Þetta segir Ole Anton Bieltvedt, samfélagsrýnir og dýraverndarsinni, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Þar gerir hann íslensku krónuna að umtalsefni og þá erfiðu stöðu sem margir eru í vegna verðtryggingar og hárra vaxta.
Gefum Ole orðið:
„Þorsteinn nokkur Daníelsson, góður maður og gegn, veitti mér nýlega upplýsingar um hvernig krónan og krónuhagkerfið hefur farið með hann og hans fjölskyldu, hvernig hún hefur grafið undan og spillt fjárhagslegri afkomu hans, peningalegri velferð, nú í 20 ár. Ekki nóg með það, heldur ætti hann sennilega eftir að líða undan krónunni og þeirri áþján sem hún veldur mörgum skuldurum ævilangt.“
Hann segir að Þorsteinn hafi leyft honum að fjalla opinberlega um málið enda viti hann sem er að margir hér á landi eru í sömu stöðu.
„Haustið 2004 tók Þorsteinn húsnæðislán að fjárhæð 35 milljónir króna. Skyldi hann greiða lánið mánaðarlega á 40 árum með 4,2% vöxtum. Þetta þýddi mánaðarlega afborgun upp á 59.353 og vexti upp á 84.812. Mánaðarleg heildarafborgun 144.165.“
Ole segir að lánið hafi verið vísitölubundið sem sé sérsakt krónu- og krónuhagkerfisfyrirbrigði. „Ég hef víða farið og mörgu kynnst en ekki vístölubindingu lána, sem þýðir auðvitað að maður veit raunverulega ekki hvað maður skuldar eða hversu mikið maður þarf að borga,“ segir hann og bætir við að það að taka vísitölubundið krónulán sé nánast eins og skrifa undir tékka sem bankinn útfyllir svo og krefur með ófyrirséðu álagi mánaðarlega.
„Nú eru liðin 20 ár af lánstíma og á núvirði er Þorsteinn búinn að greiða 91 milljón króna inn á lánið, en lánið bara hækkar og hækkar; í síðasta mánuði stóð krafan í 64.178.325 krónum; tvöfaldri upphaflegri fjárhæð,“ segir hann og heldur áfram:
„Þrátt fyrir að í reynd sé búið að borga sem nemur þrefaldri lánsfjárhæð stendur skuldin nú í tvöfaldri lánsfjárhæð. Og darraðardansinn heldur áfram. Þó að Þorsteinn borgi nú 383.280 kr. á mánuði af eftirstöðvum lánsins í stað 144.165 kr. af fullu láninu í byrjun er ekki annað að sjá en krafa bankans hækki bara og hækki. Nú í ágúst var mánaðarleg „afborgun verðbóta“ 98.230 kr. og „verðbætur v/vaxta“ 140.365 kr.“
Ole er þeirrar skoðunar að evran sé alvörugjaldmiðill sem menn geti treyst á. Þar séu engar „geðveikissveiflur“ í gangi og með henni standi menn á traustum grunni, viti hvað þeir skulda, hversu mikið þeir þurfa að greiða hverju sinni og þá um leið hvað þeir eiga.
„Þar eru engir óútfylltir tékkar í gangi sem bankarnir bara útfylla sjálfir með ófyrirséðu álagi og innheimta svo.“
Ole bætir svo við að lokum að hann hafi fengið þýskan banka til að reikna út fyrir hann hvernig mál hefðu þróast og hvar Þorsteinn væri ef hann hefði tekið sams konar lán, með sömu kjörum, á sama tíma, í evrum.
„Í nóvember 2004 var krónan sterk gagnvart evru, gengið var um 87 kr. í evru. 35 milljónir króna voru því um 400 þúsund evrur. Hefði slíkt lán verið tekið með 4,2% vöxtum hefði afborgun á mánuði síðustu 20 árin allan tímann verið 1.722 evrur. Miðað við upphaflegt gengi, 87 krónur í evru, hefði þessi mánaðarlega afborgun verið 149.000. Ef meðaltalsgengi er reiknað fyrir þessi 20 ár þá væri það 119 krónur í evru. Mánaðarleg greiðsla hefði þá verið 205.000. Miðað við fullt núverandi gengi, 150 kr. í evru, væri mánaðarleg afborgun nú 258.000. Eftirstöðvar skuldar væru 279.000 evrur, eða á núverandi gengi 42 milljónir.“
Ole dregur þetta síðan saman og bendir á að Þorsteinn greiði 383.280 krónur á mánuði í krónuhagkerfinu en í evruhagkerfinu væri fjárhæðin 258.000. „Þorsteinn skuldar enn 64 milljónir í krónuhagkerfinu og skuldin fer hækkandi þó að af sé greitt. Í evruhagkerfi myndi hann skulda 42 milljónir og skuldin færi lækkandi.“
Ole segir að það besta fyrir Þorstein væri þó sennilega að hann vissi hvar hann stæði og nákvæmlega hvað hann þyrfti að greiða mánaðarlega, auk fullvissu um það að skuldin gengi með hverri greiðslu örugglega niður.
„Grunnhyggnir krónutalsmenn segja þá: já, en húsið hefur hækkað að sama skapi og greiðslur og skuldin. En þetta er auðvitað hjóm eitt, bábilja, því húsið hefur ekkert meira raunverðgildi fyrir Þorstein, þrátt fyrir hærra söluverð, því fyrir þetta hærra söluverð fæst ekkert meira, allt annað hefur hækkað að sama skapi. Þessar uppblásnu margföldu verðbætur og auknu greiðslukröfur eru því í reynd stórfelldir aukavextir, okurvextir sem Þorsteinn hefur verið neyddur til að borga bankanum, fjármagnseigendum, og hann fær í reynd ekkert fyrir. Krónuhagkerfið í hnotskurn.“