Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar og björgunarsveitir á Austurlandi hafa verið kallaðar út vegna tilkynningar um að einstaklingur hafi falið í ánna Jöklu við Stuðlagil.
RÚV greindi fyrst frá.
Tilkynning um málið barst klukkan hálf þrjú í dag. Víðtæk leit er hafin. Hérað, Jökull og fleiri björgunarsveitir á Austurlandi eru að störfum.
Þyrla Landhelgisgæslunnar fór af stað frá Reykjavík klukkan 15:15 og á að lenda um einum og hálfum tíma seinna. Önnur þyrla er einnig á leiðinni með kafara frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.
Samkvæmt tilkynningu Lögreglunnar á Eskifirði sást einstaklingur fljóta í ánni en hvarf svo sjónum. „Viðbragðsaðilar voru strax kallaðir til leitar, lögregla og björgunarsveitir auk þyrlu landhelgisgæslunnar,“ segir í tilkynningu lögreglunnar en ekki verði frekari upplýsingar veittar að svo stöddu.
Uppfært:
Erlend kona á fertugsaldri, ferðamaður, fannst látin við ánna skömmu fyrir klukkan 17. Lögreglan á Austurlandi greinir frá þessu.