fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fréttir

Töluvert annar hljómur í Sigurði Inga um útlendingamál á nokkrum dögum

Ritstjórn DV
Mánudaginn 4. nóvember 2024 16:30

Sigurður Ingi Jóhannsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins og fjármála- og innviðaráðherra, um útlendingamál, í umræðum leiðtoga stjórnmálaflokkanna á RÚV síðastliðinn föstudag, hefur vakið mikla athygli. Hefur þessi ræða verið kölluð eldræða. Sigurður Ingi talaði fyrir mannúð í útlendingamálum og sagði málaflokkinn ekki vera stórt vandamál á Íslandi. Í viðtali við hlaðvarpið Ein pæling sem birt var síðastliðinn þriðjudag voru áherslur Sigurðar Inga í þessum málaflokki nokkuð aðrar. Vísaði hann meðal annars til árangurs ríkisstjórnarinnar við að ná kostnaði við málefni hælisleitenda niður, við að herða löggjöf um útlendinga og nauðsyn þess á að færa hana nær Norðurlöndunum. Hann lagði einnig í þættinum áherslu á að það væri risavaxið verkefni að koma fólki af erlendum uppruna betur inn í íslenskt samfélag.

Þegar Þórarinn Hjartarson, stjórnandi Einnar pælingar, vék talinu að útlendingamálum vísaði hann til ólíkrar sýnar á þennan málaflokk á milli mýkri stefnu Pírata og Vinstri grænna annars vegar og harðari stefnu Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins hins vegar og spurði Sigurð Inga í hvora áttina Framsóknarflokkurinn vildi halla sér í útlendingamálum, frekar til þeirra fyrrnefndu eða fremur til þeirra síðarnefndu. Sigurður Ingi sagði Framsóknarflokkinn ekki vilja stilla sér upp á neinum ás þegar kæmi að útlendingamálum heldur aðeins horfa á verkefnið sem slíkt.

Flókið risaverkefni

„Verkefnið er flókið. Við erum annars vegar algjörlega búin að byggja upp íslenskt samfélag með innflutningi á fólki, 70-75 þúsund manns búa hér meðal okkar. Stór hluti þess er búinn að taka ákvörðun um að búa á Íslandi, orðnir Íslendingar jafnvel ríkisborgarar eða ætla að verða það. Án þessa fólks er algjörlega útilokað að við höfum þau lífskjör í landinu sem við erum með. Okkur hefur hins vegar gengið misjafnlega að koma þessu fólki inn í samfélagið, að þau hafi möguleika á að læra íslensku. Að þau séu beinir þátttakendur í samfélaginu okkar. Þegar börnin þeirra koma í leikskólann og þau tala auðvitað íslensku, að þau hafi samt nægilega góða möguleika til að þróast og þroskast eins og börn þeirra sem að eiga íslenska foreldra, sem sagt frá upphafi.“

Sigurður Ingi sagði ljóst að þetta væri risavaxið verkefni:

„Þetta er risa verkefni sem að þessi ríkisstjórn hefur talað mjög mikið um á ríkisstjórnarfundum og við höfum verið að setja aukna athygli og fjármuni í. Þetta er stærsta verkefnið fyrir komandi kynslóðir. Við sjáum fram á það að 20 prósent þjóðarinnar eru af erlendum uppruna. Þá viljum við sem búum á þessu landi að þau börn, sem eru þá 20 prósent, …. þá viljum við að þau börn hafi sömu tækifæri og öll önnur börn á Íslandi. Vegna þess að þróun Íslands, framganga Íslands, byggir á því að komandi kynslóðir eigi eins góð tækifæri og mögulegt er.“

Sigurður Ingi vék síðan að hælisleitendum:

„Það er verkefni sem að var hér stjórnlaust fyrir nokkrum árum. Kostnaðurinn við þann málaflokk var sennilega kominn í 25 milljarða á síðasta ári. Í upphafi þessa árs þá stefndi hann í sirka 28 milljarða á þessu ári. 2015 vorum við að tala um einhverjar 500 milljónir og örfáa sem sóttu hingað … Það sem við gerðum ríkisstjórnin í febrúar og tókst að breyta lögunum á þinginu um vorið og verklagið og áherslan sem við settum og hreinlega taka utan um málaflokkinn gerir það að verkum að á þessu ári verður kostnaðurinn ekki 28 eins og hann stefndi í í janúar, heldur nær 18 eða 19 (milljarðar króna, innsk. DV). Tíu milljörðum lægri og þá þróun munum við taka með okkur í næsta ár. Staðreyndin núna er sú að í lok ágúst, ég er ekki með nýrri tölur í hausnum, þá voru hér 1.400 manns sem höfðu sótt um alþjóðlega vernd, miðað við 3.000 á árinu 2023 og 3.000 2022.“

Þróa kerfið

Sigurður Ingi bætti við að af þessum 1.400 væru 900 Úkraínumenn sem fengju allir sjálfkrafa vernd. Eftir stæðu þá 500 og sá fjöldi væri viðráðanlegur:

„Við eigum að halda áfram að þróa okkar kerfi. Við eigum auðvitað að vera með sambærilegt regluverk og Norðurlöndin.“

Sigurður Ingi sagði málefni hælisleitenda og þeirra útlendinga sem flyttu til landsins á öðrum forsendum væru ólík en bætti síðan við um fyrrnefnda hópinn:

„Við erum að ná tökum á þessu. Þetta er allt önnur staða en var fyrir einu eða tveimur árum.“

Sigurður Ingi lagði síðan áherslu á að Framsóknarflokkurinn vildi að Ísland fylgdi alfarið eftir regluverki Norðurlandanna í málefnum hælisleitenda. Hann lagði ítrekað í viðtalinu áherslu á að gera greinarmun á milli hælisleitenda og fólks af erlendum uppruna sem sest hefði að á Íslandi og væri orðinn hluti af íslenskum vinnumarkaði. Það væri Íslandi fyrir bestu að gera vel við þennan síðarnefnda hóp.

Mannúðin

Í umræðum á RÚV sem voru sýndar þremur dögum eftir að viðtalið í Einni pælingu var birt var hins vegar komið nokkuð annað hljóð í Sigurð Inga. Þar lagði hann áherslu á mannúð í útlendingamálum, líka gagnvart hælisleitendum:

„Það hefur auðvitað verið augljóst um langan tíma hvað sérstaklega Miðflokkurinn og Sigmundur, Sjálfstæðisflokkurinn með Bjarna, Flokkur fólksins með Ingu og meira að segja Samfylkingin með Kristrúnu eru hörð í útlendingamálum … Og ég segi bara eigum við að láta eins og svokölluð útlendingamál séu eitthvað stórkostlegt vandamál á Íslandi? Eitthvað stórkostlegt? Þegar kostnaðurinn við þetta er rúmlega 1 prósent af ríkisfjármálunum og fer hratt lækkandi. Hvað er endamarkið og hvað er vandamálið? Er það vandamálið að fólk talar ekki íslensku? Kennum þeim þá íslensku!“

Sigurður Ingi lagði í þessari ræðu sinni þó áherslu á eins og hann gerði í viðtalinu í Einni pælingu að blanda ekki ólíkum hópum útlendinga saman þegar þessi málaflokkur væri ræddur. Áhersla hans á RÚV þegar kemur að hælisleitendum var þó í mun meira mæli á mannúð en að minnka kostnaðinn og fækka þeim og herða löggjöfina eins og hann gerði í viðtalinu í Einni Pælingu:

„Mér finnst þetta virðingarleysi fyrir fólki af erlendum uppruna, fyrir neðan virðingu íslensku þjóðarinnar. Það er stríð í Evrópu, það er stríð í Palestínu. Og hvað eigum við að gera? Loka augunum? Loka eyrunum? Sitja þegjandi hjá?“

Sigurður Ingi gagnrýndi einnig þá flokksleiðtoga sem voru andsnúnir því að palestínskur drengur, Yaz­an Tamimi sem er langveikur, fengi hæli á Íslandi en sú varð raunin fyrir skömmu eftir að brottvísun hans var stöðvuð.

Í lok ræðunnar skilgreindi Sigurður Ingi flokk sinn sem flokk mannúðar í útlendingamálum og sagði að ef það kostaði flokkinn atkvæði yrði svo að vera.

Það er því óhætt að segja að áherslubreytingarnar eru töluverðar í þessari ræðu frá hinum títtnefnda viðtali í Ein pæling, sem birtist þremur dögum fyrr.

Ljóst virðist að Framsóknarflokkurinn hefur á nokkrum dögum ákveðið að marka sér sess í útlendingamálum nær áherslum Pírata og Vinstri grænna og fjær Sjálfstæðisflokknum, Miðflokknum, Flokki fólksins og Samfylkingunni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Eiginkona Assads sögð ætla að sækja um skilnað

Eiginkona Assads sögð ætla að sækja um skilnað
Fréttir
Í gær

Siggi lýsir fyrstu jólunum án sonarins sem lést á árinu – „Maður er foreldri áfram. Maður verður að sýna andlitið“

Siggi lýsir fyrstu jólunum án sonarins sem lést á árinu – „Maður er foreldri áfram. Maður verður að sýna andlitið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir