. Ferðin átti að standa frá 13. -18. maí á þessu ári. Við bókun greiddi konan 847 Bandaríkjadali (um 117.400 íslenskar krónur). Innifalið í því var gisting í fimm nætur og afnot af bílaleigubíl. Konan bókaði sjálf gististaði fyrir hvern dag í gegnum vefsíðu hins ónefnda aðila.

Fljótlega kom í ljós að gististaðirnir sem konan hafði bókað hentuðu illa ferðatilhögun hennar. Óskaði hún eftir breytingum á öllum bókununum en ágreiningurinn í málinu sneri þó bara að einum gististað.

Herbergi 12

Konan óskaði eftir því að á fjórða degi ferðarinnar yrði hún bókuð á tiltekið gistiheimili á landsbyggðinni, annað en það gistiheimili sem hún hafði áður verið bókuð á þennan tiltekna dag. Vildi hún þó eingöngu að þessi breyting yrði gerð ef hún gæti gist á herbergi númer 12 á fyrrnefnda gistiheimilinu. Við þetta gerði aðilinn sem hún keypti ferðina af engar athugasemdir.

Í kærunni lýsir konan atburðarásinni þegar hún kom á gistiheimilið síðdegis þann 16. maí 2024 þannig að enginn starfsmaður hafi verið í móttöku þess og gistiheimilið virst mannlaust. Hafi miði með nafni hennar og lykill að herbergi númer 10 beðið hennar á borði móttökunnar. Konan sagði í kæru sinni að þar sem hún hafi verið ein á ferðalagi hafi þessar aðstæður valdið henni miklum kvíða. Konan sagði herbergi númer 10 hafa litið út eins og geymsla og vísaði til framlagðra ljósmynda sinna af því.

Virkaði ekki

Konan sagði að hvorki hafi verið hægt að finna neinar almennar upplýsingar um tímasetningar morgun- og kvöldverðar á staðnum né tíma útritunar. Sagðist konan hafa fundið einhver símanúmer í móttökunni en hún hafi ekki getað hringt í þau þar sem farsími hennar virkaði ekki á Íslandi. Hafi hún þá brugðið á það ráð að keyra til staðar, sem ekki er nefndur í úrskurðinum, til að borða kvöldmat. Hafi hún í kjölfarið ákveðið að bóka aðra gistingu þar sem hún hafi ekki talið sig örugga á hinu bókaða gistiheimili. Fyrir nýju gistinguna hafi hún greitt 200 Bandaríkjadali (um 27.700 íslenskar krónur).

Konan fór fram á að aðilinn sem seldi henni ferðina myndi endurgreiða henni þessa upphæð og vísaði einnig til þess að hann hefði ekki staðið við samning þeirra með því að sjá ekki til þess að hún yrði bókuð í herbergi númer 12 eins og hún óskaði eftir. Því hafnaði hann og leitaði hún í kjölfarið til Kærunefndar vöru – og þjónustukaupa.

Sauðburður

Í niðurstöðu nefndarinnar segir að af samskiptum hins ónefnda aðila, sem konan keypti ferðina af, og eiganda gistiheimilisins, sem konan yfirgaf vegna óöryggis og ótta, megi ráða að síðdegis daginn sem konan kom á gistiheimilið hafi eigandinn brugðið sér frá vegna sauðburðar. Sagðist eigandinn hafa skilið eftir miða til konunnar með símanúmeri sínu ef svo færi að hún þyrfti að ná í hann. Hann hafi síðan komið til baka stuttu síðar og beðið eftir konunni til miðnættis en þá ekki vitað það að hún hefði komið og farið á meðan hann var í sauðburðinum.

Þegar kom að þeim hluta málsins er sneri að því að konan var bókuð í herbergi 10 en ekki 12 eins og hún vildi tók nefndin undir með henni að það hefði falið í sér vanefnd af hálfu aðilans sem hún keypti ferðina af. Myndir sem hún hefði lagt fram sýndu fram á að herbergi 10 væri ekki eins vel búið og herbergi 12. Fyrrnefnda herbergið væri minna og ekki með tvíbreiðu rúmi og sérbaðherbergi eins og það síðarnefnda.

Það er hins vegar niðurstaða nefndarinnar að konan eigi ekki rétt á skaðabótum þar sem ákvæði laga kveði á um að það verði að vera fullreynt hvort ráða megi bót á vanefndum áður en til greiðslu skaðabóta kemur. Þar sem konan hafi yfirgefið gistiheimilið strax og ekki látið eigandann og aðilann sem hún keypti ferðina af vita af því fyrr en daginn eftir hafi það ekki verið fullreynt hvort bæta mætti úr vanefndunum.

Kröfu konunnar um endurgreiðslu vegna kostnaðar við að bóka nýju gistinguna var því hafnað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Eiginkona Assads sögð ætla að sækja um skilnað

Eiginkona Assads sögð ætla að sækja um skilnað
Fréttir
Í gær

Siggi lýsir fyrstu jólunum án sonarins sem lést á árinu – „Maður er foreldri áfram. Maður verður að sýna andlitið“

Siggi lýsir fyrstu jólunum án sonarins sem lést á árinu – „Maður er foreldri áfram. Maður verður að sýna andlitið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir