Atvikið átti sér stað í umdæmi lögreglustöðvar 4, sem sinnir Grafarvogi, Mosfellsbæ og Árbæ, en frekari upplýsingar um staðsetningu liggja ekki fyrir.
Í skeyti frá lögreglu kemur fram að lögregla hafi verið með mikinn viðbúnað og voru tveir einstaklingar handteknir á vettvangi. Rannsókn málsins miðar vel en einn var fluttur á slysadeild með stunguáverka en ekki er vitað með ástand hans.
Fleiri óhugnanleg mál komu inn á borð lögreglu í gærkvöldi og í nótt.
Í umdæmi lögreglustöðvar 1, sem sinnir Austurbæ, miðbænum, Vesturbænum og Seltjarnarnesi, var tilkynnt um mann með hníf fyrir utan húsnæði í miðborginni. Maðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð vegna málsins.
Þá var lögregla í sama umdæmi kölluð til vegna líkamsárásar. Á leið á vettvang bárust þær upplýsingar að gerandi væri búinn að taka bifreið þess sem hann réðst á og væri á leið af vettvangi. Gerandinn var stöðvaður í akstri skömmu síðar á bifreiðinni og var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis/fíkniefna ásamt því að vera grunaður um fleiri brot.