Reynsluboltinn Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er sá þingmaður sem að talaði minnst úr ræðupúlti Alþingis á kjörtímabilinu sem senn rennur sitt skeið. DV tók saman ræðutíma og ræðu fjölda Alþingismanna síðastliðin fjögur ár og það leiðir í ljós að Ásmundur hefur talað sjónarmun minna en Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, en Lilja var yngsti þingmaðurinn á þessu kjörtímabili.
Alls hefur Ásmundur haldið 137 ræður á þinginu síðastliðin fjögur ár og alls talað í 359.29 mínútur, sem gera rétt tæplega 6 klukkustundir. Lilja Rannveig hefur á sama tíma tjáð sig í 136 skipti en örlítið lengur en Ásmundur, alls 360,35 mínútur.
Til samanburðar hélt ræðukóngur Alþingis, sem greint verður frá á morgun, 1793 ræður á Alþingi og talaði í alls 5046.45 mínútur.
Tómas A. Tómasson, þingmaður Flokks fólksins var í þriðja sæti yfir þá þingmenn sem töluðu minnst á kjörtímabilinu. Alls hélt Tómas 150 ræður og talaði í samtals 400.86 mínútur en hann er eini fulltrúi minnihlutans á topp fimm listanum. Færri ræður hélt Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, alls 143 en hún talaði lengur en Tómas eða í alls 417.85 mínútur og endar því fjórða sæti.
Fimmta sætið skipar svo Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, en hún talaði í samtals 182 skipti og alls í 482 mínútur.
Sá ráðherra sem talaði minnst var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem tjáði sig í 212 skipti á kjörtímabilinu og alls í 532.79 mínútur. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, tjáði sig næst minnst eða í 241 skipti og í 593,98 mínútur alls. Í þriðja sæti var svo Lilja Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, sem tjáði sig í 298 skipti og alls í 758.46 mínútur.
Til samanburðar stóð öflugasti ráðherrann í ræðupúlti Alþingis í 2.172.87 mínútur og tjáði sig í alls 809 skipti.
Rétt er þó að taka fram, eins og þingmenn benda gjarnan á, að meginþorri vinnunnar á Alþingi fer fram í nefndum þingsins, fjarri sjónum almennings. Mæting í ræðupúlt Alþingis og að standa fyrir máli sínu segir því aðeins örlítinn hluta sögunnar.