Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War hefur þetta eftir úkraínskum flotaforingja sem lýsti þessu sem „dularfullu“ mannvirki. Hann sagðist telja að þetta sé annaðhvort einhverskonar „vatnstækni“ mannvirki eða einhverskonar hindrun. Þessi sami flotaforingi sagði í samtali við Kyiv Independent að ekki sé heldur hægt að útiloka að þetta eigi að vera ný tenging á milli rússneska meginlandsins og Krímskaga eða varnarvirki, enn sé of snemmt að segja til um það.
Hin 19 kílómetra langa Kerch-brú er eina beina tengingin á milli Krímskagans og rússneska meginlandsins og því skiptir hún Rússa gríðarlega miklu máli.
En Úkraínumenn réðust á brúna 2022 og 2023 og er mikilvægi hennar mun minna eftir þessar árásir því Rússar nota brúna minna en áður af ótta við nýjar árásir segir Kyiv Independent.
Úkraínski flotaforinginn sagði að óháð því hvaða tilgangi nýja mannvirkið á að þjóna, þá muni það reynast Rússum erfitt að ljúka smíðinni.