Þar skýtur hann á Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, vegna myndbands sem Sjálfstæðisflokkurinn birti á samfélagsmiðlum fyrir helgi þar sem Bjarni sást skera út grasker í gróðurhúsi í Garðabænum.
„Ef menn héldu út til enda þá snéri hann graskerinu við og þar stóð „Vinstri stjórn“ sem var að sögn formannsins það hræðilegasta sem gæti komið fyrir íslenska þjóð,“ segir Bergþór sem bætir við að þessu sé hann sammála.
„En gallinn er hins vegar sá að formaður Sjálfstæðisflokksins bauð íslensku þjóðinni sjálfur upp á vinstristjórn síðastliðin sjö ár og tók svo við stjórnartaumunum í þeirri sömu vinstristjórn undir lokin. Afrakstur þessara sjö ára af vinstristjórn í boði Sjálfstæðisflokksins er auðvitað öllum kunnur – orkuskortur, óstjórn í útlendingamálum, útþanið ríkisbákn og óráðsía í ríkisfjármálum sem skilar í dag háum vöxtum og langvinnri verðbólgu,“ segir Bergþór og heldur áfram:
„En svo til að taka af allan vafa um fótfestuleysið skelltu þeir loftmenni á þak Valhallar sem dansar um eins og lauf í vindi – svolítið eins og þingflokkurinn á köflum síðustu ár.“
Bergþór nefnir svo annað dæmi af Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins, sem „hefur setið í sömu vinstristjórn“ og Bjarni síðastliðin sjö ár.
„Hann ákvað á dögunum að gagnrýna eigið ráðaleysi við stjórn landsins hvað varðar aðlögun þeirra sem hingað flytjast frá öðrum löndum. Hann var reyndar ekki búinn að læra nýju frasana frá auglýsingastofunni utan að og las þá því upp af snjallsímanum sínum í beinni,“ segir hann.
„Formaðurinn sagði að ef útlendingavandi væri yfir höfuð til staðar, þá fælist hann í því að okkur hefði meðal annars ekki tekist að kenna þeim sem hingað koma íslensku. Þarna gleymdi hann, eða auglýsingastofan, eflaust að Framsóknarflokkurinn hefur haldið á menntamálum í meginatriðum á líftíma vinstristjórnarinnar síðustu sjö ár.“
Bergþór segir að þetta hafi minnt hann á á strútinn sem stingur höfðinu í sandinn þegar vandi eða hætta steðjar að.
„Verra er ef strúturinn reynir að sannfæra fólk um að þetta sé samt allt að koma – þegar ekkert bendir til að svo sé undir hans stjórn,“ segir hann og endar grein sína á þessum orðum:
„En það er kominn tími til að leggja tragíkómíkinni, beita skynseminni og ná árangri fyrir Ísland. Miðflokkurinn gerir það sem hann segist ætla að gera og árangur okkar fólks þegar tækifæri gafst er öllum ljós. Við stingum ekki hausnum í sandinn heldur horfumst í augu við rót hvers vanda og ráðumst að honum með skynsemina að vopni. Virkjum, byggjum, stjórnum landamærunum og lækkum skatta. Þetta er ekki flókið, með Miðflokknum. Áfram Ísland.“