Guðmundur Ingi benti á að á morgun, 10. október, er alþjóðageðheilbrigðisdagurinn og velti hann því upp hvaða framfarir hafi orðið í geðheilbrigðismálum hér á landi á síðustu árum. Guðmundur opnaði sig sjálfur um erfiða reynslu þegar hann missti vin sinn í sjálfsvígi.
„Það er áratugur síðan ég missti vin sem var útskrifaður af geðdeild. Beðið var um að þegar viðkomandi yrði útskrifaður af geðdeild að samband yrði haft við einhvern til að taka á móti honum, en það var ekki gert. Viðkomandi fór heim til sín og tók sitt eigið líf. Skýringin á því að við fengum ekki upplýsingar um þetta var persónuvernd. Hvernig getur persónuvernd skákað lífinu,“ spurði hann í ræðu sinni og hélt áfram:
„Hverjar eru framfarirnar á þessum áratug? Hvernig er staðan í dag? Því miður er það nákvæmlega sama að ske. Við erum að útskrifa fólk af geðdeildum án þess að hafa nokkuð með það að gera að einhver taki á móti því. Þetta tekur mannslíf. Við erum að sjá þetta bitna á fjölskyldum, á börnum, og það er okkur til háborinnar skammar að ríkisstjórnin geti ekki séð til þess í eitt skipti fyrir öll að koma geðheilbrigðismálum í réttan farveg.“
Hann sagði að það væri algjörlega óverjandi að börn þurfi að bíða, ekki í vikur, ekki í mánuði, heldur ár, jafnvel tvö, þrjú ár eftir greiningu.
„Það á ekki að geta átt sér stað að við segjum við börn: Þið bíðið. Það gerir sér enginn grein fyrir því nema þeir sem eru með börnin og viðkomandi fjölskylda hvaða álag þetta setur á fjölskylduna, hvaða afleiðingar þetta hefur. Við erum að búa til öryrkja inn í framtíðina með því að hafa biðlista og við erum komin svo langt í biðlistamælingunni að við erum farin að neita fólki um að komast á biðlista til þess að það geti ekki leitað sér hjálpar erlendis, vegna þess að það á rétt á því að fara þangað ef það fær ekki sína þjónustu á Íslandi eftir þrjá mánuði.“
—
Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.