Efnafræðistofnun Evrópu (ECHA) hefur fundið vel á þriðja hundrað snyrtivörur sem innihalda efni sem eru bönnuð samkvæmt Evrópureglum. Rannsóknin var meðal annars unnin hér á Íslandi.
Euronews greinir frá þessu.
Stofnunin rannsakaði 4.500 snyrtivörur í þrettán löndum. Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Þýskalandi, Austurríki, Liktenstein, Lúxemborg, Ítalíu, Möltu, Litháen og Rúmeníu. Alls fundust 285 vörur sem innihéldu bönnuð efni. Eða um 6 prósent.
Mörg efnin sem fundust voru svokölluð PFAS efni, eða eilífðarefni. Þetta eru efni sem tærast ekki í umhverfinu og hafa slæm áhrif á bæði heilsu fólks og umhverfið, og er talið krabbameinsvaldandi. Þessi eilífðarefni fundust meðal annars í augnblýöntum og varablýöntum.
Annað efni, cyclotetrasiloxan eða D4, fannst í sumum brúsum af hárnæringu og í andlitsmöskum. En það er talið valda ófrjósemi.
„Neytendur ættu að vera upplýstir um það að bönnuð efni fundust í mörgum mismunandi tegundum af snyrtivörum, frá mörgum framleiðendum og í mörgum verðflokkum,“ segir í tilkynningu frá ECHA.
Eftir rannsóknina hafa yfirvöld í sumum löndum brugðist við og látið taka viðkomandi vörur úr sölu.
Í annarri rannsókn, sem frönsku umhverfissamtökin Vert létu gera, kom í ljós að eilífðarefni hafi fundist í snyrtivörum frá Sephora og Kiko.