„Síðastliðið sumar fóru fram mótmæli víða í Evrópu vegna mikils ágangs ferðamanna; í Amsterdam á að setja skorður á byggingu nýrra hótela og í Feneyjum mun skattur á ferðamenn tvöfaldast á næsta ári. Þannig að það hefur aldrei verið betri tími en nú til að hugsa út fyrir boxið – sérstaklega þar sem fólk á það til að líta fram hjá mögnuðum stöðum í Evrópu,“ segir í umfjöllun Time Out.
Í 1. sæti á listanum er bærinn Ulcinj í Svartfjallalandi. Þetta er strandbær í dásamlegu umhverfi þar sem um 12 þúsund íbúar búa. Í 2. sæti eru Árósir í Danmörku og í því þriðja er þjóðgarðurinn Geres í Portúgal. Í fjórða sæti er svo eyjan Gozo sem tilheyrir Möltu.
Í 5. sæti eru svo hinar einu og sönnu Vestmannaeyjar og ætti það ekki að koma neinum á óvart sem heimsótt hefur þennan fallega stað sem á sér einnig magnaða sögu. Í umfjöllun Time Out kemur fram að Vestmannaeyjar séu líklega „best geymda leyndarmál Íslands“.
Í umfjölluninni er bent á að það sé hægt að gera margt skemmtilegt í Eyjum; fara í bátsferðir, gönguferðir og læra um eldgosið 1973 í Eldheimum. „Maturinn er líka einn sá besti í landinu.“
Hægt er að sjá allan listann á vef Time Out.