The Economist, The Wall Street Journal og Kyiv Post skýrðu nýlega frá ýmsum atriðum í samningi ríkjanna. Þau gerðu „samstarfssamning“ í sumar þegar Vladímír Pútín, sem er í raun einræðisherra í Rússlandi, heimsótti starfsbróður sinn Kim Jong-un í Norður-Kóreu.
Í samningnum er að sögn Pútíns kveðið á um gagnkvæma aðstoð ríkjanna ef ráðist er á annað þeirra. Þetta sagði hann á fréttamannafundi þegar samningurinn var undirritaður. Við það tækifæri sagði hann einnig að Rússlandi útiloki ekki hernaðarsamstarf við Norður-Kóreu.
Kyrylo Budanov, yfirmaður leyniþjónustu úkraínska hersins, sagði í samtali við The Economist að megininnihald samningsins sé að Norður-Kórea eigi að leggja Rússum til hermenn, herforingja og hershöfðingja sem eigi að berjast með Rússum í Úkraínu. Þess utan skuldbatt Norður-Kórea sig til að senda Rússum 1,8 milljónir skotfæra áralega auk flugskeyta.
Á móti muni Rússar veita Norður-Kóreu efnahagsaðstoð og láta þeim tækniþekkingu í té. Þar sé um að ræða háþróaða tækni. Einnig muni þeir aðstoða Norður-Kóreu við þróun og smíði kjarnorkuvopna. Nánar tiltekið muni Rússar aðstoða við þróun vígvallarkjarnorkuvopna og kerfa til að skjóta flugskeytum úr kafbátum.