Héraðssaksóknari hefur ákært Irving Alexander Guridy Peralta fyrir stórfellda líkamsárás á skemmtistaðnum LÚX við Austurstræti, laugardaginn 24. júní árið 2023.
Brotaþolinn, 25 ára gamall litáeskur karlmaður að nafni Karolis Zelenkauskas, lést af áverkum sínum. Í ákæru er Irving Alexander, sem er fæddur árið 1995, sagður hafa slegið brotaþolann eitt högg efst á vinstri hluta hálsins, aftan við vinstra eyrað, þannig að hann fékk slink á höfuðið, „en afleiðingarnar voru þær að hann lést af völdum altæks heiladreps vegna innanskúmsblæðingar af völdum rofs á vinstri aftari neðri hnykilsslagæðinni,“ eins og segir í ákæru.
Héraðssaksókari krefst þess að Irving Alexander verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu aðstandanda hins látna er gerð krafa um miskabætur upp á þrjár milljónir króna og skaðabætur upp á tæplega 900 þúsund krónur.
Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudaginn.